Árni Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 30. október 1965. Hann lést á líknardeild Landspítalans 4. febrúar 2024.

Foreldrar hans eru Sigríður J. Hannesdóttir, f. 15. ágúst 1938, og Þorsteinn Svörfuður Stefánsson, f. 22. ágúst 1937, d. 4. janúar 2023.

Systkini Árna eru tvö: Sólveig, f. 25. apríl 1962. Maki Jorge Palmeirim, f. 22. mars 1957. Börn þeirra eru: Marta Sólveig, f. 17. janúar 1992, og Tómas Þór, f. 22. júní 1995. Bróðir Árna er Heimir, f. 20. júní 1970. Maki Hanna Thordarson, f. 4. apríl 1968. Börn þeirra eru: Drífa Sóley, f. 10. júlí 1994, Heba Sólveig, f. 2. júní 1999, Arna Sólrún, f. 14. janúar 2002, og Hugi Svörfuður, f. 12. ágúst 2004.

Árni gekk 6. febrúar 1988 að eiga fyrri eiginkonu sína, Ingu Maríu Friðriksdóttur, f. 20. ágúst 1961. Börn Árna og Ingu Maríu eru Katrín, f. 6. október 1987, í sambúð með Koen Van de Gaer, og Viktor, f. 6. október 1987, í sambúð með Salóme Rut Kjartansdóttur og þremur fósturbörnum hans, þeim Alexöndru Ísold, Júlíu Þóru og Magnúsi Smára á aldrinum 8-14 ára og þeirra eigin syni, Andra Snæ, f. 13. desember 2021.

Árni og Inga María skildu en Árni gekk Rakel, dóttur Ingu Maríu, í föðurstað. Hún er fædd 11. júní 1980.

Seinni eiginkona Árna er María Loftsdóttir, f. 2. júní 1969. Þau giftu sig 1. júní 2018. Foreldrar Maríu eru Hlín Gunnarsdóttir, f. 8. desember 1933, og Loftur Magnússon, f. 15. júlí 1931. Dóttir Árna og Maríu er Agla, f. 11. mars 2007.

Árni átti heima í Reykjavík fyrstu þrjú ár ævinnar en fluttist þá með fjölskyldu sinni til Gautaborgar. Fjölskyldan flutti aftur til Íslands þegar Árni var tólf ára. Var Ölduselsskóli næsta menntastofnun Árna og síðan Fjölbrautaskólinn í Breiðholti. Tók hann sveinspróf í Hótel- og veitingaskóla Íslands 1987 og varð framreiðslumeistari 2001. Stúdentsprófið í FB lenti þar á milli 1996.

Árni starfaði sem framreiðslumaður en einnig hjá Miðlun ehf. og Iðunni bókaforlagi svo að eitthvað sé nefnt. Árið 2001 stofnaði hann Cocktail-veisluþjónustuna en frá 2015 var hann yfirþjónn á Fjöruborðinu á Stokkseyri. Þegar hann lést var hann starfandi yfirþjónn á Grand hóteli Reykjavík frá árinu 2021.

Útför Árna Þorsteinssonar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 15. febrúar 2024, klukkan 13.

Þegar María dóttir okkar og litla systir hitti hann Árna sinn í fyrsta sinn, stóð hann í eldhúsinu í bústað í Stykkishólmi og var að elda. Þau tóku spjall saman og þegar hann sauð niður rauðvínssósuna leit hún á hann og sagði: „Ég þarf svona mann eins og þig. Ég kann ekkert að elda. Vilt þú ekki bara giftast mér?“ Hann játti því og það varð úr, en reyndar ekki formlega fyrr en tæpum 20 árum síðar. Eftir þetta var Árni alltaf duglegur að elda fyrir hana Maríu sína og Öglu eftir að hún kom í heiminn. Og ekki bara þær tvær heldur alla stórfjölskylduna. Um leið og eitthvað stóð til var Árni mættur með sleifina á lofti og reiddi fram þvílíku veislurnar. Ekkert tilefni var of lítið eða of stórt til mannfagnaðar; sönglagakeppni, Liverpool-leikur eða kosningar. Já, stemningsmaður er orð sem lýsir Árna mjög vel.

Árni var góður maður og réttsýnn. En gat líka verið þver og þrjóskur. Reglur voru reglur og þeim skyldi fylgt. María vill halda því fram að það hafi verið sænska hliðin á honum, en Árni ólst upp í Gautaborg stóran hluta æsku sinnar og það var aldrei langt í Svíann í honum. Hann var prinsippmaður sem stóð við sitt, dugnaðarforkur til vinnu sem lagði metnað sinn í að vera sanngjarn yfirmaður.

Árni hafði mikinn áhuga á tónlist og var sjálfur með fínustu söngrödd. Þau María hoppuðu oft upp í Hafnarfjarðarstrætó og beint í Hörpuna að hlusta á óperur og aðra klassík. Ósjaldan var farið til London að sjá söngleiki, stundum þá sömu aftur, í ýmsum uppfærslum. Þau fóru á Júróvision bæði í Malmö og Kaupmannahöfn. Og það vita ekki margir að Árni samdi sjálfur söngleik á yngri árum, þótt það ætti reyndar ekki að koma á óvart þeim sem þekktu hann vel.

Hann kunni aldeilis að njóta lífsins lystisemda og voru ferðalög hluti af því. Með hjólhýsið í eftirdragi og grillið í skottinu þeyttist fjölskyldan um sveitir landsins. Þau flugu út um alla Evrópu að sötra ljúffengt vín og bragða gómsætan mat. En Portúgal var fyrirheitna landið. Landið sem þeim leið best í, landið þar sem þau ætluðu að eyða elliárunum. Draumur sem mun nú aldrei rætast. Án efa eru fleiri draumar og plön sem ekki verða að veruleika. Þá er huggun harmi gegn að vita til þess hversu vel þau skemmtu sér saman áður en Árni kvaddi.

Blessuð sé minning þín, Árni, og takk fyrir að hafa alltaf verið góður við Maríu okkar.

Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar allrar,

Loftur, Hlín, Margrét, Magnús og Hildur.

Mig langar í fáeinum orðum að minnast vinar og frænda míns Árna Þorsteinssonar, sem lést þann 4. febrúar langt fyrir aldur fram.

„Sæll frændi” var iðulega upphaf samtala okkar í gegnum árin, en við höfum þekkst frá barnæsku og erum systkinabörn á sama aldri.

Margs er að minnast og margar minningar koma upp í hugann, myndbrot úr barnaafmælum í Fossvogi, og síðar á lífsleiðinni lágu leiðir okkar saman á ýmsa vegu. Árni heimsótti mig og fjölskyldu á námsárunum í Gautaborg, en hann hafði búið þar í mörg ár þegar hann var ungur. Árni starfaði mestmegnis við störf tengd veitinga- og hótelrekstri. Á árunum 2000-2002 unnum við hjá tveimur tengdum fyrirtækjum í sama húsi þar sem við eyddum oft hádegishléinu saman. Þetta var skemmtilegur tími. Einn sona minna starfaði um skeið við útkeyrslu til fyrirtækja á dýrindis mat sem Árni sá um að framreiða og því má segja að leiðir okkar hafi legið oft saman. Síðasta árið starfaði Árni sem yfirþjónn á Grand hóteli og þar hitti ég hann í nokkur skipti. Það var greinilegt að samstarfsfólk hans naut þar fagmennsku hans og góðrar nærveru.

Hans líf og yndi var að halda veislur og að búa til mat fyrir sem flesta og gerði það alltaf með glæsibrag. Eftirminnilegt brúðkaup hans og Maríu, sem var haldið 2019, bar þess merki. Viku fyrir andlátið áttum við saman góða stund. Á þeim tímapunkti var Árni orðinn mjög veikur en samt líkur sjálfum sér en við vissum báðir í hvað stefndi. Nú hefur Árni kvatt okkur allt of snemma. Það er komið að leiðarlokum. Hvíl í friði, elsku frændi og vinur.

Ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Magnús Heimisson og fjölskylda.

Við fráfall míns kæra frænda koma upp í hugann margar minningar frá æskuárunum.

Við afkomendur Hannesar J. Magnússonar og Sólveigar Einarsdóttur vorum náin og mikil samskipti voru milli frændfólksins, sérstaklega hér áður fyrr. Við barnabörnin náðum vel saman, enda á svipuðum aldri. Þegar rifjaðar eru upp bernskuminningar finnur maður hvað fjölskyldutenging æskuáranna er djúpstæð. Árni var oft hjá okkur á æskuheimili mínu í Fossvoginum. Hann og mamma voru miklir vinir. Árni hefur oft minnst á þennan kærleik sem mamma sýndi honum alla tíð. Minningar um gleðistundir æskunnar geymast oft á ljósmyndum, eins og þeirri sem tekin var við eldhúsborðið heima í Hjallalandi af okkur systkinunum ásamt Árna, Heimi og Sólveigu þar sem við erum öll skellihlæjandi að borða súkkulaðiköku. Við Árni ræddum um þessa mynd löngu síðar, en mundum hvorugt hvað það var sem vakti svo mikla kátínu. En einhvers staðar í hjartanu bjó minningin um þessa einlægu gleði. Þetta var góður tími, framtíðin blasti við, björt og áhyggjulaus, það var gaman að lifa.

Einnig kemur upp í hugann Svíþjóðarferð okkar Madda þegar við dvöldum hjá fjölskyldunni í Gautaborg í nokkurn tíma. Þar minnist ég helst ferðanna sem við fórum með Árna og systkinum hans á golfvöllinn, í tívolí og sundlaugina.

Ekki má gleyma gómsætu heimabökuðu brauðunum hennar Siggu né öllu umstanginu sem fylgdi undirbúningi brúðkaups Karls Gústafs og Sylvíu drottningar þetta sumar. Mörg voru fjölskylduboðin og síðar ættarmót og samkomur af ýmsum tilefnum og þegar fram liðu stundir var það gjarnan Árni sem hafði hönd í bagga ef mikið stóð til með mat og undirbúning. Hann greip hvert tækifæri til að bjóða í veislur og þá var vandað til og veitingarnar ekki af verri endanum. Hann lagði mikla alúð við matargerðina og það var gaman að upplifa hversu honum var í mun að gera vel við sína gesti.

Á ættarmóti fjölskyldunnar sem haldið var á Mel í Skagafirði 2007 var Árni hrókur alls fagnaðar. Auðvitað sá hann um allar veitingarnar. Eldri kynslóðin rifjaði upp sögur og leikinn var leikþáttur þar sem líkt var eftir óförum pabba míns, móðurbróður Árna, þegar hann datt í lækinn á æskuárum sínum í sveitinni á Mel. Saga sem sögð er reglulega í fjölskylduboðum. Við heimsóttum æskustöðvar afa okkar, Hannesar, á Torfmýri í Skagafirði, sem þá voru bara tóftir. Þetta var skemmtilegur tími á slóðum forfeðranna því Árni var frændrækinn og forvitinn um forfeður sína. Honum hafði áskotnast mikið af bókum eftir afa Hannes, hann var stoltur af bókasafninu sínu og hafði gaman af því að sýna okkur það. Árni var stemningsmaður, það var alltaf eitthvað að gerast í kringum hann. Nú er komið að leiðarlokum, veislurnar verða ekki fleiri hér í þessari jarðvist. Góður drengur er genginn.

Ég og fjölskylda mín sendum fjölskyldu Árna innilegar samúðarkveðjur, við minnumst glaðlynds drengs æskuáranna og hjartahlýja fjölskylduföðurins með hlýju og söknuði.

Sigríður Heimisdóttir.

Elskulegur frændi okkar hann Árni er látinn langt um aldur fram eftir fárra mánaða baráttu við illvíg veikindi. Hann er einn af elstu systkinabörnunum okkar og við höfum átt mörg yndisleg ár með honum. Árni ólst upp í Svíþjóð til 12 ára aldurs. Hann var glaður og kátur strákur, sem alltaf tók vel á móti okkur þegar við heimsóttum fjölskylduna þar. Á unglingsárunum vann hann eitt sumar við húsbyggingu og fiskvinnslu á Dalvík. Honum líkaði ekki alltaf maturinn hjá frænku sinni þar og kannski varð það kveikjan að ævistarfinu.

Árni var lærður framreiðslumaður og starfaði við það til síðasta dags. Hann vann störf sín af miklum áhuga og metnaði og lagði sig alltaf fram um að gera sitt besta. Maður kom t.d. aldrei að tómum kofunum hjá honum þegar leita þurfti álits á mat eða víni. Fjölskyldan naut sannarlega góðs af því. Hann skipulagði og sá um veislur fyrir mörg okkar og annaðist matseld á öllum fjölskyldusamkomum okkar síðustu 25 árin eða svo.

Hann var mikill fjölskyldumaður og einstaklega góður pabbi börnum sínum. Það var alltaf mjög skemmtilegt að eiga samneyti við hann hvenær sem við hittum hann. Fjölskyldan átti lengi griðastað í húsi afa hans og ömmu á Dalvík. Þangað kom Árni reglulega, ekki síst þegar mikið stóð til. Það var yndislegt að fylgjast með honum í eldhúsinu í Lambhaga útbúa hverja sælkeramáltíðina af annarri fyrir stórfjölskylduna. Þá var Árni í essinu sínu og stjórnaði aðstoðarkokkunum, sem voru oftast á öllum aldri. En hann vaskaði aldrei upp heldur lét aðra um það.

