Harpa Víkingur Heiðar Ólafsson og slagharpan.
Harpa Víkingur Heiðar Ólafsson og slagharpan. — Rúv.
Á miðvikudagskvöld hélt Víkingur Heiðar Ólafsson upp á fertugsafmæli sitt með því að flytja Goldberg-tilbrigði Bachs í Hörpu. Þetta voru án vafa stórkostlegustu tónleikar Íslandssögunnar og áheyrendur bergnumdir

Andrés Magnússon

Á miðvikudagskvöld hélt Víkingur Heiðar Ólafsson upp á fertugsafmæli sitt með því að flytja Goldberg-tilbrigði Bachs í Hörpu. Þetta voru án vafa stórkostlegustu tónleikar Íslandssögunnar og áheyrendur bergnumdir.

Víkingur Heiðar fór á kostum, en flutningur hans á þessu lykilverki hefur tekið miklum breytingum frá því hann hljóðritaði það. Allt dró það fram hvers vegna hann er í röð fremstu píanista heims; tæknin óaðfinnanleg, túlkunin næm og hin vitsmunalega nálgun einstök. Það er ekki gert á kostnað JSB, öðru nær, því þar varð öllum ljóst að Bach er maður allra alda.

Um þetta þarf lesandinn ekki að hafa mín orð, því alþjóð gat orðið vitni að undrinu í beinni og óaðfinnanlegri útsendingu Ríkisútvarpsins undir stjórn Salóme Þorkelsdóttur. Á undan fór prýðilegt viðtal Guðna Tómassonar við listamanninn um það sem í vændum var.

Útsendingin sýndi vel hvers Rúv. er megnugt, en kannski ekki síður hvað Rúv. á að vera að fást við (frekar en að segja fréttir í boði ríkisvaldsins). Þar var þjóðinni boðið að njóta merkasta listamanns sem Ísland hefur alið síðan Snorri Sturluson var og hét. Og ekki aðeins eina kvöldstund, því upptakan er komin á netið og verður þar aðgengileg um alla framtíð. Bravó!