Af listum
Einar Falur Ingólfsson
einarfalur@gmail.com
Bókin Sjáandi sálir hefst á drungalegri heilsíðuljósmynd sem var tekin fyrir heilli öld og sýnir Hnitbjörg, þá ævintýralegu byggingu, á grýttu og berangurslegu Skólavörðuholti. Og það er við hæfi að hefja verkið á umgjörðinni um það sem enn má sjá innan dyra í þessari furðuhöll, en undirtitill bókarinnar skýrir það vel: „Sjónarhorn á list Einars Jónssonar myndhöggvara.“ Óþekktur ljósmyndarinn sem myndaði byggingu Einars fyrir öld síðan fann áhugavert sjónarhorn á vinnustofu, heimili og safn þessa meistara margbrotinna þrívíðra verka og í bókinni tekst Sigurður Trausti Traustason, sem er formaður stjórnar safnsins, á við það að kynna listamanninn Einar fyrir lesendum og fjalla síðan um tíu valin verk hans og greina merkingu þeirra. Afhendir hann gestum sem koma á safnið og lesendum bókarinnar í raun lykla að skilningi á ýmsu því hvað listamaðurinn var að fara við sköpun verkanna, sköpun sem iðulega tók hann mörg ár og ýmiss konar undirbúningsverk áður en hann komst að niðurstöðunni sem hann taldi þá réttu. Bókin er gefin út af Listasafni Einars Jónssonar.
Sigurður Trausti er menntaður í sagnfræði og safnafræðum og er deildarstjóri við Listasafn Reykjavíkur. Hann hefur því fjölþætta reynslu af safnastarfi og sögu safna sem hefur nýst vel við gerð þessarar athyglisverðu bókar sem er myndarlega út gefin, 156 blaðsíður og bundin í hörð spjöld. Þetta er tvímála útgáfa, kaflarnir birtast fyrst á íslensku, svo á ensku; eftir inngang um útgáfuna og kafla þar sem fjallað er í stuttu máli um ævi Einars taka við kaflarnir tíu um jafn mörg verk. Aftast eru tímalína yfir ævi listamannsins og myndalisti með myndatextum. Á sjötta tug svarthvítra ljósmynda er í bókinni, njóta þær sín vel á þykkum pappírnum og eru mjög mikilvægur þáttur verksins. Flestar teknar meðan listamaðurinn Einar Jónsson (1874-1954) gekk enn um grundu og höfundar margra myndanna óþekktir en allnokkrar eru þó eftir nafntogaða meistara fyrri hluta tuttugustu aldar, feðgana Magnús Ólafsson og Ólaf Magnússon, og Vigfús Sigurgeirsson. Þá eru nokkrar myndir eftir Frank Guida. Mjög áhugavert er að sjá myndir af Einari í vinnustofum sínum á náms- og starfsárum ytra og svo í Hnitbjörgum, ýmist við vinnu eða uppstilltum – oft með Önnu (1885-1975), eiginkonu sinni sem fæddist í Danmörku og sat í festum í heil fimmtán ár meðan listamaðurinn var að koma undir sig fótum í ótryggu starfi. Dramatísk verk Einars hafa löngum heillað ljósmyndara og margar fínar myndir eru teknar fram og birtar af verkunum tíu sem Sigurður Trausti fjallar um, bæði skissur og endanleg verk, að hluta, í heild og stundum í samspili við önnur listaverk Einars í byggingunni eða þar sem þeim var komið fyrir.
Hönnuðurinn Ármann Agnarsson fer þá áhugaverðu leið að vísa til eldri hefða við bókahönnun, eins og með flúruðu skreyti á kápu og titilsíðu og vali á leturgerðum, en halda verkinu þó nútímalegu, til dæmis hvað varðar hvernig textinn situr á síðum og með tilvitnunum í stærra letri. Þessum lesanda finnst þó misráðið að hafa ekki myndatexta við myndirnar á síðunum heldur alla aftast, það hefur margoft komið út úr rannsóknum á lestri að lesandanum er þjónað best með því að geta séð skýringar á því hvað hann horfir á um leið og hann tekur það inn. Það er truflandi að þurfa að vera að leita aftast í bókina að skýringum; myndirnar eru allar svo góðar og áhugaverðar að skýringar hefðu þurft að sitja á síðunum með þeim. Þá er álitamál hvort betra hefði verið að prenta sérstaka útgáfu á ensku en pakka ekki báðum tungumálunum innan sömu spjaldanna – kosturinn við það er þó sá að með þessu móti má betur koma þetta mörgum góðum ljósmyndum fyrir.
