Margir atvinnurekendur fara að lögum, reglum og kjarasamningum hvað viðkemur aðbúnaði starfsfólks en þrátt fyrir það er pottur brotinn víða. Þetta segir Mirabela Blaga, fulltrúi í vinnustaðaeftirliti Fagfélaganna og Eflingar, í tilkynningu á vef Eflingar. Frá því í haust og til ársloka voru tæplega 100 fyrirtæki heimsótt og rætt við 318 starfsmenn. Mirabela segir að sex af hverjum tíu sem talað var við séu verkamenn af erlendum uppruna. Nánast undantekningarlaust verði þau tilvik þar sem eitthvað er ekki í lagi hjá þeim hópi starfsmanna. Þótt flestir séu með allt á hreinu eru líka dæmi um gróf brot. „Mirabela nefnir annað nýlegt dæmi, þar sem fyrirtæki í ferðaþjónustu var heimsótt. Þar kom í ljós að starfsmenn hestaleigu voru hlunnfarnir með grófum hætti. Starfsfólkið fékk greidd óuppgefin laun sem voru auk þess langt undir lágmarkstöxtum. Engir launaseðlar bárust auk þess sem freklega var brotið gegn reglum um vinnutíma og aðbúnað. Þetta mál er nú á borði þar til bærra aðila,“ segir á vef Eflingar. omfr@mbl.is