Þorkell Jónsson fæddist í Reykjavík 14. apríl 1940. Hann lést á Landakoti 27. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Jón Þorkelsson, f. 14. nóvember 1908, verkstjóri hjá Skeljungi, og Guðríður Einarsdóttir, f. 2. nóvember 1911, húsmóðir. Þau bjuggu lengst af á Grenimel 8 í Reykjavík. Þau eru bæði látin.

Systkini Þorkels eru Kristín, f. 21. maí 1934, látin, Einar, f. 1935, látinn, Óskar, f. 1941, Þór, f. 1941, Örn, f. 1944, Svanborg, f. 1947, látin, Guðmundur Ingi, f. 1949, og Ásgeir, f. 1951.

Hinn 21.11. 1959 giftist Þorkell Lilju Ólafsdóttur, f. 4. maí 1940. Foreldrar Lilju voru Arndís Pétursdóttir, f. 24.1. 1914, húsmóðir, látin, og Ólafur Haraldur Ólason, f. 15.10. 1904, húsgagnasmiður, látinn.

Börn Þorkels og Lilju: 1) Jón, f. 1960, giftur Steinunni Sigurbergsdóttur, f. 1963. Börn þeirra eru Hildur Elísa, f. 1993, Þóra Kristín, f. 1997, og Þorkell, f. 2001. 2) Brynja, f. 1963, börn hennar eru Arndís Hrund, f. 1988, Aron, f. 1991, og Íris, f. 1994. Núverandi sambýlismaður Kristján Guðmundsson, f. 1969, dóttir hans er Kristjana Sigríður, f. 1999. 3) Auður, f. 1965, gift Kristjáni Ólafi Guðnasyni, f. 1965. Börn þeirra eru Guðni Páll, f. 1989, og Dagbjört Lilja, f. 1995. 4) Lilja, f. 1971, gift Árna Páli Hafsteinssyni, f. 1968. Börn þeirra eru Andrea Sif, f. 1998, Róbert Orri, f. 2002, og Brynjar Dagur, f. 2008.

Þá eru ótalin makar barnabarna og barnabarnabörnin sem eru orðin 11 talsins.

Árið 1963 fluttust þau hjónin til Ólafsvíkur þar sem Þorkell gerðist skrifstofustjóri hjá Kaupfélagi Ólafsvíkur og varð síðar kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélagi Ólafsvíkur og Hellissands. Árið 1968 varð hann skrifstofustjóri hjá Tímanum fréttablaði uns hann tók við útibússtjórastöðu hjá Samvinnubankanum í Hafnarfirði árið 1971. Árið 1991 sameinaðist Samvinnubankinn Landsbankanum og var Þorkell áfram útibússtjóri í Landsbankanum bæði í Hafnarfirði og aðalútibúi Landsbankans í Reykjavík uns hann lét af störfum 65 ára árið 2005.

Útför Þorkels fer fram í Lindakirkju í dag, 15. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku afi minn.

Ég sé þig fyrir mér sólbrúnan og sælan með derhúfu sitjandi í sólinni í sveitinni, veit þú fylgist með okkur, fólkinu þínu sem þú varst alltaf svo stoltur af. Minningarnar hafa streymt fram síðustu vikur. Með árunum áttar maður sig á því að það eru litlu einföldu stundirnar sem verða stærstu og notalegustu minningarnar. Ég minnist svo margs; helgarmorgna hjá ömmu og afa á Grenimel, ristabrauðslykt í loftinu, Rás 1 í útvarpinu, hlýtt afaból, spila við afa, sundferða, trérólunnar í garðinum og allra ljúfu stundanna þegar við fjölskyldan fengum að búa í kjallaranum hjá ykkur um tíma. Það er mér svo dýrmætt hve stóran part þið amma eigið af barnæsku minni.

Þú hefur alltaf verið minn helstu stuðningsmaður, hvattir mig mest allra í náminu mínu. Vísurnar þínar til mín á stórum tímamótum í mínu lífi mun ég varðveita eins og gull.