Frelsi til að túlka
Myndhöggvarinn Einar Jónsson og hugmyndafræði hans standa að mörgu leyti fjarri nútímafólki og meðal annars þess vegna er þessi bók svo áhugaverð; hún skýrir hvað hann kann að hafa verið að fara og hvernig má skilja verkin í dag. Sigurður Trausti segir það hafa verið Einari mikilvægt að „leggja ekki hömlur á sköpunar- og túlkunarkraft áhorfandans og veita öllum frelsi til að túlka list sína“. Hann útskýrði verk sín sjaldan en sótti innblástur víða, í verkum hans eru til dæmis vísanir í goðafræði, guðfræði, dulspeki, þjóðsögur og sagnfræði, og hann lagði áherslu á að fara eigin leiðir í listinni. Þá segir Sigurður að í huga Einars hafi listaverk án dýpra inntaks og meiningar ekki verið nóg til að kallast list. Við undirbúning bókarinnar hafði Sigurður það í huga en líka hvað það væri sem gestir nú á 21. öld upplifðu í verkum Einars. Safnið bauð gestum að taka þátt í verkefni sem var kallað Nýtt sjónarhorn á list Einars Jónssonar, þar sem fólki var boðið að skrifa hugleiðingar um eitt eða fleiri þessara tíu verka og styðst Sigurður að einhverju leyti við þær pælingar sem gestirnir settu fram, en þar munu hafa birst margar áhugaverðar frásagnir og hugmyndir.
Sigurður Trausti ætlar sér ekki að reisa neina múra með skýringum, eins og hann segir, heldur sýna með dæmum hversu „auðvelt og gefandi það getur verið fyrir alla að virða fyrir sér listaverk, horfa fram hjá ytra byrði og reyna að gera sér í hugarlund hvað verkið þýðir …“ Öll markviss þróun í listum byggir á því sem áður hefur verið gert, sem áframhald eða andsvar, og til að skilja vel er oftast nær mikilvægt að þekkja forsöguna og hvernig unnið er úr hugmyndum. Það á vitaskuld við um skapandi samtímalistir en líka um það þegar horft er aftur á listsköpun fyrri tíma og eru margræð verk Einars gott dæmi um það, með sínum táknrænu vísunum. Þess vegna er svo áhugavert að lesa pælingar Sigurðar Trausta um verkin tíu, hressilegar og opnar, og fá lykla að því í hvað listamaðurinn var að vísa, en hann blandaði oft saman ýmsum goðsögum, þjóðsögum og ævintýrum.
Á köflum hefði texti bókarinnar mátt við þéttari ritstjórn. Til dæmis er fullt nafn listamannsins óþarflega oft tekið fram, í íslenskri málhefð er það ankannalegt að hafa föðurnafnið ítrekað með skírnarnafninu en er eðlilegra í ensku útgáfunni. Þá hefði til dæmis með frekari slípun textans mátt komast betur hjá kunnuglegum endurtekningum sem allir þekkja sem fjalla um listir, eins og að tala síendurtekið um „verk“.
Útgáfa vandaðra bóka um listaverkaeign, sýningar og hugmyndir að baki verkum og liststefnum er mikilvægur þáttur í starfsemi listasafna. Og bókin Sjáandi sálir – Sjónarhorn á list Einars Jónssonar myndhöggvara er gott dæmi um það og birtir athyglisverða sýn á og hugleiðingar um listaverkin í þeirri ævintýrahöll sem Hnitbjörg á Skólavörðuholti svo sannarlega er.