Berskjölduð „Elísabet leitar inn á við, berskjaldar sig, skoðar hvað kom fyrir hana og hvernig sú reynsla hefur mótað hana sem manneskju,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir um skáldskap Elísabetar Jökulsdóttur.
Berskjölduð „Elísabet leitar inn á við, berskjaldar sig, skoðar hvað kom fyrir hana og hvernig sú reynsla hefur mótað hana sem manneskju,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir um skáldskap Elísabetar Jökulsdóttur. — Ljósmynd/Jorri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég varð hreinlega fyrir eldingu af innblæstri þegar ég las bækurnar tvær,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir um tilurð einleiksins Saknaðarilms sem frumsýndur verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í kvöld

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Ég varð hreinlega fyrir eldingu af innblæstri þegar ég las bækurnar tvær,“ segir Unnur Ösp Stefánsdóttir um tilurð einleiksins Saknaðarilms sem frumsýndur verður í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Verkið skrifaði Unnur upp úr tveimur bóka Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda og Saknaðarilmi. Unnur leikur sjálf aðalhlutverk sýningarinnar en leikstjóri er Björn Thors. Þau unnu síðast saman á sviði í verðlaunaeinleiknum Vertu úlfur sem Unnur skrifaði upp úr samnefndri bók Héðins Unnsteinssonar og leikstýrði Birni á Stóra sviði Þjóðleikhússins 2021. Auk þeirra hjóna er listræna teymið að baki Saknaðarilmi að stórum hluta það sama og í Vertu úlfur. Sem fyrr hannar Elín Hansdóttir leikmynd, Filippía I. Elísdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu. Að þessu sinni er tónlist í höndum Ólafar Arnalds og Skúla Sverrissonar, Aron Þór Arnarsson hannar hljóðmynd og Margrét Bjarnadóttir sviðshreyfingar.

Sterk mæðgnasaga

Unnur fer ekki dult með að Saknaðarilmur kallist sterklega á við Vertu úlfur. „Ég sá strax í hendi mér að við yrðum að skoða hlutina líka út frá hinni kvenlægu hlið. Það er í raun magnað hvað sögur Elísabetar og Héðins eiga margt sameiginlegt, þrátt fyrir að vera í grunninn ólíkar. Þau hafa bæði verið áberandi í samfélagsumræðunni þegar kemur að geðheilbrigðismálum og veitt mikinn innblástur hvort á sinn hátt. Þau eiga það sameiginlegt að hafa verið að kljást við geðhvörf, lenda í þeirri erfiðu lífsreynslu að vera sjálfræðissvipt af foreldri og í báðum tilfellum í baðkari,“ segir Unnur og tekur fram að sér hafi fundist spennandi að skoða með listrænum hætti þá speglun sem sjá megi á lífi og upplifunum þessara tveggja mögnuðu einstaklinga. „Á sama tíma og upplifanir þeirra og frásagnir eiga margt sameiginlegt er áhugavert að skoða hversu ólík nálgun þeirra á efniviðinn er, sem helgast mögulega af kyni þeirra.

Meðan hann horfir út á við horfir hún inn. Héðinn talar inn í fordómafullt samfélag, ræðst á orðræðuna og vill breyta kerfinu. Elísabet leitar inn á við, berskjaldar sig, skoðar hvað kom fyrir hana og hvernig sú reynsla hefur mótað hana sem manneskju,“ segir Unnur og tekur fram að sér hafi ekki síst þótt spennandi að efniviður Elísabetar bjóði upp á sterka mæðgnasögu. „Mér finnst mjög merkilegt hvernig sumir lesendur upplifa bókina Saknaðarilm sem mjög fallega og aðrir sem mjög ljóta. Von mín er að sýningin fangi hvort tveggja,“ segir Unnur og bendir á að í einleiknum fái áhorfendur að fylgjast með uppgjöri skáldkonu við foreldramissi.

„Við munum öll þurfa að ganga í gegnum það erfiða hlutverk að missa foreldra okkar, ef við erum ekki þegar búin að því,“ segir Unnur og tekur fram að slíkum missi fylgi oft á tíðum uppgjör við fortíðina. „Í tilviki skáldkonunnar leiðir móðurmissirinn til þess að hún er loks tilbúin að horfast í augu við erfiða æsku sína, föðurmissi tæpum fjörutíu árum fyrr, geðveikina, ástina og sturlað lífshlaup sitt.“

Að sögn Unnar eru grunnspurningar nýju leikgerðarinnar: Hver er ég? Og af hverju er ég eins og ég er? „Von mín er að við sem að sýningunni stöndum séum að fara lengra og dýpra í leitinni að mannlegu eðli og öllum okkar áskorunum, hvort sem þær birtast sem alkóhólismi, geðrænar áskoranir, samskiptavandamál eða allt það annað sem við erum að takast á við sem manneskjur,“ segir Unnur og tekur fram að meðal þess sem reynt sé að leita svara við sé hvort áföll geti gert okkur veik og hvort þjáning erfist á milli kynslóða.

„Það er auðvitað ótrúlega spennandi fyrir okkur sem listafólk að komast í svona magnaðan efnivið,“ segir Unnur og vísar þar til skáldskapar Elísabetar. „Hún hefur aldrei farið dult með það að hún vinnur með eigið líf í skáldskap sínum og hefur þar sýnt ótrúlegt hugrekki,“ segir Unnur og tekur fram að sér hafi þótt mikilvægt að víkka efnivið sýningarinnar út þannig að hún yrði ekki hreinræktuð heimildarsýning um aðeins eina fjölskyldu. „Ég er þannig ekki að leika Elísabetu Jökulsdóttur á sviðinu, þótt vissulega sækjum við í hennar brunn sem og tímaskeiðið sem hún er að skrifa um,“ segir Unnur og áréttar að hvort sem leikari sé að leika tilbúna persónu eða hlutverk sem byggist á raunverulegri manneskju þá snúist starf leikarans alltaf um djúpstæðan skilning.

Vill að ungt fólk fái rödd

„Ég hef engan áhuga á því að nálgast persónuna utan frá með því að líkja eftir yfirbragði eða látbragði. Bæði í þessari sýningu og í Vertu úlfur höfum við Björn unnið persónusköpunina alfarið innan frá,“ segir Unnur og bendir á að markmið sitt sem listamaður sé ávallt að áhorfendur nái að tengjast sögunni á sínum forsendum og hafi tækifæri til að spegla sig í efniviðnum. „Ég geri mér vonir um að sýningin veiti áhorfandanum tækifæri til að setja sig í spor skáldkonunnar á sviðinu og læra eitthvað um sjálfan sig í leiðinni og jafnvel sýna sjálfum sér samúð og mildi,“ segir Unnur og tekur fram að hún dáist að hugrekki og hreinskilni Elísabetar. „Hún sprengir tabú og vill tala um það sem enginn þorir að tala um – tala um píkuna sína, um geðveikina og tala illa um mömmu sína,“ segir Unnur og tekur fram að hún bindi vonir við að efniviðurinn sprengi út frá sér í anda orku Elísabetar.

Aðspurð segir Unnur að Saknaðarilmur sé fyrsti einleikurinn sem hún leikur í atvinnuleikhúsi. „Það er sannarlega áskorun fyrir 47 ára fjögurra barna móður – bara að hafa orkuna í það fyrir utan allt hitt,“ segir Unnur kímin. Hún rifjar upp að sem barn hafi hún sífellt verið að setja upp einleiki, en ákveðin hvörf hafi orðið þegar hún í leiklistarnámi sínu vann einleikinn Venjuleg kona? undir handleiðslu leikhúslistamannsins Viðars Eggertssonar.

„Sá einleikur var ákveðin ögurstund í mínu lífi,“ segir Unnur og rifjar upp að hún hafi sjálf skrifað einleikinn sem hún byggði á reynslusögum kvenna, leikið hann og sjálf leikstýrt. „Þar fékk ég í fyrsta sinn algjöra útrás fyrir höfundinn í mér, sem var raunar markmiðið með áfanganum hjá Vidda,“ segir Unnur og ljóstrar því upp að hún hafi áhuga á að rækta höfundinn í sér enn meira eftir reynsluna af því að skrifa leikgerðirnar að Vertu úlfur og Saknaðarilmur. „Ég er þannig þegar byrjuð að vinna nýtt leikverk sem ég mun einnig leikstýra næsta vetur þar sem ætlunin er að gefa ungu fólki í samfélaginu rödd. Það tengist þeirri köllun minni að tala inn í samfélagsumræðuna og setja ljós á málefni sem mér finnst brýnt að ræða.“

Listin á að vera hættuleg

Spurð hvort hún upplifi mikinn mun á því að leikstýra eða leika eigin texta svarar Unnur því játandi. „Mér finnst miklu meira berskjaldandi að vera á sviðinu sem höfundur en leikari, enda hef ég rúmlega 20 ára leikreynslu meðan ég er tiltölulega nýfarin að spreyta mig sem höfundur,“ segir Unnur og lýkur lofsorði á það listafólk sem skipar listrænt teymi sýningarinnar. „Við erum að vinna með sömu vinnuaðferð og í Vertu úlfur og höfum unnið uppfærslurnar í miklu samsköpunarferli, sem helgast ekki síst af því að við brennum öll fyrir efniviðnum og erindinu. Við leggjum öll sálina í þessa sýningu,“ segir Unnur og áréttar að leitin að réttri samstillingu í miðlun efnisins taki á.

„Það tekur á andlega og sálrænt að sökkva sér ofan í efnið, ekki síst af því að efnið skiptir okkur öll máli. Leitin að réttu leiðinni stendur alveg fram að frumsýningu og það er ótrúlega gefandi, en líka ógnvekjandi,“ segir Unnur og rifjar upp að þegar hún var í listnámi hafi henni verið „kennt að listin má ekki vera örugg heldur verður hún að vera hættuleg. Hvað er að vera hættulegur? Í því felst ekki að hún eigi eða megi vera meiðandi, en hún verður engu að síður að ögra,“ segir Unnur og áréttar að leikhúsið og listafólkið sem þar starfi vinni við að þenja mörkin. „Það er von mín að sýningin Saknaðarilmur muni allt í senn ögra, hugga og heila. Við verðum að horfast í augu við okkur sjálf og þann djúpa sársauka sem býr innra með okkur og birtist meðal annars í átökum samfélagsins,“ segir Unnur að lokum.

Höf.: Silja Björk Huldudóttir