Þingvellir Burstabær og kirkja.
Þingvellir Burstabær og kirkja. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Margvíslegur undirbúningur stendur nú yfir vegna fyrirhugaðra hátíðahalda á 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins sem er í sumar. Nefnd undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur vinnur að mótun hátíðardagskrár og eru fyrstu drög hennar birt á vefnum lydveldi.is

Margvíslegur undirbúningur stendur nú yfir vegna fyrirhugaðra hátíðahalda á 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins sem er í sumar. Nefnd undir forystu Margrétar Hallgrímsdóttur vinnur að mótun hátíðardagskrár og eru fyrstu drög hennar birt á vefnum lydveldi.is. Dagskráin þéttist þegar líður á afmælisárið. Einnig gerir nefndin tillögur um hvernig minnast megi 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar sem er í ár, sé miðað við 874 sem upphaf landnáms.

Í tilefni lýðveldisafmælis gefur forsætisráðuneytið út bókina Fjallkonan – Þú ert móðir vor kær með ljóðum og greinum um fjallkonuna. Bókin verður gjöf til landsmanna og verður dreift víða.

Hápunktur hátíðahalda verður á þjóðhátíðardaginn, 17. júní, með dagskrá og kórasöng um allt land. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum efnir til afmælisdagskrár og 15.-16. júní er fjölbreytt menningardagskrá í Almannagjá og víðar á svæðinu. Hinn 16. og 17. júní er hátíð á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Í anda fjallkonunnar, lands og þjóðar, verður, segir í tilkynningu frá forsætisráðuneyti, leitast við að ná til sem flestra með tveimur viðburðum eða vörðum í dagskrá ársins. Þetta verður gert til að mynda með samstarfi kóra landsins undir yfirskriftinni Sungið með landinu. Þar verður sjónum beint að þeirri miklu grósku sem kórstarf þjóðarinnar felur í sér og þeirri samkennd sem það fjölbreytta og magnaða starf skapar. Nú stendur yfir samkeppni um nýtt kórlag við texta Þórarins Eldjárns, Ávarp til fjallkonunnar 2015. Verkefnisstjóri er Margrét Bóasdóttir sem er í samvinnu við samtök kóra og kórstjóra. – Einnig er efnt til þess sem heitir Gengið um þjóðlendur. Verkefnið er samstarf við Ferðafélag Íslands og Útivist. sbs@mbl.is