Reyndur Haukur Páll Sigurðsson er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi. Hann tók í nóvember við sem aðstoðarþjálfari liðsins.
Reyndur Haukur Páll Sigurðsson er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi. Hann tók í nóvember við sem aðstoðarþjálfari liðsins. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukur Páll Sigurðsson tók í nóvember síðastliðnum við stöðu aðstoðarþjálfara karlaliðs Vals í knattspyrnu og skrifaði þá undir þriggja ára samning. Þar aðstoðar hann Arnar Grétarsson, sem tók við sem þjálfari liðsins fyrir síðasta tímabil

Fótboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Haukur Páll Sigurðsson tók í nóvember síðastliðnum við stöðu aðstoðarþjálfara karlaliðs Vals í knattspyrnu og skrifaði þá undir þriggja ára samning. Þar aðstoðar hann Arnar Grétarsson, sem tók við sem þjálfari liðsins fyrir síðasta tímabil.

Haukur Páll hefur verið fyrirliði Vals mörg undanfarin ár og leikið með liðinu stærstan hluta ferils síns, frá og með árinu 2010. Þrátt fyrir nýtt hlutverk hjá Val hefur varnartengiliðurinn þó ekki tekið neina formlega ákvörðun um að leggja skóna á hilluna.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Það hefur engin formleg ákvörðun verið tekin í því. Það verður tíminn bara að leiða í ljós, hvenær sú ákvörðun verður tekin.

Þetta er bara hlutverk sem ég er í núna, sem aðstoðarþjálfari hjá Val, og sinni því eins vel og ég get. Öll mín einbeiting fer í það,“ sagði Haukur Páll í samtali við Morgunblaðið og bætti við að hann væri ekkert að flýta sér að taka ákvörðun.

Býst ekki við að þess þurfi

„Nei, í rauninni ekki. Maður er ekkert formlega að gefa það út að ég sé hættur að spila en ég er samt ekkert að hugsa um það núna. Mín hugsun fer bara í þessa þjálfun hjá Val.“

Spurður hvort hann verði til taks að spila ef þess gerist þörf í sumar sagði Haukur Páll:

„Já, já, en ég býst ekki við því að það þurfi hjá okkur. Við erum með það stóran og góðan hóp. En ef við skyldum lenda í einhverjum svakalegum meiðslum þá gæti maður alveg tekið skóna fram, en ég býst alls ekki við því að þess þurfi.“

Hann er 36 ára gamall og hokinn af reynslu, á að baki 283 leiki í efstu deild með Val og uppeldisfélaginu Þrótti úr Reykjavík, þar sem Haukur Páll hóf ferilinn ungur að árum. Einnig lék hann 38 leiki með Þrótti í 1. deild og þá á hann tvo A-landsleiki að baki.

Ekkert svakaleg breyting

Hann er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi og hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari með liðinu og bikarmeistari í tvígang. Haukur Páll er ánægður í nýju hlutverki hjá Val.

„Nýtt hlutverk er að fara vel með mig. Ég er ótrúlega spenntur fyrir þessu og endalaust að læra. Ég hef ótrúlega gaman af þessu, þessa mánuði sem ég er búinn að vera. Ég er fullur tilhlökkunar að halda áfram og er að læra á hverjum degi,“ sagði hann.

Haukur Páll hefur spilað lengi með fjölda leikmanna Vals en þjálfar þá nú. Því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort það hefðu verið mikil viðbrigði fyrir hann að breyta svona um hlutverk.

„Já, kannski smá fyrst. Að vera ekki að fara beint inn í klefa eftir æfingar og þess háttar. En í sjálfu sér ekki. Fyrir mér er þetta ekkert svakaleg breyting.

Ég er að koma skilaboðum áleiðis og hjálpa til á æfingum, í samvinnu við Adda, við að láta liðið spila eins vel og það getur. Ég var svolítið þannig sem leikmaður líka þannig að það er ekkert svakaleg breyting eða munur finnst mér. Þetta er búið að vera flott,“ útskýrði Haukur Páll.

Hefur hugsað lengi um þetta

Hvernig er að vinna með Arnari Grétarssyni?

„Það er frábært, ég er endalaust að læra af honum. Hann hefur komið mér vel inn í þetta og fært mér ábyrgð. Það er ótrúlega gott,“ sagði hann.

Haukur Páll hefur lítið sem ekkert þjálfað í yngri flokkum og fær því alvöru eldskírn í sínu fyrsta þjálfarastarfi.

„Nei, í rauninni ekkert. Ég hef voða lítið verið í einhverri þjálfun þannig að maður er endalaust að læra á hverjum degi.“

Nokkuð er síðan hann fór að huga að því að fara út í þjálfun.

„Já, í rauninni. Þegar ég var að spila var alltaf einhver hugsun hjá mér að fara út í þjálfun þegar að því kæmi. Ég hef alltaf pælt í því hvort maður færi út á þessa braut og verða þjálfari.

Það hefur verið þannig í dágóðan tíma en ég var svo sem ekkert staðráðinn í því eftir síðasta tímabil að demba mér út í þetta strax.

Svo þegar þetta tækifæri gafst var ég ótrúlega þakklátur, stökk á það og sé ekki eftir því,“ sagði Haukur Páll að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson