Guðjón Jensson
Við upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar í september 1939 lagði þýski herinn Pólland undir sig eins og kunnugt er í samstarfi við Stalín. Aðfaranótt 1. september, eftir að það spurðist að þýskur her hefði ráðist austur yfir landamærin, lagði breski sendiherrann í Berlín ríka áherslu á að ná samtali við Hitler en án árangurs. Fyrir Breta var mikilvægt að reyna að semja við þýsku ríkisstjórnina um þýska að herliðið yrði dregið til baka enda höfðu Bretar og Frakkar gert samning við Pólverja um að ábyrgjast landamæri þeirra við Þýskaland. Þarna var spurning um tryggan aðgang Pólverja að Eystrasaltinu og þar með sjó. En stríðsáhugi Hitlers var meiri en friðarvilji. Niðurstaðan varð sú að Bretar og Frakkar lýsa yfir stríði 3. september við Þýskaland og þar með hefst síðari heimsstyrjöldin.
Líklega hefur sjaldan verið
uppi jafnmikill áhugamaður um stríðsátök og Adolf Hitler. Fáir hafa reynst jafnokar hans í grimmd og sýnir miskunnarleysi SS-sveitanna á hans snærum það gjörla.
Maður er nefndur Johannes Albrecht Blaskowitz, fæddur 1883 í héraðinu Kalíningrad sem þá var undir Austur-Prússlandi. Hann gekk snemma í þjónustu hersins og sat í þýska herráðinu síðan í fyrri heimsstyrjöldinni. Í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar var honum falin stjórn 8. hersins og með innrásinni í Pólland er hann æðsti herforingi þeirrar aðgerðar.
Í febrúar 1940, þegar svo var komið að öll andstaða gegn hernáminu var niður brotin, sest von Blaskowitz við skrifpúlt sitt og skrifar ákæruskjal gegn 33 háttsettum SS-mönnum. Honum ofbauð hversu langt SS-menn gengu við að brjóta mannréttindi á óbreyttum borgurum. Í kjölfar hersins þustu SS-sveitirnar fram af sinni alkunnu grimmd og siðleysi og drápu fjölda Pólverja sem voru vopnlausir og áttu því enga von til að verja sig. Herforingja 8. þýska hersins ofbauð þetta og vildi að réttað yrði fyrir afglöp þeirra sem sýnt höfðu af sér óskiljanlegt miskunnarleysi gagnvart óbreyttum borgurum.
Ákæra undir svona kringumstæðum sætir rannsókn fyrir herrétti og ef satt reynist þá er refsað mjög harkalega, oft með aftökum, séu málsatvik ljós og engar viðhlítandi skýringar til málsbóta og varnar.
En þetta snerist í höndunum á von Blaskowitz. Hitler tekur þá ákvörðun að sýkna þá ákærðu með það sama og von Blaskowitz er eftir þetta settur skör lægra. Hann hafði ekki staðist væntingar NSDAP, hins þýska nasistaflokks Hitlers.
Johannes von Blaskowitz var af gamla herskólanum en í þá daga tíðkaðist að lesa rit Carls von Clausewitz (1780-1831) sem var herforingi í herliði Prússakonungs á öndverðri 19. öld. Þetta rit, Vom Kriege (On War), hefur verið eitt meginlestrarefni við alla herskóla heims allar götur síðan. Þar er mikil áhersla lögð á baráttutækni og skipulag hernaðar gagnvart óvininum en ætíð skyldi þyrma óvopnuðum óbreyttum borgurum. Slíkt sparaði skotfæri og gaf ekki tilefni til að litið væri á hernaðaraðgerð sem illvirki. Eitt megininntak ritsins er að herforingja og þeim veraldlega fursta sem hyggst hefja stríð beri skylda til að gera sér ljósa grein fyrir hvernig hann hyggist enda stríðið sem hann byrjaði á. Það gæti bæði dregist og eins snúist viðkomandi í óhag. Hvað ætti þá að taka við. Það er auðvitað mjög skynsamlegt að huga að endalokunum rétt eins og upphafinu.
Á uppgangstímum nasista tekur Hitler yfirstjórn þýska hersins 1934. Þá er ýmsu breytt, t.d. gamla hermannaeiðnum þar sem öllum þeim sem höfðu mannaforráð í hernum bar að sverja Weimar-lýðveldinu hollustu. Áður hafði eiðurinn snúið að keisaranum og nú tekur Hitler þá ákvörðun að allir liðsforingjar sverji honum persónulegan trúnað. Þannig er nafn eins manns komið í stað keisarans fyrri tíma.
Von Blaskowitz kemur lítið við sögu stríðsins eftir þetta annað en að hann var við þjónustu í Frakklandi og Niðurlöndum stríðsárin. Hann lést á voveiflegan hátt 1948, væntanlega saddur lífdaga.
Fréttir berast frá löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins þessar vikurnar um ótrúlegt ofbeldi af hálfu hvorra tveggja, Hamas-liða og hersveita Ísraels. Nú má ætla að þarna sé á ferðinni algjört miskunnarleysi á báða bóga. Það er eins og viðkomandi stríðsaðilar láti mannréttindi og góðar siðvenjur sig engu varða.
Er miskunnarleysi SS-sveita Hitlers orðið mikilvægara en sjónarmið Carls von Clausewitz frá öndverðri 19. öld? Er enginn herforingi Ísraels með áþekkar efasemdir og Johannes von Blaskowitz gagnvart ofbeldinu?
Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.