Sigurður Ólafsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 30. ágúst 1952. Hann lést 5. febrúar 2024.

Foreldrar Sigurðar voru Guðrún Sigríður Valdimarsdóttir, f. 20.5. 1913, d. 21.1. 2001, og Ólafur Friðbertsson, f. 24.8. 1910, d. 24.5. 1972.

Systkini Sigurðar eru Valdimar, f. 1939, Einar, f. 1942, d. 2010, Bragi, f. 1943, Ólafur, f. 1944, Ellert, f. 1944, og Kristín Valgerður, f. 1948.

Sigurður kvæntist 7.11. 1982 Deborah Anne Ólafsson, f. 25.8. 1955. Börn þeirra eru: 1) Kristófer, f. 1983, giftur Dagnýju Björk Gísladóttur, f. 1985. Þau eiga börnin Viktoríu Rut, f. 2014, Katrínu Lilju, f. 2016, og Mikael Vagn, f. 2019. 2) Anna, f. 1985, gift Ólafi Karli Sigurðarsyni. Þau
eiga börnin Ísak Breka, f. 2008, Sigurð Viktor, f. 2017, og Júlíu Köru, f. 2019. 3) Samúel, f. 1988, giftur Guðrúnu Mist Gunnarsdóttur, f. 1988. Þau eiga börnin Tristan Storm, f. 2018, Snædísi Perlu, f. 2021, og ónefndan dreng, f. 2024. 4) Jóhann, f. 1993, giftur Guðlaugu Guðjónsdóttur, f. 1994. 5) Guðrún Lilly, f. 2003.

Sigurður lauk landsprófi frá Núpi árið 1968 og verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1973. Eftir það vann hann í nokkur ár hjá Eimskipafélagi Íslands áður en hann fór í Stýrimannaskólann, sem hann lauk vorið 1981. Fluttist að því loknu aftur til Suðureyrar þar sem hann starfaði við sjómennsku til ársins 1994, síðast skipstjóri á Sigurvon. Eftir það hófu hjónin eigin rekstur á fyrirtækinu Kistufiski við harðfiskvinnslu, fiskvinnslu og útflutning á saltfiski. Þegar því ævintýri lauk hóf hann störf hjá Klofningi, þar sem hann endaði starfsævina.

Útför Sigurðar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 15.

Elsku pabbi, ég hef hugsað reglulega um það síðustu ár hvað ég ætli að skrifa í minningargrein um þig, enda vitað það of lengi að þú myndir líklega ekki verða gamall. Það fyrsta sem kemur í hugann er þakklæti. Ég man þegar ég hugsaði rúmlega tvítug, áður en þú veiktist, hvernig ég gæti verið svona heppin með foreldra. Þú varst forfallinn íþróttaáhugamaður og minn helsti stuðningsaðili. Við fórum oft saman á völlinn þar sem við tókum spretti og fórum yfir tæknina í langstökki, enda varstu metnaðarfullur fyrir mína hönd og búinn að setja keppnisárangur upp í gröf þegar ég var varla orðin unglingur. Þegar ég byrjaði að æfa fótbolta í menntaskóla fylgdirðu mér þétt eftir, hjálpaðir mér að finna lið fyrir sunnan og ef þú komst ekki á leik fylgdistu með honum á textavarpinu eða í beinni textalýsingu. Það brást ekki að ég fékk símtal eftir leik þar sem spilamennskan var krufin, okkur báðum til ánægju. Þessu hélstu áfram eftir að þú veiktist, þú gast ekki lengur talað en ég vissi nákvæmlega hvað þú vildir segja og svaraði eftir því.

Þú fangaðir æskuárin okkar með myndbandsupptökuvélinni og eru þær minningar ómetanlegar. Við systkinin vorum oft notuð til að prófa nýjar brellur í myndbandsvinnslu og fannst mér ótrúlegt hvað pabbi væri klár að láta líta út fyrir að eitt okkar væri horfið eða að við værum að klífa vegg í 90 gráðu halla. Ferillinn í handritagerð og kvikmyndatöku náði hámarki þegar Vaxandi tungl var sýnd í Bæjarbíói og Ríkissjónvarpinu árið eftir að þú veiktist og fyllti það mig stolti.

Afmælum annarra í fjölskyldunni gastu fagnað, en frá því að ég man eftir mér sagðistu ekki vilja umstang eða gjafir á þínu afmæli, en svo bættirðu við glottandi að okkur væri samt velkomið að gefa þér ferð á Liverpool-leik. Ferðina fékkstu loksins uppfyllta árið 2015 eftir áratuga bið og varð ekkert okkar fyrir vonbrigðum með hana.

Þú varst með eindæmum hnyttinn og við systkinin þurftum snemma að skilja kaldhæðni, ég man sérstaklega eftir því að hafa þurft að útskýra fyrir vinkonum mínum, meðan ég ranghvolfdi augunum, að þú værir sko að grínast.

Eftir að ég flutti suður heyrðumst við nokkrum sinnum í viku. Ef vandi kom upp varst þú sá sem ég hringdi í. Þú íhugaðir allt vandlega og komst svo með nokkra möguleika til að velja úr, helst sett upp í excel-skjal. Þú máttir ekkert aumt sjá og varst einstakur dýravinur og –áhugamaður. Sérstaklega man ég eftir því þegar þú tókst upp David Attenborough yfir Friends-þættina mína, mér til mikillar gremju. Það var svo ekki tekið í mál að fá gæludýr í búri þar sem þú gast ekki hugsað þér að horfa upp á greyin lokuð inni.

Ég er ævinlega þakklát að þú hafir náð að kynnast Óla og börnunum mínum, þú áttir einstakt samband við þau öll og gast fíflast og hlegið með þeim.

Það eina sem gerir sorgina við að missa þig bærilegri er að ylja mér við allar minningarnar, hlæja við að rifja upp fyndnu sögurnar og trúa því að þú sért laus við allar þjáningar.

Þangað til við hittumst aftur elsku besti pabbi minn.

Þín

Anna.

Elsku pabbi.

Ég mun minnast þín með ástúð og er þakklátur allar stundirnar sem við áttum. Þú hefur sýnt ótrúlegan styrk og haldið húmor og jákvæðni þrátt fyrir gífurlega erfið veikindi. Þú ert mér fyrirmynd.

Þú lést ekki veikindin aftra þér frá því að gera það sem þú vildir. Anfield-ferðin 2015 með okkur Guðrúnu Mist, Önnu og Óla stendur uppúr. Flottur 3-2 sigur á móti Aston Villa með sæti á besta stað. Frábært dæmi um beinskeyttan persónuleika þinn var í búðarferð í Liverpool. Þú fannst leðurjakka sem þér leist vel á og í staðinn fyrir taka hann með á hótelið, gerðir þú þér lítið fyrir og hentir gömlu úlpunni þinni bara beint í ruslið í miðri búðinni. Fórst síðan á kassann í jakkanum og keyptir hann. Hafðir greinilega ekki hugsað þér að ganga eitt einasta skref til viðbótar í gömlu úlpunni. Á enn erfitt með að hugsa um þetta stund án þess að skella upp úr.

Vikurnar á LSH í janúar 2010 voru virkilega erfiðar, en að sjá framfarir þínar í skákinni með hverjum deginum blés mér von í brjóst. Fyrstu vikuna gastu bara leikið 1-2 leiki vegna þreytu. Þér fór stöðugt fram og ekki leið á löngu þar til þú varst byrjaður að vinna stöku skákir og á öðru ári voru við orðnir jafnvígir. Skákin var okkur sterkt samskiptatæki, en það þurfti þó stórt heilablóðfall til að gera okkur jafnvíga á taflborðinu.

Skákin og ástin á Liverpool er þó ekki það eina sem þú hefur kennt mér. Heiðarleiki, jafnræði og dugnaður tengi ég sterklega við ykkur mömmu og uppeldi ykkar hefur gefið okkur systkinum gott veganesti fyrir lífið.

Við áttum góðar stundir á gólfvellinum, ein minnisstæð var á Meðaldalsvelli í Dýrafirði. Ég var orðinn eitthvað þreyttur og pirraður yfir genginu og var annars hugar þegar ég gekk upp brekkuna og náði að flækja gólfkylfuna á milli fótanna og datt kylliflatur. Þetta fannst þér að réttu mjög fyndið og við hlógum og hlógum að klaufaskapnum í mér. Man ekki hvernig gekk á mótinu en skapið varð allavega mun betra eftir þetta. Mér þykir líka vænt um veturinn sem við spiluðum vikulega bridds á Ísafirði. Ég kunni varla reglurnar og þig vantaði makker. Þá tók við ströng þjálfun til að gera strákinn tilbúinn. Eitthvað átti ég í erfiðleikum með að læra sagnakerfið en við náðum samt að spila við ágætis árangur. Minnisstæðasta mómentið var þegar ég dúbblaði 6 spaða verandi bara með einn ás og hunda á hendi. Þú náðir að skrapa inn einn slag og fella sögnina. Þetta gerði það að verkum að við unnum það borð og fólk hafði orð hvað „strákurinn“ væri nú naskur spilari. Ég lét það þó ósagt að ég hafði tekið sénsinn að pabbi hlyti nú að geta náð einum slag, og hafði rétt fyrir mér.

Við erum þakklát fyrir að hafa getað eytt síðustu jólunum með þér á Íslandi. Horft á Liverpool-leik og teflt nokkrar góðar skákir. Þú varst hinn hressasti og hélst jákvæðninni. Ég er þakklátur fyrir allt sem þú hefur kennt mér í gegnum ævina, og góðu stundirnar. Megi guð geyma þig.

Þinn sonur og tengdadóttir,

Samúel Sigurðsson,
Guðrún Mist
Gunnarsdóttir og börn.

Nú hefur þú fengið hvíldina elsku Siggi minn, eftir erfið veikindi.

Þrautseigja, ósérhlífni, umhyggja og húmor eru allt orð sem koma í hugann þegar ég hugsa til þín. Okkar samband var einstakt fyrir margar sakir og það fylgir mér söknuður að hafa kynnst þér eftir að þú hafðir misst málið. Það er svo margt sem við áttum sameiginlegt, t.d. íþróttir, fótbolti, sjávarútvegur og rekstur, allt atriði sem við ræddum í máli og myndum síðastliðinn áratug rúmlega. Ég hefði svo gjarnan viljað geta heyrt meira af þínum sjónarmiðum og skoðunum. En þrátt fyrir hömlur þá létum við það ekki stöðva okkar kynni og vinskap, fyrir það er ég afar þakklátur.

Það var einhver einlæg dýpt í sambandi okkar og þeirri staðreynd að við þurftum að finna leið til þess að kynnast án þess að geta skipst á orðum með hefðbundnum hætti. Ég er og verð áfram stoltur tengdasonur þinn sem og Vestfjarða.

Börnin þín og kona eru bestu merki þess hve vandaður maður þú varst. Aldrei mátti hafa fyrir þér og aldrei heyrði ég þig kvarta, sama hvað bjátaði á enda útskrifaður úr Gamla skólanum – eins og ég sagði oft við þig.

Hvar sem nafn þitt hefur borið á góma í gegnum tíðina hafa menn haft á orði hve einstaklega vel gefinn og klár Siggi var. Það var mér ansi ljóst að hugurinn var enn skýr þegar þú mátaðir mig hvað eftir annað í skák og hlóst eftir á. Ferð okkar til Liverpool hér um árið verður mér alltaf kær, þar sem þú naust þess að fara á Anfield og á Bítlasafnið. Það er minning sem er og verður mér ævinlega kær, veganesti sem ég mun ávallt varðveita.

Orðin eru aum á stundu sem þessari. En eins og þínir uppáhaldstónlistarmenn sungu: eftir langan, erfiðan og einmanalegan veturinn kemur sólin upp og allt verður í lagi að lokum. Líkt og ég hef lofað þér, þá mun ég varðveita minningu þína og allt þitt fólk elsku Siggi minn.

Þinn tengdasonur og vinur,

Ólafur (Óli).

Siggi bróðir er dáinn og hann lætur eftir sig hlýjar minningar.

Hann var maður ævintýranna, tók verslunarpróf, fór að vinna hjá Eimskip en fannst launin lág og tók þá skipstjórapróf og var skipstjóri í nokkur ár.

