Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Mögulegt er að loðnu hafi orðið vart í Rósagarðinum svonefnda, sem er fiskimið suðaustur af landinu, en þrjú skip sem voru af koma af kolmunnaveiðum á miðunum suður og suðaustur af Færeyjum fengu lóðningar sem gáfu til kynna að umtalsvert magn af loðnu eða síld væri á svæðinu.
Hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni og uppsjávarskipinu Polar Ammassak, sem verið hefur í loðnuleit norðaustur af landinu, var stefnt á svæðið og búist var við því að þau kæmu þangað í gærkveldi.
Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að torfu hefði orðið vart á þessum slóðum í fyrradag þegar Svanur RE og síðan Hákon EA urðu varir við torfuna.
„Við fengum skipin, í samvinnu við útgerðirnar, sem eru að koma af kolmunnamiðunum sunnan við Færeyjar til að raða sér upp eftir mismunandi línum á landleiðinni til Austfjarðahafna og leita að loðnu á innstíminu. Það bar strax þennan árangur, Svanur sá strax ágætis torfur og í kjölfarið voru Hákon EA og Hoffell SU fengin til að fara 10 mílum sitthvoru megin við Svan og sáu þau torfur líka á þokkalega stóru svæði,“ segir Guðmundur.
Spurður hvort hægt sé að áætla það magn sem kunni að vera á ferðinni segir Guðmundur að þetta hafi verið ágætis lóðningar en erfitt sé að segja til um það á þessu stigi máls.
„En það var ganga þarna á ferðinni, það er augljóst. En það er ekki staðfest enn að þetta sé loðna. Hákon ætlaði að reyna að taka sýni, en það gekk ekki vegna veðurs. Bjarni Sæmundsson er að fara á svæðið og veður er að verða gott til leitar og verður næstu tvo dagana,“ segir Guðmundur. Bjarni mun taka sýni úr torfunni til að kanna með tegundasamsetningu og lengdardreifingu, en lengd fisksins skiptir máli þegar verið er að umreikna bergmálsgildin sem koma út úr rannsóknunum yfir í fjölda fiska.
Guðmundur segir að takast muni að ná yfir leitarsvæðið á tveimur til þremur dögum. „Og ef þetta er loðna, þá er gott að hún sé að koma til hrygningar og að verður bónus ef kvóti kemur út úr þessu,“ segir hann.
Þrjú uppsjávarveiðiskip hafa verið í loðnuleit það sem af er ári, Ásgrímur Halldórsson, Heimaey og Polar Ammassak, auk hafrannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar. Lítið hefur gengið hjá þeim enn sem komið er. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að eftir standi að fara yfir Vestfjarðamið en Heimaey og Polar Ammassak þurftu frá að hverfa þaðan um sl. helgi vegna veðurs. Einnig kom þar fram að líklegast yrði lögð áhersla á loðnuleit norðvestur af landinu og undan Vestfjörðum, ásamt Suðausturmiðum þar sem nú eru komnar fram vísbendingar um loðnu. Stórt svæði hefur þegar verið leitað norðan og austan við land, en lítið af loðnu fundist.
Spurður hvar sú loðna hafi haldið sig sem nú kann að hafa fundist segir Guðmundur að hún hafi mögulega haldið sig djúpt norður eða austur af landinu, sem ekki er alvanalegt, þótt áður hafi það hent. Þá sé ekki hægt að útiloka að loðna geti fundist undir ís vestur af landinu og kynni þá að koma fram í vesturgöngu, en slíkar göngur eiga sér stað öðru hvoru. Hann kveðst þó bjartsýnn á að loðnan sé loks fundin. „Við teljum að þetta sé loðna,“ segir hann.