Pálmi V. Jónsson
Pálmi V. Jónsson
Þegar nýi meðferðarkjarninn við Hringbraut verður opnaður, líklega 2030, mætti ná eðlilegri nýtingu rúma á höfuðborgarsvæðinu að því gefnu að eldra legurými verði endurnýjað eins og þarf og haldið opnu.

Pálmi V. Jónsson

Undir lok síðustu aldar sameinuðust St. Jósefsspítali og Borgarspítali í Sjúkrahús Reykjavíkur. Árið 2000 runnu síðan Sjúkrahús Reykjavíkur og Ríkisspítalar saman í Landspítala. Hugmyndafræðilega var meginmarkmið að stofna og reka eitt öflugt háskólasjúkrahús en að líkindum var einnig vonast eftir fjárhagslegum sparnaði. Árið 2011 var St. Jósefsspítala í Hafnarfirði lokað í sparnaðarskyni. Frá þeim tíma hefur aðeins eitt sjúkrahús verið á höfuðborgarsvæði og rúmafjöldi umtalsvert minni en áður var. Landspítali hefur margþætt hlutverk, þar sem auk þess að mennta fólk á heilbrigðissviði og stuðla að vísindavinnu hefur hann ríkulegt þjónustuhlutverk. Landspítali er almenna sjúkrahúsið fyrir höfuðborgarsvæðið en einnig sérhæft sjúkrahús, ekki aðeins fyrir
höfuðborgarsvæðið, heldur landið allt. Það er ekki heiglum hent
að sætta öll þau sjónarmið sem uppi verða í svo fjölþættri starfsemi.

Frá því að samrunaferlið hófst hefur þjóðinni fjölgað um 100 þúsund og eru Íslendingar nú tæplega 390 þúsund. Innflytjendur eru liðlega 71 þúsund, fólk sem sækir atvinnu hingað, alþjóðlega vernd eða kemur af fjölskylduástæðum. Þá hefur ferðamönnum fjölgað stórlega og eru nú um 200 þúsund ferðamenn á landinu að meðaltali á dag, fleiri á sumrin, færri að vetri. Lætur því nærri að um 590 þúsund manns séu á landinu á hverjum degi. Fólk lifir nú lengur og er með fjölbreyttari þarfir. Þá vaxa meðferðarmöguleikar við sjúkdómum sem oft og tíðum er flókin meðferð og mannaflafrek.

Þeir sem lögðu áætlanir um eitt öflugt háskólasjúkrahús sáu ekki fyrir aukningu innflytjenda eða ferðamanna og lítill áhugi var á að skoða áhrif af fjölgun eldra fólks þrátt fyrir stækkandi aldursárganga og stöðuga lengingu á ævilíkum hvers og eins, hvað þá að því væri sýndur skilningur að eldra fólk er heilsufarslega ólíkt miðaldra fólki. Sá hundrað manna hópur eldri einstaklinga, sem er á hverjum tíma á Landspítala og talinn hafa lokið greiningarvinnu, meðferð og endurhæfingu, er í raun að hluta til birtingarmynd þeirra fjölmörgu ónýttu tækifæra í þjónustu á samfélagsstigi sem þessir einstaklingar fóru á mis við vegna takmarkaðrar þjónustu og skipulagsleysis á samfélagsstigi. Það þarf að endurhanna og skapa rými fyrir greiningu, meðferð og eftirfylgd allra langvinnra sjúkdóma í heilsugæslu, sérfræðiþjónustu og á göngudeildum Landspítala. Vandi Landspítala er þó stærri í sniðum en það sem að eldra fólki lýtur og tengist öllu því sem að ofan er talið auk annarra þátta. Fréttir af rúmanýtingu yfir 100%, þegar 85% er æskileg, lýsir vanda og álagi Landspítala í hnotskurn.

Að öllu samanlögðu eru of fá legurými á Landspítala. Þegar nýi meðferðarkjarninn við Hringbraut verður opnaður, líklega 2030, mætti ná eðlilegri nýtingu rúma á höfuðborgarsvæðinu að því gefnu að eldra legurými verði endurnýjað eins og þarf og haldið opnu. Það ætti einnig að flýta byggingu hins nýja dag- og göngudeildarhúss við Hringbraut, sem er ein af mörgum leiðum til að koma í veg fyrir eða stytta innlagnir á legudeildir. Það hefur engin opinber umræða farið fram um það hvað verður um sjúkrahúsið í Fossvogi og á Landakoti þegar endurnýjaður Landspítali við Hringbraut verður tilbúinn.

