Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Við tökum óverulegt hlutfall af fjármunum þeirra eldri borgara sem eru gengnir til að tryggja velferð þeirra eldri borgara sem eftir lifa.

Ole Anton Bieltvedt

Ég skrifaði grein í blaðið 29. janúar undir fyrirsögninni „75 ára og eldri verði skattlausir“. 6. febrúar svarar Dagþór nokkur S. Haraldsson, að sjá vænn maður, með grein sem ber yfirskriftina „Djúphygli Oles A. Bieltvedts“.

Ég er alltaf ánægður þegar ég fæ svargreinar því með þeim hætti gefst mér tækifæri til að útskýra betur það efni sem ég fjallaði um og svara gagnrýni.

Þegar vitnað er í skrif verða menn að gæta þess að sýna það sem þeir vilja gagnrýna í réttri mynd. Hér varð Dagþóri á í messunni. Þegar ég vísaði til erfðafjárskatts í öðrum löndum benti ég á að í BNA færi hann upp í 40% og í Þýskalandi 50%. Dagþór nefndi BNA og 40%-in þar og sagði að það væri gott og eðlilegt þar sem skattar í lifanda lífi væru lægri; það kostaði miklu minna að lifa þar en hér. Þar sem við erum að tala um látna menn og þær eigur sem þeir skilja eftir sig hljómar það dálítið undarlega að menn vitni í það hvað það kostar lítið að lifa.

Þýskaland og 50%-in þar nefndi Dagþór ekki. Hér má bæta því við að í Danmörku fer erfðafjárskatturinn líka upp í 50%. Hér erum við að tala um 15% erfðafjárskatt til að tryggja aukna velferð eldri borgara. Sá 10% erfðafjárskattur sem fyrir er er auðvitað ekki á ábyrgð þessa verkefnis eða baráttumáls.

Þetta er um 1/7 hluti af erfðafjármunum. Hóflegt hlutfall fyrir góðan og gegnan málstað. Sanngirnis- og réttlætismál. M.ö.o. við tökum hóflegt hlutfall af fjármunum þeirra eldri borgara sem eru gengnir og geta sjálfir ekki notið þeirra lengur til að tryggja velferð þeirra eldri borgara sem eftir lifa.

Dagþór spyr: Hvað með þá sem ekki ná 75 ára aldri? Hvers eiga þeir að gjalda? Svarið er þessi gagnspurning: Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki ná 67 ára aldri og fá aldrei ellilífeyri? Það verður auðvitað að vera skynsamlegur rammi um öll mál.

Erfðafjármunir eru ávöxtur ævistarfs manns. Hvar stendur það höggvið í stein að annað fólk, þótt erfingjar séu og blóðtengdir, börn, barnabörn, systkini eða foreldrar, eigi rétt á þeim fjármunum óskertum?

Viðkomandi aflaði sér sinna fjármuna í því samfélagi sem hann lifði og starfaði í. Að 1/7 hluti af þessum fjármunum renni sérstaklega til baka til þess sama samfélags þegar hann þarf ekki lengur á fjármununum að halda, og það til að auka lífsgæði eldri borgara sem eftir lifa, getur fyrir mér ekki talist goðgá.

Eftirfarandi útgjaldaliðir sem ganga út á það að auka almenna velferð eru fjármagnaðir með almennum sköttum á fjárlögum: Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta, örorka og málefni fatlaðs fólks, fjölskyldumál, lyf og læknavörur, málefni aldraðra, sjúkrahúsþjónusta og heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa. Í raun eru skattalækkanir eldri borgurum til handa sama eðlis. Ganga út á aukna velferð þessa hóps, þótt í formi tekjumissis sé, í stað útgjalda.

Dagþór telur illt að börn þeirra sem látast, „unga fólkið“ sem hann kallar, skuli ekki geta nýtt fjármuni t.a.m. látinna foreldra til að eignast þak yfir höfuðið. Meðalaldur manna hér er 81/84 ár, karlar/konur. Börn eru því flest 55-60 ára, líka eldri, við fráfall foreldra. Vart „unga fólkið“ lengur.

Mín skoðun á akkúrat þessari hlið málsins er sú að unga fólkið sé best komið ef því er leyft að njóta þeirrar gleði að vinna sjálft fyrir sínum lífsgæðum – eignast með eigin kröftum bíl, íbúð eða annað sem skiptir það máli.

Fyrir mér er það vafasöm góðvild, foreldraelska, þegar þeir gefa börnum sínum bíl, íbúð eða annað, færa þeim þetta á silfurfati, því með því eru þessir foreldrar að svipta börnin sín þeirri grunngleði að eignast þessa mikilvægu hluti með eigin krafti og getu.

Menn geta auðvitað ráðstafað eignum sínum í lifanda lífi til margvíslegrar góðgerðarstarfsemi, félaga eins og Rauða krossins, SOS-barnaþorpanna, SÁÁ, Unicef Ísland, Greenpeace, Dýraverndarfélags Íslands o.s.frv. án þess að skattar leggist á.

Ef börn eða aðrir ættingjar eru í fjárhagslegum erfiðleikum og arfleifandi er vel aflögufær er auðvitað sjálfsagt að hjálpa þeim bágstadda. Þetta verkefni, skattleysi eldri borgara, myndi þá skerða það framlag rétt um 1/7 hluta, 15%. Menn héldu 85%.

Tal ágæts Dagþórs um „þjófnað“ og það „að engin þjóð á jarðkringlunni sé skattpínd jafn mikið og við hér á Íslandi“ er ekki rétt. Heildarskattar t.a.m. í Danmörku eru mun hærri
en hér. Þar virðast stjórnvöld hins vegar nýta skattféð afar vel og skynsamlega í þágu fólksins því þegar velferð þjóða er mæld, líka hamingja, eru Danir þar oftar en ekki efstir.

Nýleg rannsókn Landssambands eldri borgara sýnir að 20.000 eldri borgarar búa við bág kjör og óöryggi, við fátæktarmörk. Þetta skattleysi er því fyrir mér mikið jafnréttis- og réttlætismál.

Hér er um skattalækkanir fyrir viðkvæman hóp að ræða sem almennt má teljast af hinu góða en þar sem ekki er uppbyggilegt að leggja fram tillögur um tekjumissi eða ný útgjöld fyrir ríkið án þess að tillaga að mótvægisaðgerðum fylgi er tillagan um það sett fram að skattalækkanir á eldri borgara sem lifa séu bættar með hóflega auknum skatti á erfðafjármuni þeirra eldri borgara sem eru látnir.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt