Kristinn T. Haraldsson
Kristinn T. Haraldsson
Við höfum kerfi þar sem hlutverk forsætisráðherra virðist einna helst vera fundarstjórn á ríkisstjórnarfundum.

Kristinn T. Haraldsson

Allt frá því að við sem víkingar yfirgáfum Noreg af því við þoldum ekki þau lög og reglur kóngsins höfum við nánast verið agalaus og erum upp til hópa á móti boðum og bönnum. Við skiljum ekkert í því hvers vegna þjóðfélagið er alltaf allt á afturfótunum og ekkert gengur upp. Við viljum borga sem minnst af sköttum, en fá sem mest út úr ríkinu. Það er þjóðaríþrótt okkar Íslendinga að stela undan skatti og ef keppt væri í þeirri grein á Ólympíuleikunum værum við eflaust handhafar gullsins. Hvert og eitt okkar vill vera víkingahöfðingi og stjórna, enda eigum við Íslendingar fjöldann allan af smákóngum sem vilja ráða. Þetta víkingaeðli liggur í genunum okkar og við högum okkur eins í dag og víkingar gerðu forðum og reynum okkar ýtrasta til að komast framhjá lögum og reglum. Í stjórnmálunum sjáum við hverja höndina uppi á móti annarri og botnum ekkert í því hver raunverulega stjórnar landinu. Er ekki eitthvað rangt í grundvallaratriðum við stjórnkerfið okkar? Við höfum kerfi þar sem hlutverk forsætisráðherra virðist einna helst vera fundarstjórn á ríkisstjórnarfundum án þess að hafa nokkurt boðvald yfir ráðherrunum 11 sem sitja fundina. Ríkisstjórnarfundirnir eru frekar eins og málfundir í skóla en ákvörðunarfundir um stefnumál ríkisstjórnarinnar. Hver ráðherra lætur líta út eins og hann sé að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar, en ræður alfarið sínum málaflokki án afskipta forsætisráðherra eða ríkisstjórnar og gerir það sem honum sýnist. Er þetta raunveruleg stjórn eða hvað þá heldur ríkisstjórn?

Við sjáum utanríkisráðherra hafa sína eigin stefnu í utanríkismálum á skjön við forsætisráðherra. Við sjáum dómsmálaráðherra hafa sína eigin stefnu í útlendingamálum. Við sjáum matvælaráðherra hafa sína eigin stefnu í hvalveiðimálum og svo framvegis og svo framvegis. Ekkert af þessum málum er samþykkt af ríkisstjórn. Hvað er ríkisstjórn og til hvers er hún þá? Ríkisstjórn á að taka sameiginlegar ákvarðanir eins og fyrirtæki gera og stjórna landinu fyrir okkur, sem hún í rauninni gerir ekki. Hvers vegna er það svo að hver höndin er uppi á móti annarri? Ég tel að ástæðuna fyrir þessari ringulreið í ríkisstjórninni megi rekja til þess að ríkisstjórnin er „ekki fjölskipað stjórnvald“, sem þýðir að „hver einstakur ráðherra ræður sínum málaflokki“ og þarf ekki samþykki ríkisstjórnarinnar fyrir ákvörðunum sínum. Engu fyrirtæki dytti í hug að stjórna með þessum hætti. Ráðherrar eru ekki ábyrgir fyrir þeim skuldum sem þeir koma ríkinu í og þurfa ekki að axla ábyrgð. Haldið þið að matvælaráðherra greiði Hval bótakröfurnar úr eigin vasa? Nei, það er ríkið. Það er allt of mikið um það að ráðherrar, upp á sitt eindæmi, komi ríkinu í margra miljóna króna skuld vegna óábyrgrar ákvörðunartöku án aðkomu ríkisstjórnarinnar. Hugsið ykkur ef fyrirtæki væri rekið með sama hætti og ríkisstjórn með 11 deildarstjórum og einum fundarstjóra og svo myndi einn deildarstjórinn, upp á sitt eindæmi af því að hann hefði vald til þess, kaupa 300 prentara því honum þætti svo leiðinlegt að skipta um tóner í þeim. Hann hefur vald til þess og fyrirtækið borgar. Hvað haldið þið að liði langur tími þar til fyrirtækið færi á hausinn? Þetta er einfaldað dæmi á því valdi sem ráðherra hefur í dag, þar sem hann þarf ekki að bera upp mál sín við ríkisstjórn eða leggja fram við hana í hvað hann eyðir fjármununum. Ríkisstjórnin þarf að vera fjölskipað stjórnvald og bera sameiginlega ábyrgð á stefnumálum og framkvæmdum ríkisstjórnarinnar, í stað þess að einstakir ráðherrar sem bera í raun enga ábyrgð geti tekið stefnumarkandi ákvarðanir og skuldbundið ríkissjóð og ríkisstjórn án nokkurs samráðs. Ef ríkisstjórn ákveður að leyfa, nú eða banna, hvalveiðar fer matvælaráðherra og tilkynnir það. Þannig á ríkisstjórn að starfa. Engar stórar ákvarðanir ætti að taka nema með samþykki ríkisstjórnar og fari ráðherra ekki eftir ákvörðun ríkisstjórnar víkur hann að sjálfsögðu úr embætti. Með þessu fyrirkomulagi kæmist á stjórn og stöðugleiki innan þjóðarbúsins. Að öllu óbreyttu mun ruglið halda áfram og ráðherrar halda áfram að fría sig ábyrgð á gjörðum sínum. Því skora ég á þingheim að taka þetta mál upp á hinu háa Alþingi og finna lausn á því hvernig hægt væri að reka ríkisstjórn eins og fyrirtæki þannig að ekki færi á milli mála hver stjórnaði landinu og ríkisstjórnin bæri sameiginlega ábyrgð á stefnu og gjörðum ríkisstjórnarinnar, en ekki hver einstakur ráðherra.

Höfundur er búsettur í Noregi, virkur félagi í Arbeiderpartiet og félagi í Samfylkingunni.

Höf.: Kristinn T. Haraldsson