Það er tímabært að taka þá umræðu. Þó að ekkert sé sagt, eins og það taki því ekki að ræða málið, þá liggur einhvern veginn í loftinu að þar gæti verið öldrunarspítali. Og þó að það sé ekki sagt opið, þá er eins og í því felist að það þurfi ekki að vanda sig. Það sé ekkert sérstakt við það að annast eldra fólk. Það gerist bara af sjálfu sér þegar eldra húsnæði fellur til. Þarna þurfum við að passa okkur. Nú er fyrst komið alvörutækifæri til að endurhanna alla þætti heilbrigðisþjónustunnar á samfélagsstigi, þar með talið, og ekki síst, þjónustu við eldra langveikt fólk sem glímir við aldurstengdar breytingar í öllum líffærum, marga sjúkdóma samtímis, fjöllyfjameðferð og færnitap. En við skulum ekki tala um öldrunarspítala. Tölum frekar um aldursvænt sjúkrahús. Þá er sjúkrahúsið hannað með allar hinar sérstöku þarfir eldra fólks í huga. Og það sem er gott fyrir eldra og veikasta fólkið er einnig gott fyrir fólk á miðjum aldri með langvinn og þung veikindi. Fyrirmyndir má sækja til annarra landa.

Þá vaknar einnig önnur spurning. Er ekki tími tveggja sjúkrahúsa í Reykjavík runninn upp á ný? Eitthvað vannst með samruna sjúkrahúsanna í Reykjavík en raunveruleikinn hefur orðið annar en sá sem vænst var, af þeim ástæðum sem nefndar eru að ofan, og því til viðbótar setti fjármálahrunið 2008 þróun sjúkrahússins í uppnám. Óháð þessu þá er auðvelt að sjá hve torvelt er fyrir eitt og sama stjórnendateymið að hanna skilvirkt sjúkrahús sem samtímis þarf að sinna fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu auk þess að annast víðtæka menntun á heilbrigðissviði og vera vísindastofnun á alþjóðlegum mælikvarða.

Höfum tvö aðskilin sjúkrahús í Reykjavík; almenna sjúkrahúsið í Fossvogi og Landakoti fyrir 18 ára og eldri og sérhæfða sjúkrahúsið við Hringbraut. Bæði yrðu fullbúin fyrir sitt hlutverk, bæði aldursvæn og bæði með háskólahlutverk. Annað héti Almenna sjúkrahúsið í Reykjavík og væri fyrsta stigs sjúkrahús, hitt héti Landspítali og væri annars og þriðja stigs sjúkrahús. Verkaskipting yrði skilgreind ítarlega og samvinna væri góð og gæti falið í sér samráðningu fagfólks í völdum tilvikum. Það yrðu tvær bráðamóttökur, hin almenna og hin sérhæfða, einnig með klára verkaskiptingu. Almenna sjúkrahúsið annaðist fólk á tímabili afturbata og endurhæfingar fyrir bæði sjúkrahúsin. Sérhæfð verkefni sem greind væru á almenna sjúkrahúsinu færðust á hið sérhæfða.

Almenna sjúkrahúsið væri í nánum og góðum samskiptum við heilsugæslu svæðisins. Þar gæfist tækifæri til að þjóna fólki ekki aðeins með því að taka við því bráðveiku heldur einnig þegar séð væri að stefndi í óefni. Leggja mætti fólk inn hálfbrátt eða valkvæmt. Á sama tíma væri búið að setja á laggirnar sólarhringsþjónustu Heilsugæslunnar heima og Bráðasjúkrahúsið heima. Og nýting legudeilda sjúkrahúsanna væri 85%. Allt þetta myndi þýða að miklar líkur væru á að kyrrð, friður og hóflegt álag væri á sjúkrahúsunum með fumlausri og öruggri þjónustu fyrir veikt fólk á svæðinu.

Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands.

Höf.: Pálmi V. Jónsson