Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Tískuvöruverslunin Lindin á Selfossi er 50 ára í dag, 15. febrúar, og því verður fagnað næstu daga með margvíslegum tilboðum og fleiru góðu. Verslunin er gamalgróin í bæjarlífinu á Selfossi og á sér
viðskipavini sem koma víða að. „Fólk kallar eftir góðri þjónustu
og fjölbreyttu úrvali. Þessu þarf
að sinna af kostgæfni og mæta fjölbreyttum óskum viðskiptavinanna. Þegar slíkt tekst rúllar boltinn,“ segir Kristín Hafsteinsdóttir
kaupmaður.
Leiðangur til London
Snemma árs 1974 stóð Bryndís Brynjólfsdóttir á Selfossi á tímamótum. Foreldrar hennar, þau Brynjólfur Gíslason og Kristín Árnadóttir, veitingamenn í Tryggvaskála við Ölfusárbrú, ákváðu að selja húsið og rekstur sinn þar. Bryndís, sem hafði lengi starfað hjá þeim, þurfti því að finna sér nýtt viðurværi og valdi að fara í verslunarrekstur. Fékk til leigu ágætt og vel staðsett rými á Eyravegi 7 og fór í aðdraganda þess í innkaupaleiðangur til London. Náði þar í kynstrin öll af fatnaði og flutti inn til Íslands. Lét svo boð út ganga og opnaði Lindina, verslun með kven-, herra- og barnafatnað, sem og snyrtivörur.
„Þetta virkaði. Ég þurfti aftur að fara til Bretlands rúmum mánuði seinna til að kaupa inn meira og með því jók ég úrvalið. Ég fór líka norður á Akureyri og keypti þar föt frá saumastofu sem Herradeild JMJ var með,“ segir Bryndís um upphaf verslunarrekstrar síns.
Fjölbreytt snið og litagleði
Fljótlega fór svo Kristín, dóttir Bryndísar og Hafsteins Más Matthíassonar, að vinna í búðinni. Hún tók síðan við keflinu árið 1989. Bryndís var komin í bæjarpólitíkina á Selfossi á þessum tíma og orðin umboðsmaður Sjóvár-Almennra trygginga. Hún er þó alltaf eigandi Lindarinnar og aldrei langt undan. Má þess geta að Bryndís fékk árið 2021 þakkarviðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu fyrir eftirtektarvert ævistarf sem stjórnandi í atvinnulífinu.
„Mamma kemur hingað mjög reglulega, enda kaupmaður af lífi og sál. Sú taug dofnar ekki svo glatt,“ segir Kristín, sem í dag einbeitir sér að sölu á kvenfatnaði fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina.
„Við bjóðum upp á kvenfatnað fyrir dömur á öllum aldri og í öllum stærðum. Danskur tískufatnaður hentar íslenskum konum afar vel. Því kaupi ég jafnan mikið inn frá Danmörku og fer reglulega í verslunarferðir þangað, en einnig til Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Hollands. Við suma birgja höfum við skipt í áratugi. Í þessu starfi er mikilvægt að fylgjast vel með stefnum og straumum tískunnar rétt eins og viðskiptavinir okkar gera. Með tilkomu netsins er auðvelt fyrir konur að fylgjast með nýjungum í tískunni. Áður var svarti liturinn áberandi í kvenfatnaði en í dag er fjölbreytnin ráðandi bæði í sniðum og litagleði.“
Persónuleg þjónusta og tengsl
Með Kristínu og Bryndísi starfa í Lindinni Ásdís Halldórsdóttir, Hulda Ágústsdóttir og Guðmunda Birna Ásgeirsdóttir. Þær þrjár síðastnefndu hafa allar unnið lengi í búðinni, sem Kristín segir mikilsvert.
„Salan byggist mikið á persónulegri þjónustu og tengslum, við eigum við því láni að fagna að eiga mjög trygga viðskiptavini og er
það þakkavert. Verslunin er eigi að síður í nokkrum mæli að færast yfir á netið og sjálfsagt mun slíkt aukast. Margt í framleiðslunni er líka að breytast: framleiðendur
eru áfram um að koma með föt úr lítt mengandi efnum og hafa sjálfbærni í heiðri. Þetta er góð þróun sem við í Lindinni fylgjum. Ætlun okkar er að þróast með ört stækkandi samfélagi eins og síðastliðin fimmtíu ár. Íbúum hér fyrir austan fjall fjölgar mikið og allir þurfa fatnað. Viðskipti sem fylgja sumarbústaðabyggðinni hér í næsta nágrenni, sem og aukinn ferðamannafjöldi, koma sterk inn hjá okkur eins og annars staðar í þessum mikla verslunarbæ sem Selfoss er,“ segir Kristín Hafsteinsdóttir.