Hugmyndir um að minnka hlut ríkisins á auglýsingamarkaði ganga of skammt

Í nýframkomnu frumvarpi um Ríkisútvarpið og rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram og fjallað var um á þessum stað í gær, eru lagðar til auknar takmarkanir ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaði. Takmarkanir hafa áður verið reyndar en með litlum árangri eins og best sést á þróun auglýsingatekna þessa ríkisfyrirtækis.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að um það verði „ekki deilt að umsvif ríkisins á innlendum fjölmiðlamarkaði gera sjálfstæðum fjölmiðlum erfitt fyrir og kippa rekstrargrundvelli undan sumum miðlum og veikja möguleika annarra“. Þá er á það bent að strandhögg erlendra samfélagsmiðla inn á íslenskan auglýsingamarkað geri stöðuna enn erfiðari.

Flutningsmenn nefna einnig að í rúmlega sex ára gamalli skýrslu til mennta- og menningarmálaráðherra – sem sýnir vel hve lengi þessi vandi einkarekinna fjölmiðla í samkeppni við Ríkisútvarpið hefur verið til umræðu – hafi verið bent á þátt samkeppni Ríkisútvarpsins við einkarekna miðla í þessu tilliti.

Frumvarpið nýja gerir ráð fyrir að „setja skorður við umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Lagt er til að fella á brott heimild stofnunarinnar til að víkja frá banni við kostun dagskrárefnis. Verður bann við kostun því fortakslaust og Ríkisútvarpinu jafnframt óheimilt að stunda markaðsstarfsemi.

Ríkisútvarpinu verður þó heimilt að birta auglýsingar á grundvelli gjaldskrár sem staðfest hefur verið af ráðherra og birt opinberlega. Óheimilt verður að veita nokkurs konar afslátt af gjaldskrá. Þá er hámarksauglýsingatími á hverri klukkustund lækkaður úr sjö mínútum í fimm mínútur.“

Slíkar breytingar yrðu líklega til bóta en þó er ekki víst að þær hefðu umtalsverð áhrif. Hömlur á markaðsstarfsemi ríkisfyrirtækisins gætu hjálpað, en hætt er við
að sú starfsemi flyttist að verulegu eða öllu leyti til annarra sem nú þegar selja auglýsingar inn á miðla Ríkisútvarpsins og myndu líklega auka fyrirferð sína á markaðnum við slíka breytingu. Þá er óvíst að tekjur ríkismiðilsins af auglýsingasölu myndu minnka ef mínútum fækkaði en verð hækkaði þegar afslættir hyrfu.

Loks má ekki gleyma því að erfitt er að sjá við öllu í þessu sambandi og ákafi og útsjónarsemi þeirra sem selja auglýsingar inn á ríkisfjölmiðilinn hafa í gegnum tíðina verið töluverð. Árið 2018, fyrir HM í Rússlandi, bauð Ríkisútvarpið til dæmis „Premium-auglýsingapakka“. Sá pakki átti samkvæmt kynningarefni að tryggja bestu staðsetningu í leikjum Íslands og sett voru lágmarksskilyrði um kaup upp á 10.000.000 kr. í júní og júlí þetta ár!

Í þessu tilfelli nýttu auglýsingasalar ríkisins HM til að draga auglýsendur til sín en buðu auglýsendum upp á að hægt væri að nota fjárhæðina í fleira en HM, enda tíu milljónir króna nokkuð há fjárhæð til að eyða aðeins í þann dagskrárlið þótt vinsæll sé.

Með þessu móti þurrkaði Ríkisútvarpið upp auglýsingamarkaðinn og olli einkamiðlunum miklu tjóni. Svipaðar aðferðir hafa verið notaðar við önnur tilefni og erfitt er að sjá fyrir allar þær hugmyndir sem auglýsingasalar ríkismiðilsins, hvort sem þeir starfa hjá honum eða annars staðar, geta látið sér detta í hug til að ná sem mestu auglýsingafé inn í þann miðil á meðan hann á annað borð býður upp á birtingu auglýsinga.

Ríkið ætti almennt að hafa sem minnst umsvif og helst engin á þeim mörkuðum þar sem einkaaðilar geta starfað eða starfa. Ríkisútvarpið er í augljósri samkeppni við einkamiðla og væri það jafnvel þó að engar væru auglýsingarnar, en með þátttöku á auglýsingamarkaði verður þessi samkeppni einkamiðlunum afar þungbær vegna margra milljarða króna forskots ríkisfyrirtækisins úr hendi skattgreiðenda – misviljugra að vísu.

Þingmenn ættu af þessum sökum að draga Ríkisútvarpið alfarið af auglýsingamarkaði, líkt og vel er þekkt erlendis, og eftirláta einkamiðlum þann tekjustofn.