Árni var líka mikill gleðimaður og naut þess að taka þátt í leikjum og söng þegar fjölskyldan og vinirnir hittust. Stundum tók hann lög á sænsku úr teiknimyndum okkur til skemmtunar, oftast úr uppáhaldsmyndinni sinni Djungelboken.

Seinni árin kom stórfjölskyldan saman á heimili hans og Maríu til að breiða út, skera út og steikja laufabrauð. Þannig átti það að vera fyrir síðustu jól og lengi ætlaði Árni að fá fjölskylduna til sín og Maríu til að geta verið með en af því gat ekki orðið vegna veikinda hans. Við munum ávallt minnast síðustu laufabrauðsgerðar í Hafnarfirði. Þá voru Árni, María og Agla nýflutt í yndislega fallega íbúð og Árni hress og glaður. Hans verður sárt saknað þegar fjölskyldan hittist en við eigum svo góðar minningar sem munu lifa með okkur.

Við sendum nánustu fjölskyldu Árna, þeim Maríu eftirlifandi konu hans, börnum hans Öglu, Katrínu og Viktori, Sigríði móður hans og systkinunum Sólveigu og Heimi og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Árna Þorsteinssonar.

Anna, Björn og Sigurlaug.

Elsku föðurbróðir okkar Árni Þorsteinsson lést þann 4. febrúar 2024, langt fyrir aldur fram. Árna frænda fylgdi alltaf mikið fjör og kærleikur. Það var alveg augljóst hversu mikið honum þótti vænt um okkur, og ekki síður hvað okkur þótti vænt um hann. Árni var þekktur fyrir heimsins bestu skonsur og alltaf átum við yfir okkur af þeim þegar þær voru á boðstólum. Ekki síður var Árni mikill matgæðingur og hélt alltaf flottar veislur. Við minnumst góðra tíma þegar Árni bauð okkur reglulega á sinfóníutónleika, kynnti okkur Chaplin og alls konar tónlistarmenn. Hann Árni lagði mikla vinnu í að varðveita og halda uppi fjölskylduhefðum, sem við erum honum ávallt þakklát fyrir. Takk fyrir að vera svona hlýr og góður, elsku Árni frændi. Minning þín mun lifa um ókomna tíð í hjörtum okkar.

Drífa Sóley Heimisdóttir, Heba Sólveig Heimisdóttir, Arna Sólrún Heimisdóttir, Hugi Svörfuður Heimisson.

Góður vinur hefur nú kvatt okkur allt of fljótt. Á stundum sem þessum er fátt um svör en eftir standa dýrmætar minningar.

Hann Árni var góður drengur sem hugsaði vel um þá sem stóðu honum nærri. Fengum við vinirnir aldeilis að njóta þess. Ungur lærði hann til framreiðslumeistara og höfðaði það vel til hans. Hélt hann oft veislur fyrir okkur strákana og maka okkar. Var þá oft mikið í lagt að hætti Árna með öllu hans tilstandi og útskýringum. Má segja að hann hafi verið límið í hópnum.

Leiðir okkar hafa lengi legið saman. Við rákum saman veisluþjónustu í nokkur ár og gekk það mjög vel.

Hafði hann mikla þekkingu, ekki bara faglega heldur var hann einnig framúrskarandi í mannlegum samskiptum.

Alltaf var auðvelt að hringja í Árna og fá góð ráð í hverju sem var, enda mikill fagmaður.

Hann var góður kylfingur og var með golfreglurnar á hreinu, sem kom sér oft vel, enda oft hringt í hann til að skera úr um atvik á golfvellinum.

Mér þótti vænt um að eiga mjög góða stund með Árna nú nýlega og eitt hlýlegt atvik situr í minningunni sem ég sagði honum frá. Það var að ég spilaði með framreiðslumanni í golfi síðastliðið sumar og varð ég að spyrja hann hvort hann þekkti Árna Þorsteinsson á Grand hóteli. Svarið var: „Nú, bara „legend“.“

Ég sá að Árna þótti vænt um að heyra þetta.

Kæra fjölskylda, við vottum ykkur innilega samúð á þessum erfiða tíma.

Hvíl í friði, elsku vinur.

Bjarni Þór og fjölskylda.

Nú kveðjum við vin, Árna Þorsteinsson. Þar fer drengur góður, hreinskiptinn og fastur fyrir enda gæddur einstakri réttlætiskennd og djúpri virðingu fyrir sjálfstæði einstaklingsins. Æðrulaus í fasi og vinur vina sinna. Við Árni kynntumst fyrst fyrir alvöru á hjónagörðum HÍ þar sem við Rósa bjuggum ung að árum og þeir Árni og Kristján komu reglulega að spila bridge. Þær kvöldstundir sem drógust fram á morgna eru góðar minningar. Árni hafði sterkar skoðanir á málum, kennsluaðferðum, íþróttum, pólitík, veiði, matreiðslu, golfi og hvað það allt heitir. Við vorum ekki alltaf sammála en að eiga rökræður við þennan horfna félaga voru gæðastundir. Hann hlustaði og kom ávallt fram með rökstudda skoðun byggða á fullnægjandi forsendum. En bjargið sem við leitum að til að byggja skoðanir okkar á er ekki til og það vissi Árni manna best. Hann vissi að það er ekkert í þessu lífi sem við getum verið örugg um annað en að ef við fæðumst þá deyjum við einn daginn.

Þegar ég hitti hann stuttu fyrir andlátið áttum við notalega stund. Dóttir hans, Katrín, sat hjá honum og hann dormaði líkt og Descartes við eldinn forðum. Vissi ekki hvort lífið væri draumur eða veruleiki, aðeins hugsunin var til staðar. Við ræddum um tilveruna, ég sagði henni hversu stoltur og hamingjusamur Árni hefði verið með hana og börnin sín öll. Þá skyndilega reisti Árni sig upp og sagði: „Ég er ekki sofandi og búinn að hlusta á allt sem þið hafið sagt. Það er notalegt að hlusta á ykkur, ég þarf ekki að leiðrétta neitt, ég er sáttur við ykkur og örlög mín.“

Þú ert farinn vinur og finnur gott borð fyrir okkur og setur upp veislu þegar við félagarnir komum yfir, það verður alvörusamkoma, þú við eldavélina búinn að hugsa fyrir öllu, hræra í bestu skonsurnar, græja aðalréttinn og safna að þér besta víninu. Já, minn kæri, þú varst, ert og verður fyrri til og það verður gott að hitta þig hinum megin þegar kallið kemur.

Það er komið að leiðarlokum. Við viljum senda öllum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég minnist þín í vorsins bláa veldi,

er vonir okkar stefndu að sama marki,

þær týndust ei í heimsins glaum og harki

og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.

Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,

og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.

Þú leiðst í burt frá lágum jarðarseimi,

í ljóssins dýrð, á hugar-vængjum þínum.

Ég sakna þín, ég syrgi farinn vin,

í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,

er hóf sig yfir heimsins dægur-glys.

Á horfna tímans horfi ég endurskin,

ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,

frá hreinni sál með hárra vona ris.

(Steinn Steinarr)

Hvíl í friði.

Ágúst Heimir og Rósa.

Í dag kveðjum við kæran vin okkar til 46 ára, Árna Þorsteinsson.

Hann var góður vinur sem elskaði að halda matarboð fyrir okkur vinina, hvort sem það var þorramatur, jólaboð eða þá grillveislur í árlega veiðitúrnum. Það var gott að koma til Árna og Maríu og alltaf gátum við gengið að því vísu að þetta yrði matarboð ársins hjá okkur hinum. Þannig gátu Árni og María töfrað fram hverja veisluna á fætur annarri. Árni sá líka um veislur fyrir okkur hina, hvort sem það voru fermingar, útskriftarveislur eða brúðkaup, og allt var þetta gert upp á 10. Árni var okkur fremstur þegar kom að golfíþróttinni og fór hann lægst í 9 í forgjöf. Átti hann alltaf góð ráð handa okkur hinum þegar við vorum að stíga okkar fyrstu skref í golfinu. Hann hafði líka mikinn áhuga á fótbolta eins og flestir okkar í vinahópnum og var honum ekki vel við það þegar liðið hans tapaði. Hann var keppnismaður og það var reyndar þannig í öllu sem viðkom spilum, hann vildi alltaf vinna. Árni var traustur vinur sem hægt var að leita til með flest það sem kemur upp á í lífinu, hafði skoðanir á flestu, rökfastur og ávallt boðinn og búinn að aðstoða eins og hann gat. Hann gat reyndar hvorki haldið á hamri né skrúfjárni en það kom ekki að sök, við drógum hann að landi þar. En eitt er víst, við eigum eftir að sakna Árna um alla tíð. Elsku María og fjölskylda, við sendum ykkur öllum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Magnús, Kristján,
Þórbjörn, Bjarni,
Davíð, Gísli og makar.

