[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á þriðja tug stéttarfélaga sem eru að meirihluta til með háskólamenntaða félagsmenn, sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna kjaraviðræðnanna, þar sem minnt er á hvernig ítrekaðar krónutöluhækkanir í síðustu kjarasamningum hafi leikið þennan hóp félagsmanna og krafist er úrbóta

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Á þriðja tug stéttarfélaga sem eru að meirihluta til með háskólamenntaða félagsmenn, sendu í gær frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna kjaraviðræðnanna, þar sem minnt er á hvernig ítrekaðar krónutöluhækkanir í síðustu kjarasamningum hafi leikið þennan hóp félagsmanna og krafist er úrbóta.

Tekið er fram að samstaða sé á meðal stéttarfélaga háskólamenntaðra.

Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, sem er eitt þeirra félaga sem standa að yfirlýsingunni, segir hana undirstrika mikilvægi þess að aukin menntun og þekking borgi sig fyrir launafólk.

Hafa setið eftir

Krefjast félögin sem eru alls 23 talsins „leiðréttingar á launum háskólamenntaðra og að þeim verði tryggð kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna í komandi kjaraviðræðum. Háskólamenntaðir hafa setið eftir í kjarasamningum síðustu ára vegna ítrekaðra krónutöluhækkana með tilheyrandi samþjöppun launa á vinnumarkaði. Samþjöppun tekna á Íslandi er ein sú mesta í Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.

Að henni standa m.a. aðildarfélög innan BHM og stór stéttarfélög sem eru utan heildarsamtaka á borð við Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja, Læknafélag Íslands og Verkfræðingafélag Íslands.

Tekið er fram í yfirlýsingunni að ljóst sé að það stefni í mikinn skort á sérhæfðu starfsfólki til að mæta þörfum atvinnulífsins. „Hlutfall ungs fólks á Íslandi sem hefur lokið háskólanámi er langt undir meðaltali OECD-ríkja,“ segir í yfirlýsingu stéttarfélaganna.

Við þessu verði að bregðast. „Sé ekki gripið til aðgerða mun ávinningur af háskólamenntun minnka enn frekar. Þá er líklegt að háskólamenntaðir sæki meira í störf í löndum þar sem eftirspurn er eftir færni þeirra og lífskjör háskólamenntaðra eru betri en á Íslandi,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Samninganefndir Fagfélaganna

Gefa tíu daga frest til að ná kjarasamningum við SA

Samninganefndir Fagfélaganna (MATVÍS, VM og RSÍ) hafa gefið fulltrúum sínum við samningaborðið tíu daga frest til að ná saman við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning á almennum markaði. Hafi aðilar ekki komist að samkomulagi að tíu dögum liðnum munu samninganefndirnar hefja undirbúning aðgerða. Þetta var niðurstaða hitafundar samninganefnda félaganna þriggja í gær, að því er greint er frá á vefsíðum félaganna.

Bent er á að ljóst sé af umræðum á fundinum „að þolinmæði fyrir árangurslitlum samtölum við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara er á þrotum. Bent var á að mánuðir væru liðnir frá því samtalið hófst.“ Hafa samninganefndirnar verið boðaðar til annars fundar 23. febrúar og verði ekki útlit fyrir að samningar takist þá helgi hyggjast samninganefndir félaganna leggja á ráðin um undirbúning aðgerða til að knýja á um gerð samninga.