Endurkoma Martha Hermannsdóttir ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að bjarga uppeldisfélagi sínu KA/Þór frá falli úr deildinni.
Endurkoma Martha Hermannsdóttir ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að bjarga uppeldisfélagi sínu KA/Þór frá falli úr deildinni. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleikskonan Martha Hermannsdóttir sneri óvænt aftur á völlinn um síðustu helgi með uppeldisfélagi sínu KA/Þór þegar liðið tapaði með fimm marka mun gegn ÍR, 22:17, í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í Skógarseli í Breiðholti

Handbolti

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handknattleikskonan Martha Hermannsdóttir sneri óvænt aftur á völlinn um síðustu helgi með uppeldisfélagi sínu KA/Þór þegar liðið tapaði með fimm marka mun gegn ÍR, 22:17, í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í Skógarseli í Breiðholti.

Martha, sem er fertug og verður 41 árs í desember, lagði skóna á hilluna sumarið 2022 eftir afar farsælan feril en hún varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari með Akureyrarliðinu árið 2021.

Hún var fyrirliði KA/Þórs lengi vel en liðið er í miklu basli þessa dagana og situr sem stendur í áttunda og neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með fimm stig, stigi minna en Afturelding og tveimur stigum minna en Stjarnan.

„Ég er fyrst og fremst gríðarlega mikill Akureyringur og ég vildi hjálpa félaginu mínu í þeirri erfiðu stöðu sem það er í,“ sagði Martha í samtali við Morgunblaðið þegar hún ræddi endurkomu sína á handboltavöllinn.

Á ekki mikið eftir

„Ég er á leiðinni í hálfan járnkarl núna í haust og er því búin að æfa mjög vel í allan vetur. Ég skellti mér til Þýskalands á Evrópumótið í handbolta og þar var öll stjórn KA/Þórs líka. Eftir einn til tvo bjóra, og mikla pressu frá stjórnarmönnum félagsins, samþykkti ég að mæta á eina æfingu og sjá svo til eftir það. Eftir fyrstu æfinguna leið mér í raun eins og ég hefði aldrei hætt í handbolta og ég ákvað að slá til.

Ástæðan fyrir því að ég hætti á sínum tíma var sú að skrokkurinn var ekki alveg nægilega góður síðustu tímabilin mín í handboltanum. Á sama tíma er ég í mjög góðu formi og allt það en ég fann það eftir leikinn gegn ÍR að ég á ekki marga leiki eftir í mér. Ég er hins vegar staðráðin í að hjálpa mínu liði og klára tímabilið en það er klárt mál að ég mun ekki taka annað tímabil með KA/Þór,“ sagði Martha í léttum tón.

Margar dottið út

Þegar Martha skildi við liðið eftir tímabilið 2021-22 var það að berjast á toppi deildarinnar en síðan þá hafa hlutirnir breyst hratt.

„Það eru margar sem hafa dottið út undanfarin tvö tímabil. Við vorum tvær sem hættum, ég og Katrín Vilhjálmsdóttir, Hulda Bryndís Tryggvadóttir, Rut Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir fóru allar í barneignarleyfi og svo héldu þær Aldís Ásta Heimisdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir út í atvinnumennsku. Það mætti því segja sem svo að við höfum misst allt byrjunarliðið og sú eina sem varð eftir var markvörðurinn Matea Lonac.

Auðvitað ganga öll lið í gegnum kynslóðaskipti og allt það en þetta var bara aðeins of mikið brottfall, eftir á að hyggja. Liðið er mjög ungt í dag en ég ákvað allavega að koma inn í þetta og tuska stelpurnar aðeins til. Þær fengu eflaust smá sjokk eftir fyrstu æfinguna sem ég mætti á því ég byrjaði á því að berja aðeins á þeim og tuska þær til. Það voru engin vettlingatök og ekki til neitt sem heitir elsku mamma enda erum við í harðri fallbaráttu.“

Mikill vilji innan félagsins

Martha viðurkennir að það hafi verið erfitt að fylgjast með gengi liðsins á yfirstandandi tímabili.

„Þetta er búið að vera virkilega erfitt, ég skal alveg viðurkenna það. Staðreyndin er sú að það er mjög erfitt fyrir lið úti á landi að fá til sín leikmenn. Við fengum þrjá brasilíska leikmenn til okkar fyrir tímabilið og þær hafa einfaldlega ekki náð að fylla þau skörð sem aðrir leikmenn skildu eftir sig. Við reyndum allt fyrir tímabilið til þess að fá til okkar íslenska leikmenn og það er mikill vilji innan félagsins að halda úti góðu handboltaliði.

Ég er að þjálfa 5. flokk í dag, þar sem dóttir mín spilar meðal annars, og það er gríðarlega mikilvægt fyrir þessar stelpur að eiga góðar fyrirmyndir í meistaraflokki og líka að það sé stemning í kringum meistaraflokkinn. Þegar okkur gekk sem best var fullt á öllum leikjum hjá okkur og stemningin frábær en maður skynjar ákveðinn leiða gagnvart handboltanum núna þegar hlutirnir ganga ekki upp.“

Leggja allt í sölurnar

En hvernig metur Martha möguleika liðsins á að halda sér uppi?

„Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Við eigum eftir að mæta bæði Aftureldingu og Stjörnunni á okkar heimavelli og þetta eru tveir leikir sem við verðum einfaldlega að vinna. Við þurfum að mæta brjálaðar til leiks og berjast og gefa allt í þetta. Hér áður fyrr var það þannig að það mætti ekkert lið hingað norður og valtaði yfir okkur, það var einfaldlega ekki í boði. Það hefur aðeins vantað í liðið núna finnst mér en ég hef fulla trú á því að ef við leggjum allt í sölurnar og gefum okkur allar í þá leiki sem eftir eru þá muni okkur takast að halda sæti okkar í deildinni en á sama tíma er ég meðvituð um að verkefnið er erfitt. Unnur og Rut gætu náð þessum lokaleikjum og ef það gengur upp þá yrði það auðvitað mikill liðstyrkur fyrir okkur.“

Gætu róið á önnur mið

Martha óttast að lykilmenn liðsins haldi annað, fari svo að liðið falli í 1. deildina.

„Ég er ansi hrædd um að sterkustu leikmenn liðsins rói á önnur mið ef okkur tekst ekki að halda sæti okkar í deildinni. Það er líka þannig að það er mjög erfitt að komast upp úr 1. deildinni. Liðið sem endar í efsta sætinu fer beint upp en liðið í 2. sæti mætir liðinu sem endar í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar í umspili.

Eins og ég sagði áðan hefur það reynst okkur erfitt að fá til okkar íslenska leikmenn í gegnum tíðina og ég geri ekki ráð fyrir að það verði neitt auðveldara ef við föllum um deild. Það er því ótrúlega mikilvægt fyrir félagið í heild sinni að við höldum sæti okkar í úrvalsdeildinni og þótt ég viti það ekki fyrir víst þá geri ég bara ráð fyrir því að sterkari leikmenn liðsins séu ekki tilbúnir að sætta sig við það að spila í 1. deildinni.“

Þurfa á stuðningi að halda

Eins og Martha kom sjálf inn á hefur verið frábær stemning á leikjum KA/Þórs undanfarin ár og liðið þarf svo sannarlega á stuðningi bæjarbúa að halda þessa dagana.

„Stemningin í KA-heimilinu undanfarin ár hefur verið þannig að það er alls ekki gaman fyrir önnur lið að mæta hingað og spila. Stuðningsmennirnir hafa verið áttundi leikmaðurinn ef svo má segja og ég biðla í raun bara til allra Akureyringa að mæta í KA-heimilið og styðja við bakið á okkur í þessum lokaleikjum tímabilsins því við þurfum svo sannarlega á því að halda.

Það væri ansi sorglegt ef fólkið í bænum væri ekki tilbúið að fylkja sér á bak við liðið þegar við þurfum mest á því að halda enda ekki bara hægt að styðja lið þegar vel gengur. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að landsbyggðarliðin spili í efstu deild í sínum íþróttagreinum. Ef við horfum til Tindastóls í karlakörfunni sem dæmi og kvennaliðs Þórs í körfunni. Bæði þessi lið standa sig frábærlega og það er mikilvægt fyrir krakka á landsbyggðinni að hafa öflugar fyrirmyndir í meistaraflokkunum sem spila í hæsta gæðaflokki.“

Börnin mæta með á æfingar

Martha er tannlæknir að mennt og starfar sem slíkur og þá er hún einnig þriggja barna móðir, ásamt því að þjálfa og nú spila handbolta þannig að það er nóg að gera hjá henni þessa dagana.

„Vinkonur mínar sem eru á leiðinni með mér til Berlínar að keppa í hálfum járnkalli hafa miklar áhyggjur af mér og að ég muni detta út úr æfingaprógramminu en þetta mun ganga upp. Ég æfi á morgnana, fer í vinnuna og svo beint á handboltaæfingu og svo að synda. Börnin mín elska að ég sé byrjuð aftur í handboltanum og þau eru dugleg að mæta með mér á æfingar.

Þau eru meira að segja það ánægð með mig að þau eru dugleg að monta sig við vini sína. Það hjálpar líka til að búa á Akureyri þar sem það tekur aldrei meira en fimm mínútur að komast á milli staða, ólíkt borgarlífinu. Á sama tíma er þetta bara törn eða tímabil og mögulega verður minn síðasti leikur 23. mars. Það er ekki mikið eftir af þessu og ég er tilbúin að leggja annað til hliðar í stuttan tíma. Þetta snýst um að vakna snemma og fara snemma að sofa,“ bætti Martha Hermannsdóttir við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason