Fróðleikur Guðni Th. Jóhannesson við veggspjald í Hafnarfjarðarkirkju.
Fróðleikur Guðni Th. Jóhannesson við veggspjald í Hafnarfjarðarkirkju. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Minningu þeirra manna sem fórust með vitaskipinu Hermóði 18. febrúar 1959 eru gerð skil á sögusýningu þeirri sem opnuð var í Hafnarfjarðarkirkju um síðustu helgi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Minningu þeirra manna sem fórust með vitaskipinu Hermóði 18. febrúar 1959 eru gerð skil á sögusýningu þeirri sem opnuð var í Hafnarfjarðarkirkju um síðustu helgi. Aðalefni sýningarinnar er Hafnarfjarðartogarinn Júlí sem fór niður á Nýfundnalandsmiðum 8. eða 9. febrúar og með honum þrjátíu menn. Í þungu vetrarveðri þessa daga fyrir 65 árum gerðist fleira. Hermóður var að koma frá Eyjum þegar skipið fórst með tólf mönnum í stormi og stórsjó við Stafnes á Reykjanesskaga.

Egill Þórðarson loftskeytamaður í Hafnarfirði tók saman upplýsingar um Hermóð og örlög skipsins. Sr. Þorvaldur Karl Helgason dró svo saman ýmsan fróðleik um skipverja, ættir þeirra og skyldulið. Samantekt um þetta er að finna á veggspjöldum sem nú eru í safnaðarheimili kirkjunnar.

Skipstjóri á Hermóði í síðustu ferð var Ólafur G. Jóhannsson, sem alla jafna var þó stýrimaður. Fastur skipstjóri annars var Guðni Thorlacius (1908-1975), afi Guðna Th. Jóhanessonar núverandi forseta Íslands. Við undirbúning sýningarinnar var Guðni mönnum innan handar við ýmsa upplýsingaöflun, en sem sagnfræðingur hefur hann meðal annars lagt sig eftir landhelgismálum og sjávarútvegi. Einnig hefur honum runnið saga afa síns til rifja.

Í ávarpi sem Guðni Th. flutti við minningarstundina í Hafnarfjarðarkirkju gerði hann að umfjöllunarefni árangur sem náðst hefði í slysavarnamálum sjómanna. Nú liðu jafnvel heilu árin án þess að mannskaði yrði á hafi úti. Miklu hefði líka verið kostað til.

Frá byrjun 20. aldar hefðu aukin lífsgæði og framfarir á Íslandi að miklu byggst á framförum í sjávarútvegi. Jafnhliða því hefði öryggi til sjávar verið aukið. Þarna hefði mjög munað um vitaskipið Hermóð sem kom til landsins árið 1947 og naut við í tólf ár. „Þar um borð lögðu menn því sitt af mörkum, reyndar einnig við landhelgisgæslu þegar aðrar annir leyfðu. Áhöfnin var samhent, andinn góður,“ sagði forseti Íslands. Í ávarpi sínu þakkaði hann frumkvæði þeirra sem stóðu að minningarstundinni í Hafnarfjarðarkirkju og standa að sýningunni þar.

„Þetta er svo sannarlega virðingarvert og fallegt framtak,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson.