Svikasímtöl Hrafnkell segir svikarana geta innheimt gjöld fyrir símtölin.
Svikasímtöl Hrafnkell segir svikarana geta innheimt gjöld fyrir símtölin. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þúsundir svikasímtala bárust símnotendum hér á landi í vikunni. Símtölin virðast koma frá Lúxemborg og Srí Lanka. Forstjóri Fjarskiptastofu, Hrafnkell V. Gíslason, segir að um eins konar skyndisókn hafi verið að ræða og að markmiðið hafi verið að fá …

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Þúsundir svikasímtala bárust símnotendum hér á landi í vikunni. Símtölin virðast koma frá Lúxemborg og Srí Lanka. Forstjóri Fjarskiptastofu, Hrafnkell V. Gíslason, segir að um eins konar skyndisókn hafi verið að ræða og að markmiðið hafi verið að fá símnotendur til þess að greiða einhvers konar yfirgjaldsþjónustu eða taxta fyrir símtölin.

Vilja að hringt sé til baka

„Okkur sýnist að það hafi verið hringt í stuttan tíma og þá er vonast til þess að einhver falli í þá gryfju að hringja til baka. Við það skapast möguleg skylda á viðkomandi aðila að greiða fyrir það símtal,“ segir Hrafnkell og gjöldin geti náð háum upphæðum.

„Það getur þess vegna verið einhvers konar yfirgjaldsþjónusta þar sem tekin eru há gjöld fyrir slík símtöl,“ segir hann og bendir á að taxti símtalanna geti einnig verið mjög hár eins og ef til dæmis sé hringt til Srí Lanka.

Hann segir að svikahrapparnir búi til einhvers konar fjarskiptaþjónustu sem getur innheimt greiðsluskylduna sem skapast við það þegar hringt er til baka í númerið.

„Þá er þetta bara innheimt í gegnum símareikninginn þinn, sem kemur þér væntanlega á óvart og verður nokkuð hátt. Ef nokkur þúsund manns eða nokkur hundruð falla í þessa gryfju hefur sá sem svikin stundaði fengið eitthvað fyrir sinn snúð.“

Um skyndisókn að ræða

Þá segist Hrafnkell ekki vita til tilkynninga um fjártjón í kjölfar gærdagsins, en að Fjarskiptastofa sé í sambandi við fjarskiptafélög hérlendis og loki iðulega á númer sem vitað sé að svikahrappar standi að baki.

Spurður hvers vegna þessar símhringingar hafi komið eins og alda yfir landið segir hann að fjarskiptafélögin, Fjarskiptastofa og fleiri séu „uppi á tánum að reyna að stemma stigu við þessu. Ef þetta er jafnt og þétt er hægt að gera ráðstafanir til þess að loka á þessi númer, en þetta kemur eins og skyndisókn“. Ástæða hafi verið til þess að vara við þessum símhringingum.

Svikasímtöl

Þúsundir svikasímtala bárust landsmönnum síðastliðinn sólarhring.

Tilgangur símtalanna að fá fólk til þess að svara eða hringja til baka.

Við það myndast greiðsluskylda og þeir sem standa að baki svikunum geta náð til sín fjármunum.

Fjarskiptastofa varar við því að svara ókunnugum númerum.

Höf.: Geir Áslaugarson