Örn Stefánsson fæddist á Akureyri 16. júlí 1989. Hann lést 26. janúar 2024.

Örn var sonur Helgu Kristjánsdóttur, f. 1964, og Stefáns Þórs Arnarsonar, f. 1964. Systir Arnar er Kristjana, f. 1988.

Fósturfaðir Arnar og eiginmaður Helgu er Ómar Birgisson Aspar, f. 1962.

Örn lætur eftir sig þrjú börn, þau eru: Gabríel Máni, f. 30.10. 2008; Magnús Angel, f. 5.3. 2013; Stefán Þór, f. 28.11. 2017.

Útför hans fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi minn.

Það er sárt að skrifa þetta en núna ertu farinn frá okkur, floginn burt á vit nýrra ævintýra. Þú barðist eins og þú gast við þinn sjúkdóm en veikindin þín sigruðu að lokum. Ég hlýja mér við allar okkar góðu og skemmtilegu minningar, og brosi yfir þeim fyndnu uppátækjum sem við brölluðum saman. Eins og þegar við fórum út að renna okkur einn veturinn en þú áttir engan sleða eða snjóþotu, svo við redduðum okkur og renndum okkur ótal margar ferðir niður brekkuna heima hjá þér á svörtum ruslapokum. Þú varst líka duglegur að kaupa þér nýja bíla og bjóða mér á rúntinn, þar skemmtum við okkur alltaf konunglega við feðgarnir saman á rúntinum. Elsku pabbi minn, þú munt alltaf eiga þinn stað í hjarta mínu og hjörtum okkar allra sem núna syrgjum þig. Nú hvílir þú í friði og ég trúi því að núna finnir þú fyrir þeirri ró sem þú þráðir að finna. Við sem elskum þig verðum að leyfa tímanum að sjá um að lækna okkar sár þótt ég eigi erfitt núna með að trúa að tíminn lækni þessi sár. Ég mun alltaf elska þig og hugsa til þín á hverjum degi.

Hvíldu í friði elsku pabbi minn.

Gabríel Máni
Arnarson.