Dagmál Guðmundur Birkir Pálmason talar um lífshlaup sitt og ástina.
Dagmál Guðmundur Birkir Pálmason talar um lífshlaup sitt og ástina. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
„Ég man þegar ég var búinn með stúdentinn og var að reyna að finna út úr því hvað ég vildi gera. Mig langaði til að hjálpa fólki og var að hugsa um að fara í lækninn, lýtalækninn eða sjúkraþjálfarann en ég var einkaþjálfari á þeim tíma,“ …

Marta María Winkel Jónasdóttir

mm@mbl.is

„Ég man þegar ég var búinn með stúdentinn og var að reyna að finna út úr því hvað ég vildi gera. Mig langaði til að hjálpa fólki og var að hugsa um að fara í lækninn, lýtalækninn eða sjúkraþjálfarann en ég var einkaþjálfari á þeim tíma,“ segir Gummi sem sá fyrir sér á unglingsaldri með því að einkaþjálfa fólk.

„Þegar ég datt inn í kírópraktorinn áttaði ég mig á því að þetta væri það sem ég vildi gera. Mig langar að hjálpa fólki á þennan hátt, í raun og veru með minni getu, með höndunum og án þess að gefa fólki lyf til þess að bæta sína heilsu eða fara undir hnífinn,“ segir hann.

Gummi byrjaði á Instagram til að verða sýnilegri en svo þróaðist það út í að hann fór að vinna sem áhrifavaldur meðfram aðalstarfinu. Hann vakti strax athygli fyrir öðruvísi fatastíl og einhverjir veltu því fyrir sér hvort hann væri ekki örugglega samkynhneigður fyrst hann leyfði sér að klæða sig eins og hann gerir.

„Ef þú myndir spyrja æskuvini mína þessarar spurningar myndu þeir segja að þetta væri bara eins og Gummi er. Ég er alltaf ég sjálfur. Þótt ég sé á Instagram í einhverjum fötum þá er ég eins og ég hef alltaf verið. Þetta var bara svo náttúrulegt fyrir mér. En af því þetta var öðruvísi þá vakti það athygli.“

Svo er fólk nú stundum að tala um að þú hljótir að vera samkynhneigður fyrst þú leyfir þér að klæða þig svona?

„Sögurnar sem ég hef heyrt eru ótrúlegar. Einu sinni var ég á leið heim úr vinnunni þegar Lína hringdi í mig og spurði hvað væri í gangi. Ég skildi ekkert og spurði hvað hún ætti við. Þá kom hún með einhverja rosalega sögu um að ég væri búinn að vera úti um allt með einhverjum manni hér og þar. Þetta þróaðist út í einhverjar brjálaðar sögur. Einhver átti að hafa komið að okkur. En nei, ég er ekki samkynhneigður,“ segir hann og hlær.

En hvernig byrja svona sögur?

„Ég veit það ekki. Við vorum oft að velta því fyrir okkur hvernig svona sögur geta orðið eins og þær eru,“ segir hann og hristir hausinn og er ekkert að láta flökkusögur trufla sig.

Varð lítill í sér þegar hann vildi bjóða Línu á deit

Gummi er búinn að vera í ástarsambandi með Línu Birgittu Sigurðardóttur sem er áhrifavaldur í fimm ár. Hann segir að þau hafi kynnst í ræktinni.

„Hún var hjá einkaþjálfara en hafði lent í bílslysi fyrir einhverjum árum og var mjög slæm í skrokknum. Einkaþjálfarinn hennar sagði henni að hún yrði að fara til mín og hann kynnti okkur. Hún kom til mín og var hjá mér í meðhöndlun í einhvern tíma,“ segir hann.

Þau urðu miklir félagar og hann segist alls ekki hafa verið að spá í hana sem framtíðarmaka. Þau hafi hins vegar kynnst vel áður en hjólin fóru að snúast og ástin bankaði upp á.

„Lína er svo þægileg og ég upplifði að ég gæti alltaf verið ég sjálfur í samskiptum við hana. Ég get verið alveg slakur með henni. Hún er fyndin og skemmtileg. Það er svo mikil lífsgleði í henni. Svo var það ekki fyrr en ég var að keyra frá Hornafirði, var á leið í bæinn, að ég fer að hugsa um hana á rómantískan hátt. Þá varð ekki aftur snúið og ég varð að bjóða henni á stefnumót.“

Á þessum tímapunkti var Gummi búinn að vera fráskilinn í eitt og hálft ár en hann á þrjú börn með fyrri konunni sinni. Hann segist hafa orðið mjög lítill í sér þegar hann ákvað að bjóða Línu á deit.

„Litli feimni strákurinn utan af landi hafði ekki alltaf kjark í að gera eitthvað slíkt. Ég hugsaði, hvernig á ég að fara að þessu? Þegar maður fær þessa tilfinningu þá verður maður svo brjálæðislega spenntur að ég varð að senda henni skilaboð. Ég kom mjög seint heim og sendi henni skilaboð. Nema hún „seenar“ mig eins og maður segir,“ segir hann og brosir við upprifjunina.

Sem er ekki gott?

„Ég var rosalega þreyttur og þurfti að fara að sofa. Hún „seenar“ mig og svarar mér ekki. Og ég hugsaði með mér að ég væri búinn að eyðileggja þetta. En svo fékk ég svar en hún þurfti að ráðfæra sig við vin og í framhaldinu bauð ég henni á stefnumót. En svo er þetta svo fyndið að hún kemur til mín á fimmtudagskvöldið og við vorum nánast saman upp á dag í ábyggilega tvö og hálft ár. Við fórum ekki í sundur eftir að við hittumst á stefnumóti í fyrsta skipti.“

Trúir þú að ástin geti heltekið fólk?

„Já og nei. Ég hugsa að það sé aldrei þannig að það sé bara einhver ein manneskja fyrir þig. Það eru margar manneskjur fyrir þig og það er engin ein sem er rétta manneskjan. Það er ekki til hin fullkomna manneskja fyrir þig. Þess vegna eru sambönd alltaf svo mikil vinna. Ekki leiðinleg vinna heldur skemmtileg vinna. Bleika skýið varir bara sex mánuði. Þá er allt svo skemmtilegt og svo frábært og svo spennandi. Eftir það kemur lærdómurinn, að læra að þekkja manneskjuna. Þá byrjar ástin held ég. Annaðhvort byrjar þú að elska manneskjuna eða fólk vex í sundur. Síðustu tvö árin hjá okkur höfum við vaxið svo þétt saman því við höfum gengið í gegnum svo margar hæðir og lægðir.“

Hvað hefur reynst ykkur best í að reyna að tengjast betur?

„Að tala saman. Það er eitthvað sem ég hef lært mjög mikið af því ég byrgði alltaf allt inni í mér og keyrði mig þannig áfram. Lína hefur kennt mér það. Að tala saman og ræða erfiðu hlutina. Tengja hjarta hvort annars og orku hvort annars. Það hef ég lært sérstaklega frá henni. Það er svo mikilvægt fyrir parasamböndin.“

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir