María Matthíasdóttir fæddist í Reykjavík 16. apríl 1928. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu Sléttuvegi 28. janúar 2024.
Foreldrar hennar voru Guðfríður Ólafsdóttir, f. 28.10. 1897 á Geitabergi Hvalfirði, d. 6.3. 1941, og Matthías Eyjólfsson, f. 9.6. 1887 í Bjarneyjum Breiðafirði, d. 15.8. 1966. Seinni kona hans var Guðrún Bjarnrún Magnúsdóttir, f. 2.9. 1888, d. 3.9. 1966. Systkini Maríu voru: Nói, f. 22.7. 1919, d. 31.12. 1983, Matthildur Björg, f. 12.9. 1921, d. 12.8. 1987, Guðrún, f. 19.11. 1924, Salbjörg f. 2.12. 1929, d. 12.3. 2023, og Ragnheiður Steina, f. 3.9. 1936.
María giftist árið 1949 eiginmanni sínum Sigurði Jónssyni, f. 4. ágúst 1921, d. 22. september 2003. Þau eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Sigurlín Guðfríður, f. 10. maí 1950, gift Magnúsi J. Kristinssyni, börn þeirra María Björg, Kristinn Jóhannes, Sigurður Pétur og Björn Jakob. 2) Fullburða, andvana fæddur drengur, 1. júní 1955. 3) Jón, f. 12. desember 1956, kvæntur Öldu Harðardóttur, synir Jón Viðar og Björgvin Hörður. 4) Sigríður Hrönn, f. 15. nóvember 1959, gift Ragnari Gunnarssyni, börn Sigurður, Hermann Ingi, Kristín Rut og Árni Gunnar. 5) María Marta, f. 3. október 1964, maki Tryggvi Þorsteinsson. Börn hennar með eiginmanni hennar Ásgeiri Markúsi Jónssyni sem lést 2015 eru Davíð, Rakel og Samúel. Langömmubörnin eru 22.
María var Vesturbæingur í húð og hár, ólst upp á Hörpugötunni í Skerjafirði á stríðsárunum og kunni frá mörgu að segja frá þeim tíma. Leiðir hennar og Sigurðar eiginmanns hennar lágu saman þegar hún var nemi í hjúkrun við Hjúkrunarskóla Íslands. Þau bjuggu allan sinn búskap í Vesturbænum. Hún sinnti húsmóðurstarfinu og uppeldi barna sinna af mikilli alúð og var lengi vel heimavinnandi. Síðar vann hún í Melaskóla við ýmis störf þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Síðustu fjögur árin dvaldi María á hjúkrunarheimili Hrafnistu Sléttuvegi.
Útför Maríu fer fram frá Neskirkju í dag, 15. febrúar 2024, klukkan 11.
Þakklæti er mér efst í huga þegar ég minnist elskulegrar móður minnar sem látin er eftir langt æviskeið, þakklæti fyrir ástríki, umhyggjuna og kærleikann sem hún sýndi mér ávallt.
Við áttum einstakt vináttusamband á yfir 70 ára vegferð í gegnum lífið. Það er sama við hvaða aldursskeið mitt ég staðnæmist, alltaf var hún til staðar fyrir mig og mitt fólk. Lítil hnáta fékk huggun og aðhlynningu þegar eitthvað bjátaði á. Þá hljóp hún í móðurfang og tárin þornuðu í sérhvert sinn þegar hún mamma strauk tárvotan vanga. Á unglingsárunum var líka gott að leita til mömmu, ræða málin og finna fyrir skilningi, uppörvun og hvatningu. Unga konan með nýstofnað heimili gat líka leitað til móður sinnar og fengið leiðsögn í flestöllu. Það var líka yndislegt að fá hana í heimsókn. Hún sat aldrei auðum höndum, tók til hendinni við það sem þurfti að gera og taldi ekkert eftir sér. Þegar árin liðu og aldurinn færðist yfir var gott að sitja með mömmu, rifja upp gamlar minningar, sumar sameiginlegar og aðrar sem hún geymdi í sínum minningasjóði.
Hún mamma mín var mikil hannyrðakona, vandvirk og þolinmóð. Ég sé hana fyrir mér sitja við gömlu fótstignu saumavélina saumandi föt á okkur systkinin. Hún taldi ekki eftir sér að rekja upp og sauma aftur þar til að hún var fyllilega ánægð með verk sitt. Síðar fékk hún rafmagnssaumavél og gladdist hún mikið yfir því. Allt lék í höndunum á henni, prjónaskapur, útsaumur og postulínsmálun svo eitthvað sé nefnt.
Það er sterkt í minningunni hversu notalegt það var að vita af mömmu heima þegar ég kom heim úr skólanum sem stelpa. Allt var á sínum stað, alltaf eitthvað gott að borða og ást og umhyggja tók á móti mér. Að vísu voru tveir dagar í mánuði sem voru kvíðvænlegir. Það voru þvottadagarnir. Þá var hún allan daginn í þvottahúsinu og þvoði þvottinn sem safnast hafði fyrir síðustu tvær vikurnar. Þannig var mamma, alveg ómissandi í hversdeginum.
Barnabörnin hændust líka að henni. Alltaf gaf hún sér tíma fyrir þau og sinnti þeim eins og henni einni var lagið, mætti þeim hverju og einu á þeirra forsendum.
Mamma fékk kristið uppeldi og var það henni mikill styrkur á lífsgöngunni. Hún ræktaði trú sína, sótti kirkju og kristilegar samkomur og sótti styrk í lestur Biblíunnar og bænina. Nú hefur hún gengið inn til fagnaðar herra síns á himnum, frelsarans Jesú sem hún lagði allt sitt traust á.
Við börnin hennar og fjölskyldur geymum minningar um elskulega, hjartahlýja og ósérhlífna konu og yljum okkur við þær núna þegar hún hefur kvatt þetta jarðlíf.
Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,
vaka láttu mig eins í þér.
Sálin vaki þá sofnar líf,
sé hún ætíð í þinni hlíf.
(Hallgrímur Pétursson)
Elsku besta mamma mín, takk fyrir allt.
Þín dóttir,
Sigurlína (Lína).
Elsku mamma mín. Ég kveð þig full þakklætis.
Þakka þér fyrir dýrmætu stundirnar okkar saman. Þakka þér fyrir að horfa djúpt í augu mín og sjá mig, strjúka vanga minn með mjúkri hendi þinni og láta mig finnast ég vera einstök. Fallegu orðin sem þú sagðir við mig óma innra með mér, það var dýrmætt að vera elskuð af þér.
Þakka þér mest af öllu elsku mamma fyrir að velja Jesú. Jesús hefur frelsað þig, þú ert hans og þú ert sæl. Við munum hittast á ný. Þú ert farin á undan og ég kem á eftir.
Þú ert í huga mínum og hjarta.
Þín elskandi dóttir
Hrönn.
Elsku yndislega mamma mín.
Núna ertu farin frá mér heim til Jesú, bæn mín til Hans var að taka þig til sín þegar þú varst orðin mikið veik. En ég var samt ekki og hefði aldrei verið tilbúin að missa þig.
Dagarnir hafa verið þungir, daprir og ég upplifi mig svo tóma án þín og ég veit að sorgin og söknuðurinn á eftir að hellast yfir mig.
Á sama tíma er ég svo þakklát fyrir að hafa átt þig sem bestu mömmu í heimi, trúnaðarvin og bestu vinkonu. Við höfum verið við hlið hvor annarrar síðan ég fæddist. Höfum upplifað margt, tekið þátt í gleði og sorg og verið alla tíð einstaklega nánar.
Síðasta samveran okkar tveggja var daginn áður en þú lést í herberginu þínu á Sléttuveginum. Þá kom ég til þín og andlitið þitt ljómaði þegar þú sást mig. Þú tókst mig í opinn faðminn þinn og straukst mér og kysstir og á sama tíma opnaðist himinninn og sólin skein á okkur. Ég gerði mér grein fyrir því að þarna varstu að kveðja mig í síðasta sinn og sýna mér þakklæti, kærleika og ást. Minningarnar streyma upp í hugann.
Þú varst alltaf svo glæsileg, falleg, glaðleg, hlý, kærleiksrík, þolinmóð og hjálpsöm. Gladdist yfir að vera fín í tauinu og hafa hárið í lagi. Þú varst líka ákveðin og lést skoðanir þínar í ljós.
Við ferðuðumst um landið og fórum í nokkrar utanlandsferðir saman, bæði til Noregs og Lúxemborgar. Okkur fannst gaman að fara í bæinn og kaupa föt á þig, kaupa afmælis- og jólagjafir, fara á kaffihús eða beint í pylsuskúrinn.
Það lék allt í höndum þínum, saumaðir, prjónaðir og heklaðir fötin á okkur systkinin. Tilhlökkun á sumrin þegar við fórum í ferðalög um landið um hvað þú værir búin að útbúa á okkur. Eftirminnileg fallega heklaða sláin með hettunni og fjólubláu blómabuxurnar, jólakjólarnir og prjónuðu peysurnar.
Seinni árin saumaðir þú mikið út, málaðir postulín og gler og skreyttir kerti og er dásamlegt að eiga þessa hluti eftir þig.
Mamma mín, þú varst líka svo mikil blómakona.
Blómin sem fylgja þér síðasta spölinn úr kirkjunni í dag verða í þínum anda, litrík og falleg.
Þakklát fyrir hvað þú varst yndisleg amma barnanna minna, Davíðs, Rakelar og Samúels. Allt frá fæðingu þeirra varstu til staðar fyrir þau og tengdabörnunum mínum Einari og Lovísu svo góð. Ásgeir minn heitinn og Tryggvi minn voru heppnir að eiga þig sem tengdamömmu.
Ömmustelpan mín hún Sigurbjörg María var þér svo kær og tengdist þér sérstökum böndum, nú hefur hún útbúið bók með texta og myndum til minningar um langömmu Mæju.
Á sama tíma og þú varst að kveðja fæddist mér gullfallegur og fullkominn ömmudrengur. Að hafa hann í fanginu linar sorgina og veit ég að ömmubörnin mín eiga eftir að færa mér gleði í sorginni og mun ég segja honum frá langömmu sinni þegar hann hefur vit til.
Kynslóðir fara og kynslóðir koma.
Elskulega mamma mín
mjúk er alltaf höndin þín
tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn
þegar stór ég orðin er
allt það skal ég launa þér.
Elsku mamma mín, vertu Guði falin alla tíð, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Þín dóttir Mæja
María Marta Sigurðardóttir.
María Matthíasdóttir tengdamóðir mín andaðist 28. janúar síðastliðinn. Ég kom inn í líf hennar fyrir 47 árum sem verðandi tengdasonur. Frá fyrsta degi tók hún mér vel.
Líf kynslóðar Maríu og systkina hennar og jafnaldra markaðist oft af fátækt og basli. Möguleikar til menntunar og almennra nútímalífsgæða voru mjög takmarkaðir. María missti móður sína 12 ára gömul og þurftu þau systkinin að læra að bjarga sér og vinna. Fólk þessa tíma þurfti að búa yfir seiglu og þolinmæði. Það má segja að margir af þessari kynslóð hafi bognað vegna erfiðleika lífsins en ekki brotnað.
María var dugleg og vinnusöm. Hún helgaði líf sitt fjölskyldunni og sinnti öllum sem hún gat aðstoðað. Börnin mín og barnabörn voru öll hænd að henni og heimsóttu hana oft á meðan hún bjó heima. Eftir að heilsu hennar hrakaði og hún flutti á hjúkrunarheimili sinntum við henni eins og hægt var.
Ég mun ávallt minnast Maríu með þakklæti fyrir allt sem hún gerði. Við vitum að María átti óbrigðula trú á Guð og Jesú og fær góðar viðtökur á himni.
Magnús J. Kristinsson.
Með örfáum orðum langar okkur systkinin að minnast ömmu Mæju sem nú er fallin frá. Amma var samferða okkur í gegnum lífið. Í uppvextinum urðum við þeirrar gæfu aðnjótandi að amma bjó í göngufæri frá æskuheimili okkar. Samgangurinn var ávallt mikill og samvera með ömmu og afa hluti af hversdeginum.
Þegar amma kom í heimsókn gekk hún í þau störf sem þurfti á heimilinu, braut saman þvott og þreif gólf. Hún veitti mikinn stuðning í uppeldinu. Stundirnar með ömmu og afa á Dunhaganum eru okkur dýrmætar. Þar var alltaf nóg við að vera. Amma föndraði, prjónaði, bakaði og saumaði með okkur. Þess á milli settumst við saman í stofuna og horfðum á sjónvarpið eða ræddum um heima og geima. Aðfangadagur á Dunhaganum var svo órjúfanlegur hluti jólahátíðarinnar hjá okkur í æsku.
Amma var óhrædd við að láta okkur systkinin taka þátt í því sem hún var að gera. Við máttum brjóta eggin ofan í kökudeigið og hún sendi okkur yfir götuna í Kron þegar eitthvað vantaði. Þolinmæði ömmu í okkar garð virtist óþrjótandi. Þegar við vorum í Hagaskóla var stutt að skottast yfir til ömmu í hádeginu og þar beið okkar eggjabrauð eða pitsa með tómatsósu og pepperonia, eins og hún kallaði það.
Amma var afmælisglöð og var alltaf mætt löngu áður en gestirnir komu til þess að bjóða fram hjálparhönd. Þótt amma hafi verið hlédræg stóð hún ekki á skoðunum sínum þegar henni líkaði ekki við klæðaburð okkar eða hárgreiðslu. Slíkar athugasemdir voru þó settar þannig fram að ekki var hægt að erfa neitt við hana. Amma var miðdepill stórfjölskyldunnar.
Það var erfitt að horfa upp á ömmu, sem alltaf var svo skýr og skörp, hverfa inn í heim minnis- og tjáningarleysis síðustu árin. Við skynjuðum þó alltaf væntumþykjuna í okkar garð og hennar hlýja faðm.
Minningin um yndislega ömmu mun fylgja okkur alla tíð.
Takk fyrir allt, elsku amma okkar.
María, Kristinn, Sigurður og Björn.
Amma Mæja. Elsku frábæra og skemmtilega amma mín. Þú varst mér svo náin og kær, mikið sem ég sakna þín. Fæddist lítill í þennan heim og varst þú til staðar fyrir mig frá fyrsta degi. Umvafðir mig elsku þinni, kærleika og hjálpsemi.
Þú og afi voruð stólpar í lífi mínu. Ég heimsótti ykkur oft á Dunó og þið komuð til mín í Bugðutangann. Við afi lékum okkur mikið í boltaleik, knúsuðumst og kitluðum hvor annan og hann sagði mér sögur. Við horfðum líka mikið á Tomma og Jenna og hlógum báðir upphátt svo aðrir muna.
Á sama tíma varst þú að uppfylla ósk mína, sjóða ýsu og kartöflur sem ég var sjúkur í. Þetta stappaðir þú með smjöri og ég hámaði í mig hvenær dagsins sem var. Ég þakka þér heilsu mína í dag, fyrir soðninguna, því sjaldan verður mér misdægurt.
Þið afi voruð okkur systkinunum svo góð þegar pabbi var erlendis að vinna, og hjálpuðuð okkur á allan hátt til að láta tímann líða þar til hann kæmi heim aftur.
Þegar afi dó tókst þú mig að þér og urðum við svo náin. Oft bauðst þú mér á Grandó í næturgistingu, kósí og bíó.
Þegar ég fékk bílpróf var það mitt hlutverk að keyra þig á milli staða. Keyra þig í Bónus og sækja þig eða keyra þig heim eftir heimsókn hjá okkur. Það gladdi mig svo mikið hvað þú varst örugg í bíl hjá mér og hvað þú hældir mér oft fyrir hversu góður ökumaður ég væri. Mér er minnisstætt hvað þú söngst oft í bílnum hjá mér enda var tónlist, dans og fjör í þér.
Þú gladdist yfir því þegar ég flutti að heiman í íbúðina mína, komst oft í heimsókn og þá oftast með snúð með súkkulaði sem þú vissir að mér þótti svo góður. Þú hafðir gaman af að taka til hendinni og hjálpa mér.
Elsku amma, ertu til í að senda kveðju til afa frá mér þegar þið hittist á ný?
Þinn
Davíð.
Elsku amma mín. Núna þegar ég minnist þín er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt þig sem ömmu.
Þú varst svo skemmtileg og hnyttin í svörum, óhrædd við að segja skoðanir þínar. Þegar ég ákvað að safna hári og skeggi og var stundum í rifnum buxum fékk ég oft skemmtileg komment frá þér en ég hef alltaf passað að vera hreinn og snyrtilegur og er það í þínum anda.
Þú varst alltaf svo hress og fjör í kringum þig. Tónlistin á Grandó ómaði þegar ég kom í heimsókn til þín. Oft falleg trúarleg tónlist en líka Björgvin Halldórsson og Raggi Bjarna og oftast tókst þú dansspor og söngst með.
Þú varst svo góðhjörtuð og vildir mér alltaf allt hið besta. Ég fékk að njóta umhyggju þinnar og kærleika og er ég óendanlega þakklátur Guði fyrir þig, amma mín. Ég á eftir að segja nýfædda syni mínum sögur af þér þegar hann eldist.
Læt fylgja með ljóð eftir Halldór Jónsson frá Gili sem mér finnst segja allt.
Þú varst okkur amma svo undur góð
og eftirlést okkur dýran sjóð,
með bænum og blessun þinni.
Í barnsins hjarta var sæði sáð,
er síðan blómgast af Drottins náð,
sá ávöxtur geymist inni.
Við allt viljum þakka amma mín,
indælu og blíðu faðmlög þín,
þú vafðir oss vina armi.
Hjá vanga þínum var frið að fá
þá féllu tárin af votri brá,
við brostum hjá þínum barmi.
Við kveðjum þig elsku amma mín,
í upphæðum blessuð sólin skín,
þar englar þér vaka yfir.
Með kærleika ert þú kvödd í dag,
því komið er undir sólarlag,
en minninga ljós þitt lifir.
Leiddu svo ömmu góði guð
í gleðinnar sælu lífsfögnuð,
við minningu munum geyma.
Sofðu svo amma sætt og rótt,
við segjum af hjarta góða nótt.
Það harma þig allir heima.
(Halldór Jónsson frá Gili)
Kveð þig með söknuði.
Þinn
Samúel.