Hans dýrmætasta ævintýri var að finna hana Debbie sem var frá Nýja-Sjálandi og vann við fiskverkun í Fiskiðjunni.

Þau rugluðu saman reytum og fluttu um tíma til Nýja-Sjálands en settust síðan að í Súgandafirði. Debbie er hörkudugleg og kenndi börnum þeirra vinnusemi og ensku sem kom þeim vel á lífsleiðinni. Það var aðdáunarvert hve góða ensku Samúel sonur þeirra talaði þegar hann varði doktorsverkefni sitt í læknisfræði við Háskóla Íslands.

Siggi fékk heilablóðfall árið 2010 og lamaðist að mestu hægra megin og missti málið. Þetta áfall gjörbreytti lífi hans og allrar fjölskyldunnar.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur og dvaldist Siggi eftir þetta að mestu í Hátúni og seinna í Skógabæ. Mállaus og lamaður lét hann ekki bugast og kunni vel að meta gleðistundir með fjölskyldu og vinum.

Ungur að aldri var hann ekki mikill bókamaður og vitnaði sjaldan í Njál og Gunnar á Hlíðarenda. Þess vegna kom mér skemmtilega á óvart þegar hann byrjaði að skrifa handrit og búa til kvikmyndir og viðtalsþætti um eftirminnilega menn í þorpinu.

Hann var laginn við að fá til samstarfs heimamenn sem voru alltaf reiðubúnir að leika ýmis hlutverk í myndunum, sem voru flestar harðsoðnar spennumyndir í vestfirskri náttúru.

Þekktasta kvikmyndin var glæpamyndin Kviksyndi sem var sýnd í bíóhúsunum á Suðureyri og í nálægum þorpum.

Til að auka gæði myndanna samdi Sveinbjörn Jónsson á Suðureyri tónlist við þær.

Toppnum á kvikmyndaferlinum náði Siggi þegar hann var aðalhandritshöfundur að myndinni Vaxandi tungl í samstarfi við Lýð Árnason lækni og kvikmyndafrömuð.

Vandað var til myndarinnar og fengnir landsþekktir leikarar eins og Pálmi Gestsson og Elva Ósk Ólafsdóttir í aðalhlutverkin en mörg minni hlutverk voru í höndum ungmenna frá Ísafirði sem stóðu sig með mikilli prýði.

Myndin var byggð á sannsögulegum atburðum og súgfirskir athafnamenn styrktu gerð myndarinnar af mikilli rausn. Myndin var sýnd í Bæjarbíói í Hafnarfirði, á Ísafirði og víðar og varð jólamynd Sjónvarpsins árið 2011.

Siggi var sterkur skákmaður og keppti oft í skák og bridge.

Mikil þekking í skákbyrjunum var hans sterka vopn og oft var hann kominn með unna stöðu eftir 10 leiki.

Fyrst eftir áfallið ruglaðist hann á gangi mannanna en það lagaðist fljótt en byrjanaþekkingin var horfin.

Hann hafði samt gaman af að tefla og leysa stór og flókin púsluspil.

Lífsförunauturinn Debbie var óþreytandi við að hjálpa honum í hans erfiðu veikindum og hann var alltaf til í að fara í bíltúr og kaffi þegar við Kristín Einarsdóttir komum í heimsókn.

Það var áhrifamikil stund á Landspítalanum þegar við systkinin og makar kvöddum Sigga í hinsta sinn daginn áður en hann kvaddi þennan heim.

Ég kveð Sigga með þakklæti og söknuði og votta Debbie og börnunum mína dýpstu samúð.

Ellert Ólafsson.

Þegar komið er að kveðjustund koma ýmsar minningar upp í hugann. Það var tilhlökkunarefni fyrir fjögurra ára stúlku að eignast yngri bróður. Siggi sofandi úti í vagni og hundurinn okkar hann Tryggur sitjandi hjá honum og sá til þess að heyrðist til hans þegar hann vaknaði. Við Siggi sitjandi tvö eftir við matarborðið að hlusta á sögubrot hjá mömmu af „neðanmálssögunni í Hjemmet“ meðan hann var mataður. Siggi að skoða uppáhaldsbókina sína sem var dýrabók. Siggi, kappklæddur út í vetrarveðrið þrátt fyrir mótmæli, en þegar dyrnar lokuðust að baki honum klæddi hann sig úr útifötunum á ganginum við útidyrnar.

Vinkona mín eignaðist systur mánuði eftir að Siggi fæddist svo þau voru mjög nálæg í aldri. Oft bárum við saman bækur okkar varðandi hæfileika systkina okkar. Oftar en ekki hafði systirin vinninginn og Siggi virtist vera eftirbátur hennar í einu og öllu. Hafði ég af því töluverðar áhyggjur. Hann var seinn til tals og talaði lengi óskýrt. Eitt sinn var hann sendur í Pallabúð til að kaupa tvíbökur. Ekki vildi betur til en að búðarkonan (Inga Jónasar) skildi hann illa og hringdi því til mömmu og spurði hvort það væri rétt skilið hjá sér að drengurinn væri að biðja um „píkutau“.

Þegar Siggi var í Verslunarskólanum bjó hann hjá okkur. Þar tók hann mikinn þátt í félagslífi skólans, bæði í spilamennsku og tafli og einnig tók hann þátt með skrifum hjá leikfélagi skólans. Þegar hann var heima lá hann oftast á maganum ofan á rúminu og las í bók sem lá á gólfinu. Svona var hann líka þegar hann tefldi við sjálfan sig blindskák. Þar kom seiglan í ljós og þannig gat hann gleymt sér tímunum saman og gaf umhverfinu lítinn gaum.

Eftir að hafa lokið sérhæfðu verslunarskólaprófi vann Siggi á skrifstofu Eimskips í þrjú ár en fór þá í Sjómannaskólann og fór að starfa á Suðureyri. Hann datt í lukkupottinn þegar hann kynntist Debbie, eiginkonu sinni til 40 ára. Þau eignuðust fimm börn sem öll hafa lokið háskólagráðum nema sú yngsta sem er við háskólanám á Nýja-Sjálandi, heimalandi Debbie.

Eftir alvarlegt heilablóðfall þegar Siggi var tæplega sextugur flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Þá kom í ljós hversu vinmargur Siggi var. Þar kom stór hópur fólks saman sem allt vildi leggja sitt af mörkum til að aðstoða Sigga og Debbie. Þetta fyrirkomulag gekk í nokkur ár og gerði Debbie kleift að annast hann heima. Þetta varð þó alltaf erfiðara með árunum og að lokum fór Siggi inn á hjúkrunarheimili, en Debbie var alltaf vakin og sofin yfir honum allt til enda.

Það var ekki leiðinlegt að heimsækja Sigga, hann gladdist alltaf og var ágætlega fær um að taka þátt í samræðum. Það gerði hann með látbragði og svipbrigðum sem gáfu til kynna hvað honum fannst. Ef okkur rak í vörðurnar sótti hann samskiptabókina og benti á setningar sem hann vildi segja. Orðið aðdáunarvert er orðið sem lýsir því hvernig Siggi tók fötluninni. Ekki bar á þunglyndi hjá honum og þrátt fyrir allar hindranirnar virtist hann alltaf vera í góðu skapi og sjálfum sér nógur. Við fjölskylda mín þökkum bróður mínum samfylgdina og kveðjum góðan dreng.

Kristín Valgerður
Ólafsdóttir.

Hann Siggi vinur minn er allur. Hann dó eftir langa baráttu við afleiðingar heilsubrests, sem átti sér stað fyrir löngu og hann hefur tekist á við af miklu æðruleysi. Um leið og ég votta eiginkonu hans, fjölskyldu og ættingjum samúð mína langar mig að rifja lítillega upp vinskap okkar.

Það getur farið mikill tími í skákiðkun ef ástríðan er fyrir hendi. Sigurður er líklega sá maður sem ég hef teflt flestar skákir við í lífinu og þó ég hafi stundum haft af honum vinninga var hitt miklu algengara að hann færi með sigur. Alveg frá unglingsárum tók Siggi áhugamálin föstum tökum. Hann las skákbækur og fylgdist með stórmótum í svokölluðum Informatorum sem gefnir voru út með keppnisskákum stórmeistaranna. Seinna þegar ég kenndi skák í grunnskólanum kom hann stundum og tefldi fjöltefli við krakkana.

Við Siggi spiluðum líka bridge saman í mörg ár og vildi hann þá hafa gott sagnkerfi og rökfasta spilamennsku enda er samvinnan það helsta sem aðgreinir bridge-spilið frá skákinni. Eins og sjá má af þessari lýsingu var Siggi rökfastur og jarðbundinn í leikjum og líklega á það einnig við um afstöðu hans til annarra verkefna lífsins.

Upp úr 1970 fékk Siggi mikinn áhuga á kvikmyndum. Þegar ég kom heim til Suðureyrar úr utanlandsferð 1974 var Siggi búinn að fjárfesta í kvikmyndatökuvél og byrjaður að skrifa handritið að Kviksyndi. Það kom í minn hlut að leika eitt fórnarlambanna í þeirri mynd en Siggi sjálfur og Beggi heitinn vinur hans höfðu þó áður verið lagðir að velli með miklum tilþrifum. Snorri Sturluson fór á kostum í aðalhlutverkinu. Siggi sá alfarið um myndatöku, leikstjórn og klippingu. Myndin var þögul en ég útvegaði tónlist og fékk Vigni frænda og aðra meðlimi í Júdasi frá Keflavík til að spila inn á segulband sem hægt var að spila með myndinni. Myndin var sýnd við ágætar undirtektir á Suðureyri og í nálægum bæjum.

Næstu árin gerði Siggi margar myndir bæði stórar og smáar og af ýmsum gerðum og eru mér sumar þeirra enn minnisstæðar. Fjölmargir komu að þessum verkefnum Sigga og höfðu allir gaman af en jafnframt er þar að finna heimildir um fólk sem fyrir löngu er fallið frá og aðra sem yngri voru.

Þó svo að kvikmyndir og bridge hafi verið stór kafli í vinskap okkar þá skorti mig metnað til að fylgja honum eftir auk þess sem önnur hlutverk og búseta settu stundum strik í reikninginn.

Eftir að hann flutti suður af heilsufarsástæðum náði ég að tefla eitthvað við hann og spila í nokkur ár en það minnkaði þó verulega vegna farsótta og annars heilsufars. Samt áttum við Elín margar góðar stundir með honum bæði heima og á Skógarbæ og þökkum fyrir þær.

Eftirfarandi samdi ég með okkur báða í huga fyrir fáum árum og vil gera að lokaorðum hér.

Þeir sakna þín sextíu og fjórir

svo lengi á meðan þú tórir,

hvítir og svartir, brúnir og bjartir

bíð' okkar dagdraumar stórir.

Takk fyrir mig. Blessuð sé minning Sigga.

Sveinbjörn Jónsson.

Í ársbyrjun 1975 kom ég til Súgandafjarðar. Allt var á kafi í snjó, ég hafði fengið pláss á togaranum Trausta ÍS. Ég fékk húsnæði í verbúð. Kynntist ég fljótt mörgum í plássinu. Frétti af Sigurði Ólafssyni, sem var af alkunnri útgerðarætt, en var um þessar mundir að vinna í Reykjavík. Sumarið 1975 kynntist ég Sigga gegnum sameiginlega vini, einkum Bergþór Guðmundsson og Kristin Gestsson. Siggi skar sig talsvert úr í vinahópnum og lagði stund á skák og ýmsa andlega iðju. Við vorum kannski svolítið líkir, ekki alltaf galsafengnir, og jafnvel alvarlegir á köflum. Tókst góður vinskapur með okkur sem hélst alla tíð. Siggi átti ágæt ár sem stýrimaður og skipstjóri og verkstjóri á Súgandafirði. Hann varð fyrir miklu áfalli fyrir mörgum árum og missti heilsuna í framhaldi af því.

Það varð mikið gæfuspor hjá Sigga þegar hann giftist Debbie og áttu þau saman fimm mannvænleg börn. Til gamans má geta þess að við vorum nánast jafn gamlir, ég fæddur 26. ágúst og hann 30. ágúst 1952.

Ég vil þakka Sigga samfylgdina öll árin sem við áttum saman. Innilegar samúðarkveðjur til Debbie og barna þeirra. Guð blessi minningu góðs drengs.

Þorsteinn Hörgdal.