Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen
„Þú þarft að skipta um lykilorð.“ Hver kannast ekki við þessa skemmtilegu athugasemd þegar á að opna forrit, vefsíðu, samfélagsmiðil, netbanka eða eitthvað annað í tölvunni eða símanum?
Fyrir miðaldra einstakling eins og mig er þessi melding á þriggja mánaða fresti heilmikið vesen. Mín kynslóð kemst þó ágætlega í gegnum það. Það sama á þó ekki endilega við um þá sem eru tuttugu árum eldri og kynntust ekki tölvum fyrr en á fullorðinsárum og jafnvel hafa aldrei tileinkað sér þessa tækni eða þurft að gera það. Nú er staðan þó einfaldlega orðin þannig að allir verða að vera tölvulæsir sem kallað er og það verður sífellt erfiðara að lifa í okkar rafræna heimi án tölvu og síma. Og gleymum því ekki að tölvan og síminn þurfa líka að tala saman.
Þegar fólk er óöruggt og kann ekki alveg á þessa tækni alla er nauðsynlegt að fá hjálp og það er þá sem hættan skapast. Hjálp við að fara inn á heimabankann, hjálp við að komast inn á Heilsuveru, hjálp við að versla, millifæra, greiða, panta tíma og svona mætti lengi telja. Það er því miður þannig að sá sem ekki er tölvufær er um leið orðinn skotmark þeirra sem vilja misnota aðstöðu sína eða svíkja og pretta. Það er nauðsynlegt að ræða þessi mál og fara yfir hvað er verið að gera og hvað þarf að gera til að vernda þá sem þurfa og koma í veg fyrir netglæpi, misnotkun og ofbeldi af ýmsu tagi.
Hinn 28. febrúar verður Öldrunarráð Íslands með ráðstefnu á Hótel Hilton. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Þú þarft að skipta um lykilorð“ – að eldast á viðsjárverðum tímum. Fjöldi fyrirlesara flytur stutt erindi þar sem áherslan er á netöryggi og viðbrögð við netbrotum, ofbeldi sem aldraðir eru sérstaklega útsettir fyrir og hvaða aðstoð/hjálp er í boði. Farið er yfir það sem er að gerast í tengslum við verkefnið Gott að eldast og nýja upplýsingaveitu fyrir aldraða á Island.is.
Árlega veitir Öldrunarráð Íslands sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið einstakt starf tengt málefnum aldraðra. Viðurkenning Öldrunarráðs verður afhent á ráðstefnunni.
Ráðstefnan er ætluð fyrir alla, leikmenn sem lærða, notendur og fagfólk. Við hvetjum alla til að mæta.
Höfundur er formaður Öldrunarráðs Íslands, forstöðumaður Droplaugarstaða hjúkrunarheimilis og varaformaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.