40 ára Sigrún fæddist í Reykjavík en ólst upp til 12 ára aldurs á Patreksfirði. Þá flutti hún til Hafnarfjarðar þar sem hún bjó þar til hún flutti til Bandaríkjanna 20 ára þar sem hún bjó í fjögur ár á meðan hún kláraði BS-nám í sálfræði við The…

40 ára Sigrún fæddist í Reykjavík en ólst upp til 12 ára aldurs á Patreksfirði. Þá flutti hún til Hafnarfjarðar þar sem hún bjó þar til hún flutti til Bandaríkjanna 20 ára þar sem hún bjó í fjögur ár á meðan hún kláraði BS-nám í sálfræði við The University of Georgia og keppti í spjótkasti fyrir hönd skólans. Þegar námi lauk flutti Sigrún aftur í Hafnarfjörð þar sem hún býr í dag.

Sigrún var mikil afrekskona í íþróttum. Hún hefur keppt fyrir hönd Íslands á Heimsmeistaramóti og Evrópumeistaramóti unglinga, hefur verið í verðlaunasæti á Norðurlandamóti og var Smáþjóðaleikameistari í spjótkasti árið 2003. Sigrún hefur sett 42 Íslandsmet (fjögur standa enn) í frjálsum íþróttum. Þó að Sigrún sé löngu hætt að stunda keppnisíþróttir leikur hreyfing stórt hlutverk í lífi hennar.

„Ég legg mikið upp úr því að stunda hreyfingu daglega og eru það lyftingar, hlaup, hjól, fjallgöngur og/eða almenn útivist sem verða fyrir valinu. Ég er auk þess dugleg að hvetja aðra á samfélagsmiðlum til þess að stunda heilbrigðan lífsstíl og held úti instagramsíðunni andlegoglikamlegheilsa. Það er gaman frá því að segja að um helgina er ég búin að bjóða vinum mínum í afmælishreyfipartí sem er í mínum anda, en ég ætla að fara 40 ferðir upp Himnastigann (360 metra tröppustígur með 207 tröppum) og hvet vini og vandamenn til þess að taka þátt í því með mér.“

Auk BS-gráðunnar í sálfræði er Sigrún með MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf frá HÍ. Einnig er hún lærður heilsunuddari, kennari og markþjálfi. Sigrún starfar sem náms- og starfsráðgjafi og kennari við Fjölbrautaskólann í Ármúla og er sjálfstætt starfandi markþjálfi.

Áhugamál Sigrúnar eru allt sem viðkemur andlegri og líkamlegri heilsu, sálfræði og mannrækt. „Ég elska að bæta við mig þekkingu með því að hlusta á hlaðvörp eða lesa bækur. Auk þess elska ég að ferðast bæði innanlands og erlendis.“

Fjölskylda Eiginmaður Sigrúnar er Magnús Björnsson, f. 1977. Börn þeirra eru Ísabella Fjeldsted, f. 2009, og Baltasar Fjeldsted, f. 2013. Foreldrar Sigrúnar: Helga Fjeldsted, f. 1965, og Sveinn Rúnar Vilhjálmsson, f. 1957, d. 2007.