Kristín Jónsdóttir (1888−1959) Við Þvottalaugarnar, 1931 Olía á striga 100 x 123 cm
Kristín Jónsdóttir (1888−1959) Við Þvottalaugarnar, 1931 Olía á striga 100 x 123 cm
Kristín Jónsdóttir lauk árið 1916 prófi í málaralist frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn, fyrst íslenskra kvenna, en áður hafði hún stundað þar í borg undirbúningsnám við Tegne- og Industriskolen for Kvinder

Kristín Jónsdóttir lauk árið 1916 prófi í málaralist frá Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn, fyrst íslenskra kvenna, en áður hafði hún stundað þar í borg undirbúningsnám við Tegne- og Industriskolen for Kvinder. ­Kristín hélt sína fyrstu sýningu á Akureyri á meðan hún var enn í námi en hún hélt fjölda einkasýninga og tók þátt í mörgum samsýningum bæði hér heima og erlendis. Árið 1924 flutti hún til Íslands og bjó hér og starfaði upp frá því, ef frá er talin sumardvöl í Kaupmannahöfn árið 1939.

Strax eftir heimkomuna ferðaðist Kristín um landið og málaði íslenska náttúru. Flestar þeirra mynda sem Kristín málaði á öðrum og þriðja áratug 20. aldar eru af landslagi eða uppstillingum inni við en snemma á ferlinum hafði hún málað konur við störf úti við, til dæmis við að breiða út saltfisk í Eyjafirði. Málverkið Fiskverkun við Eyjafjörð (1914) er í anda raunsæisstefnunnar þar sem alvara og erfiði vinnunnar er undirliggjandi stef og er verkið meðal fyrstu atvinnulífsmynda í íslenskri listasögu.

Málverkið Við Þvottalaugarnar frá árinu 1931 er af svipuðum toga en þó afar ólíkt að yfirbragði. Hér sjást konur við þvotta í heitri lauginni í Laugardalnum í Reykjavík en á þessum tíma var búið að steypa þró umhverfis hana og setja járngrindur yfir til að varna slysum. Ávöl form kvennanna ásamt hvítri gufunni mynda þríhyrningslaga form á miðjum myndfletinum. Veggur skúrbyggingar lokar mynd­rýminu vinstra megin og skáhallandi brekkan hægra megin vegur upp á móti þríhyrningsforminu. Hér málar Kristín að hætti ­impressjónistanna og leitast við að fanga birtuna.

Í verkum Kristínar frá þessum árum má greina tvenns konar viðhorf til málverksins. Annars vegar hið síð-impressjóníska, þar sem gengið er út frá hlutveruleikanum og áherslan liggur á yfirborði hlutanna og hugsanlegu tákngildi þeirra. Hins vegar má greina í verkum hennar áhrif expressjónismans þar sem túlkun og tilfinningar listamannsins gagnvart myndefninu ráða för.