[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sunny, eða Sunna Kristinsdóttir, tekur þátt í Söngvakeppninni þetta árið með lagið Fiðrildi. Lagið er eftir Nikulás Nikulásson og Sunnu sem skrifaði einnig texta lagsins. Það eru tíu flytjendur sem etja kappi í Söngvakeppninni sem hefst 17

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Sunny, eða Sunna Kristinsdóttir, tekur þátt í Söngvakeppninni þetta árið með lagið Fiðrildi. Lagið er eftir Nikulás Nikulásson og Sunnu sem skrifaði einnig texta lagsins. Það eru tíu flytjendur sem etja kappi í Söngvakeppninni sem hefst 17. febrúar. Sunna er glæný í tónlistarbransanum og gaf út sín fyrstu lög í september. „Það sem gerðist var það að ég varð þrítug. Áður en ég tók ákvarðanir kom rödd í hausinn á mér sem sagði: „Nei, Sunna, þú ert samt að verða þrítug.“ Maður á að snúa sumum röddum við og þagga niður í þeim,“ sagði Sunna í viðtali við Skemmtilegu leiðina heim.

„Ég hef aldrei samið áður en ég hugsaði, ef þú breytir ekki neinu þá breytist ekki neitt.“

Textagerð og söngur hafa alltaf legið vel fyrir Sunnu. „Ég þurfti að hugsa, hvað get ég? Ég hafði einblínt svo lengi á hvað ég gæti ekki. Ég reyndi hvað ég gat að læra á hljóðfæri en er með svo mikinn athyglisbrest og verð reið ef ég næ ekki einhverju strax, svo ég hélst ekki lengi í því,“ útskýrir Sunna. „En ég hef alltaf kunnað að skrifa texta og ég kann að syngja. Hvað vantar mig þá? Einhvern á móti til að gera tónlistina.“

Textarnir úr dagbókinni

Textar Sunnu eru mjög persónulegir. „Þetta átti ekki að fara fyrir alþjóð, þetta er eins og dagbókin mín,“ segir Sunna hlæjandi.

Söngvakeppnin hefur alltaf átt hug hennar og hjarta og situr hún sem fastast fyrir framan sjónvarpið meðan á keppninni stendur ár eftir ár. Hún segist þó vera aðeins minna spennt fyrir fögnuðinum í ár.

„Ég hef gefið það út að ég muni ekki fara út ef ég vinn hér heima. Það er nógu stórt skref fyrir mig að fá að taka þátt í þessari keppni með tónlistina mína,“ segir Sunna einlæg. „Mér finnst óþolandi ef fólk gerir mér upp illan ásetning svo ég varð að segja þetta að fyrra bragði. Þetta er mun meiri ákvörðun en ég er tilbúin í og ég vildi ekki hafa þetta á herðunum.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir