Orkuver Gufuaflsvirkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum. Unnið er að sameiningu Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar í nýrri stofnun.
Orkuver Gufuaflsvirkjun Landsvirkjunar að Þeistareykjum. Unnið er að sameiningu Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar í nýrri stofnun. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnarfrumvarp um nýja Umhverfis- og orkustofnun er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þessari nýju stofnun er fyrst og fremst ætlað að fara með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar og…

Baksvið

Guðm. Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Stjórnarfrumvarp um nýja Umhverfis- og orkustofnun er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þessari nýju stofnun er fyrst og fremst ætlað að fara með stjórnsýslu loftslags-, umhverfis- og orkumála og málefni auðlindanýtingar og jafnframt er lagt til að Orkustofnun og sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar, sem nýja stofnunin mun taka yfir, verði lagðar niður. Einnig er gert ráð fyrir sjálfstæðu Raforkueftirliti innan nýju stofnunarinnar sem sinni raforkueftirliti samkvæmt raforkulögum og er tekið fram að eftirlitið leiti ekki eftir eða taki við beinum fyrirmælum frá neinni ríkisstofnun eða öðrum opinberum aðila eða einkaaðila við framkvæmd eftirlitsverkefnanna.

Guðlaugur Þ. Þórðarson, umhverfis- og loftslagsráðherra, sagði þegar hann mælti fyrir frumvarpinu í lok janúar að tillagan væri hluti af umfangsmiklum stofnanabreytingum sem hann hefði unnið að frá árinu 2022 um þrjár stærri og öflugri stofnanir í stað átta. Frumvarpið héldist í hendur við frumvarp um nýja Náttúruverndar- og minjastofnun þar sem lögð væri til sameining náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs og Þingvallaþjóðgarðs. Verkefni Umhverfisstofnunar ættu að skiptast niður á þessar tvær nýju stofnanir.

Guðlaugur sagði að orku- og loftslagsmál væru stærstu málaflokkar okkar tíma og krefjandi markmið íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum gerðu kröfu um aukna skilvirkni. „Með aukinni samþættingu orku- og loftslagsmála væntum við þess að hægt verði að byggja aðgerðir í loftslagsmálum á sterkari gögnum og nýta þekkinguna betur,“ sagði hann og bætti við að ekki væri skynsamlegt fyrir Íslendinga að vera með margar pínulitlar stofnanir sem væru ekki burðugar og gætu ekki almennilega sinnt hlutverki sínu.

Skilvirkari stjórnsýsla

Umsagnir sem umhverfis- og samgöngunefnd hefur fengið frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins, Samorku og Landsvirkjun um málið eru almennt jákvæðar þótt nokkrir varnaglar séu slegnir. Samorka segist t.d. fagna áformum um að styrkja stjórnsýslu á sviði loftslags-, umhverfis- og orkumála með það að markmiði að stuðla að skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu, betri nýtingu fjármagns og hagkvæmni í rekstri. Samband íslenskra sveitarfélaga telur markmið frumvarpsins metnaðarfull og bindur vonir við að sameining þessara stofnana verði farsælt skref til þess að tryggja skilvirka stjórnsýslu og gott samstarf milli einstakra stofnana og sveitarfélaga landsins. „Sameining þessara stofnana ætti að geta náð þeim markmiðum, sé vel staðið að þeim, hvað varðar ábyrgðar- og verkefnaskiptingu,“ segir m.a. í umsögn samtakanna.

Og í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins segir að einfalt, skilvirk og hagkvæmt starfsumhverfi fyrirtækja skipti sköpum fyrir samkeppnishæfni Íslands. Samtökin hafi því hvatt stjórnvöld til að huga að þessu og nýta tækifærið við fyrirhugaðar stofnanasameiningar til að endurskipuleggja og auka skilvirkni eftirlits, draga úr opinberum samkeppnisrekstri og auka útvistun.

Illa undirbúið frumvarp

Við annan tón kveður hins vegar í umsögn Landverndar. Þar segir að lagafrumvarpið sé illa undirbúið og gæti ekki að því að báðar stofnanir, Umhverfisstofnun og Orkustofnun, geti áfram sinnt hlutverki sínu sem skyldi.

„Ráðherra sem er áfram um sameiningar stofnanna er því eindregið hvattur til að leggja umrædd áform til hliðar og efla frekar hlutverk Umhverfisstofnunar varðandi umhverfi, náttúru, loftslag og vernd vistkerfa hafs og stranda. Þessir órjúfanlegu málaflokkar verða að vera öflugir í sjálfstæðri stjórnsýslufagstofnun með tilhlýðilegum eftirlits og rannsóknarskyldum í anda sjálfbærrar þróunar. Með núverandi tillögu er verið að blanda saman óskyldum málaflokkum með augljósa og óæskilega skörun á milli þar sem armslengdarsjónarmið eru einmitt mjög mikilvæg. Í frumvarpinu er því ekki gætt hlutverkum þess aðhalds sem Umhverfisstofnun á að veita Orkustofnun meðal annars með lögbundnum umsagnarskrifum,“ segir m.a. í umsögninni. Í lok hennar segir síðan að hvergi í frumvarpinu hafi verið færð sannfærandi rök fyrir því að sameining þessara tveggja stofnana beri faglegan ávinning, þvert á móti sé áhættan mikil og betur væri farið að halda stofnununum tveimur aðskildum en að leggja upp í slíka óvissuferð.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi um næstu áramót en Umhverfisstofnun segir í umsögn um frumvarpið að líklegt sé að það sé nú orðinn of skammur tími. Mikilvægt sé þó að gildistaka verði um áramót.

Höf.: Guðm. Sv. Hermannsson