Ég mun sakna þín elsku afi, sakna þess að spjalla við þig um daginn og veginn í heimsóknum okkar í Sjálandið, ég mun sakna þess að hafa þig í sveitinni þar sem þú kíktir reglulega við til þess að taka út smíðina, ég mun sakna þess að heyra sögur af gönguferðum og ferðalögum ykkar ömmu sem hafa verið mér innblástur í okkar ferðum og mikið sem ég mun sakna þéttingsfasta faðmlagsins. Ég er svo þakklát fyrir að stóru stelpurnar okkar fengu að njóta þín fyrstu árin sín en um leið sorgmædd yfir því að litlan okkar fái það ekki. Vildi óska þess að heilsan hefði gefið þér aðeins lengri tíma hér, við hlið ömmu.

Takk fyrir allt elsku afi Keli.

Þín

Arndís Hrund.

Afi var ekki orðmargur en það sem hann sagði skipti máli. „Mér þykir vænt um þig stelpa,“ segir hann og knúsar mig bless, þau orð get ég huggað mig við. Afi var hlýr, hnyttinn og til staðar. Hann gleymdi engu sem maður sagði honum, eldklár, góður með tölur en listrænn var hann líka. Hann átti það til að semja ljóð og limrur, fór ekki hátt með þann hæfileika en lunkinn var hann. Hér er því eitt ljóð til hans afa Kela:

Þögli kletturinn þegjandi fór,

þreyttur, friðsæll, táraflóð.

Léttur stóðst hann sína lífsþraut

og lífsins fölskvalaust naut.

Rólegur risi, ljúfur gleðigjafi,

rökfastur og bestur, elsku afi.

Hann hefur nú sitt vængjaflug,

hress og bara stanslaust stuð.

Mér þykir vænt um þig afi.

Þitt barnabarn,

Dagbjört Lilja Kristjánsdóttir.

Á vordegi 1959 komu nokkrir strákar saman sem léku í þriðja flokki KR í knattspyrnu árið 1956 og stofnuðu félag sem fékk nafnið KR-56. Í félaginu voru 10 leikmenn auk þjálfaranna Sigurgeirs Guðmannssonar og Atla Helgasonar. Markmið félagsins var að halda hópinn og minnast glæsilegra sigra þegar þriðji flokkur KR vann alla leiki sumarsins 1956 með markatölunni 53-4. Ákveðið var að félagarnir kæmu saman einu sinni á ári, ræddu málefni knattspyrnunnar á hverjum tíma og þá sérstaklega allt sem varðaði framgang okkar gamla góða félags KR. Í þessu sigursæla liði var Þorkell Jónsson sem við kveðjum í dag. Þorkell lék í miðju varnarinnar og var traustur og yfirvegaður leikmaður sem átti ekki síst þátt í að andstæðingum okkar tókst ekki að skora fleiri mörk á okkur en markatalan sýnir.

Frá stofnun félagsins hittist þessi hópur árlega í yfir 50 ár og skemmti sér saman. Fyrstu árin var þetta strákaklúbbur en síðan með eiginkonum. Mikil samheldni hefur einkennt þennan hóp og öll höfum við haft ómælda ánægju af samverustundum okkar. Oftast voru fundir okkar haldnir í Reykjavík en einnig var farið í nokkrar ferðir innanlands og einu sinni til útlanda. Á öllum þessum samkomum okkar var Þorkell traustur og skemmtilegur félagi.

Nú þegar komið er að leiðarlokum fyllumst við öll þakklæti fyrir þær mörgu ánægjustundir sem við höfum átt saman hjá KR-56. Við munum ávallt minnast Þorkels sem góðs vinar og félaga.

Elsku Lilja, við sendum þér og fjölskyldu hugheilar samúðarkveðjur.

F.h. KR-56,

Gunnar Felixson.