Árið 1976 hófust kynni okkar Árna Þorsteinssonar í grunnskóla. Við vorum lánsamir að tilheyra sama vinahópi. Þrátt fyrir ólíka drengi og skrautlegar uppákomur var vinahópurinn traustur, þéttist með árunum og var það ekki síst Árna að þakka.

Þessi mikli fagmaður sá til þess að hópurinn hittist reglulega. Árni var lærður framreiðslumeistari og með sanni sagt var hann sá færasti í bransanum. Hann var mikill mat- og víngæðingur, hafði unun af því að elda, gæða sér á góðu víni og veita. Við í fjölskyldu minni nutum oft góðrar aðstoðar Árna er kom að veisluhöldum. Árni var afburðanemandi, mundi allt og líka allan óþarfa. Árni hafði góða frásagnarhæfileika og er sögur voru sagðar sá Árni til þess að hafa staðreyndir á hreinu, sagan þurfti stundum að gjalda sannleikans.

Við félagarnir hittumst oft með mökum og enn oftar án maka. Fórum margar ferðir saman og fengu börn okkar oft að fljóta með. Við Árni tókum upp á því að spila bridge saman um nokkurt skeið og bjuggum til okkar eigið kerfi, þó aðallega hann. Fyrsta bridge-mót sem við spiluðum var undirritaður spurður hvernig við kölluðum okkar á milli. Undirritaður skildi ekki spurninguna og svaraði HÓ og hló. Mótherjarnir hlógu ekki, mótstjóri mætti á borðið, við fengum að kenna á því og Árni var sko ekki sáttur með vin sinn þá. Árni minn, þú ert tekinn allt of fljótt frá okkur, ég er ekki farinn að trúa þessu, ætla samt að trúa því að þú sért kominn á betri stað í dag, að þér líði vel og sért að njóta. Þakka þér fyrir allar þær ógleymanlegu stundir sem þú gafst mér og mínum.

Megi Guð vera með ykkur, María, Agla, Katrín, Viktor og Rakel. Hugur minn er hjá ykkur.

Kristján Rafn Harðarson.

Í dag kveðjum við vin okkar Árna, vin sem hefur fylgt okkur stærsta hluta lífsins. Veikindin bar brátt að, eins og hendi sé veifað er Árni horfinn á braut. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt og oft á tíðum illskiljanlegt. Eftir sitja fallegar minningar sem ljúfsárt er að rifja upp.

Árin í Breiðholtinu sem börn og unglingar, námsárin og allt sem á eftir fylgdi, fjölskyldur og börn. Við eigum yndislegar minningar austan úr Laugardal með Maríu og Árna á fallegum sumardögum. Þar kenndi Árni áhugasamri dóttur okkar að baka skonsur og búa til alvöru súkkulaðibúðing. Minningar þar sem Árni hjálpaði okkur að snara fram þriggja rétta fermingarveislu frumburðarins og María hannaði fermingarkortið í samráði við fermingarstúlkuna. Frábærar minningar frá Fiskideginum á Dalvík þar sem vinahópurinn kom saman með börn og buru að frumkvæði Árna. Vinahópurinn skreytti garðinn við húsið sem Árni hafði útvegað og bauð upp á fiskisúpu í anda helgarinnar. Ófáar samverustundir með vinahópnum hjá Árna og Maríu þar sem reiddar voru fram gómsætar kræsingar, enda þau hjónin höfðingjar heim að sækja. Fallegasta minningin er frá brúðkaupi Árna og Maríu fyrir bráðum sex árum en þar ljómaði Árni við hlið Maríu sinnar.

Árna og Maríu leið vel saman með Öglu sinni og vottum við þeim mæðgum, Katrínu, Viktori, Rakel og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Einnig sendum við Sigríði móður Árna og systkinum hans og fjölskyldum samúðarkveðjur. Hvíl í friði, elsku Árni, þín verður sárt saknað um ókomna tíð.

Ég held að við höfum báðir trúað á eftirlíf og með þessum orðum kveð ég þig, minn kæri vinur, og segi „þangað til við hittumst á ný“.

Þar sem englarnir syngja sefur þú,

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra,

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði, vinur minn kær,

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær,

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Kveðja,

Sverrir, Lilja og börn.