Þór Gunnarsson fæddist í Reykjavík 2. október 1940. Hann lést 7. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Gunnar Halldór Sigurjónsson, f. 22.11. 1909, d. 23.2. 1985, loftskeytamaður og listmálari í Hafnarfirði og Gertrud Sigurjónsson Abelmann, f. 20.10. 1917, d. 13.8. 2006, húsmóðir frá Bremerhaven Þýskalandi.

Bræður Þórs voru Sigurjón Gunnarsson, f. 11.2. 1944, d. 26.10. 2018, og Ludwig Heinrich Gunnarsson, f. 10.9. 1945, d. 14.5. 2019.

Þór giftist 15.10. 1966 Ásdísi Valdimarsdóttur húsmóður, f. 12.5. 1942, d. 11.9. 2022. Foreldrar hennar voru Eybjörg Áskelsdóttir húsmóðir, f. 10.1. 1910, d. 29.1. 1992, og Valdimar Guðmundsson trésmíðameistari, f. 16.8. 1910, d. 21.10. 2001.

Börn Ásdísar og Þórs eru: 1) Anna Margrét, f. 9.4. 1966, gift Ólafi Gauta Hilmarssyni, f. 25.11. 1967. Börn þeirra eru a) Hildigunnur, f. 1993, sambýlismaður Hlynur Hauksson, f. 1988, sonur þeirra er óskírður, f. 2024, sonur Hildigunnar er Dagur Noah, f. 2021, og sonur Hlyns er Theodór Birkir, f. 2016, b) Arnar Gauti, f. 1998, unnusta hans er Tiana Ósk Whitworth, f. 2000, c) Ylfa Margrét, f. 2002, unnusti hennar er Eysteinn Þorri Björgvinsson, f. 2000. 2) Þórdís, f. 29.3. 1967. Þórdís var áður gift Degi Hilmarssyni og börn þeirra eru a) Hilmar Þór, f. 1990, giftur Erlu Friðbjörnsdóttur, f. 1987, synir þeirra eru Dagur, f. 2021, og Veigar, f. 2022, b) Gunnar Þór, f. 1997, sambýliskona Arna Bjarnadóttir, f. 1997, c) Ásdís, f. 1999, unnusti hennar er Rúnar Bergþórsson, f. 2000. 3) Davíð Arnar, f. 1.6. 1971, giftur Ingibjörgu Ólafsdóttur, f. 12.3. 1971, börn þeirra eru a) Þór Breki, f. 1999, b) Ólafur Andri, f. 1999, c) Heiðar Bjarki, f. 2007.

Þór fæddist í Reykjavík en ólst upp í vesturbænum í Hafnarfirði. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg 1957 í Hafnarfirði og prófi frá Loftskeytaskólanum 1961.

Þór starfaði hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar frá 1961 og var þar sparisjóðsstjóri frá 1980 til 2004, er hann lauk þar störfum.

Þór var fyrsti starfsmaður Sambands íslenskra sparisjóða og sat í stjórn sambandsins um árabil. Hann sat fyrir hönd sparisjóðanna í stjórn Evrópusambands sparisjóða. Hann sat í stjórn Tryggingasjóðs sparisjóða og var lengst af formaður hans. Þá gegndi hann öðrum trúnaðarstörfum fyrir sparisjóðina og sat í stjórnum dótturfyrirtækja þeirra og ýmsum starfsnefndum.

Þór var fjárhaldsmaður Hafnarfjarðarkirkju í ellefu ár. Frá sextán ára aldri var hann virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins. Hann var formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, og síðar formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði.

Útför Þórs fer fram hjá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku besti pabbi, kletturinn í lífi okkar systkina, hefur kvatt eftir erfið veikindi.

Við huggum okkur við það á þessari stundu að líf þitt var fallegt og innihaldsríkt. Það voru forréttindi að fá að alast upp hjá þér og mömmu og eftir standa yndislegar minningar.

Þér leið best þegar þú hafðir nóg að gera hvort sem það var í sparisjóðnum eða heima við. Þú varst einstaklega laghentur og vandvirkur. Þér var mikið í mun að kenna okkur systkinunum hvernig ætti að vinna verkin og nú búum við að þeim lærdómi. Þú varst lausnamiðaður og kunnir ekki að gefast upp. Þú kenndir okkur seiglu og úthald, vera heiðarleg, koma vel fram við alla og horfa alltaf björtum augum á hlutina. Þú varst alltaf til staðar, bæði þegar á móti blés eða allt léki í lyndi.

Þótt þú værir í krefjandi starfi alla tíð þá passaðir þú vel upp á að eiga gæðastundir með okkur systkinunum. Á okkar yngri árum varst það þú sem sást um háttatímann og komst okkur í rúmið með öllu sem því fylgdi. Eftir að hafa farið með bænirnar með okkur þá söngstu fyrir okkur þrátt fyrir að lagvísin væri nú ekki alveg með þér í liði.

Allt sem þú gerðir gerðir þú með stæl og upp á tíu. Einu ári eftir að eitt af okkur systkinum kom heim með gúbbífisk í poka varst þú kominn með tvö stór fiskabúr með alls konar fiskum og gróðri. Dúfukaupin hans Davíðs enduðu með einni stærstu hláturdúfnarækt landsins á sínum tíma í bílskúrnum á Lindarhvamminum. Svo byrjaðir þú að safna útvörpum og það endaði sem eitt stærsta útvarpssafn landsins. Það safn er nú í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar. Þá má ekki gleyma blómaáhuga þínum, en þegar gest bar að garði sem sá afraksturinn varð honum að orði hvort Tarsan leyndist ekki einhvers staðar inni í frumskóginum í sjónvarpsherberginu. Svona varst þú elsku pabbi, þú getur rétt ímyndað þér hvað var gaman fyrir okkur systkinin að fá að taka þátt í þessu öllu. Þá minnumst við ferðar um páska austur fyrir fjall í bandvitlausu veðri ferð sem mamma vildi alls ekki fara í. Þegar komið var á Hellisheiðina þurftir þú margsinnis að fara út og hreinsa rúðuþurrkurnar sem höfðu ekki undan og mamma lét þig nú alveg heyra það. Svo þegar við vorum loksins komin í bústaðinn þá var þar allt vatn frosið í rörum. Þú lést það ekki á þig fá heldur hljópst margar ferðir niður í á til að ná í vatn og þér fannst þetta frábært páskafrí.

Þú varst stemningsmaður fram í fingurgóma og varst alltaf að skipuleggja útilegur, göngutúra og ýmis ævintýri og allir voru velkomnir. Við eigum því ótal minningar um gleðistundirnar með þér og mömmu þar sem við upplifðum hvað þú naust lífsins með okkur og varst hrókur alls fagnaðar. Við munum ekki eftir þér döprum eða leiðum, það var alltaf bjartsýni og gleði og verk að vinna. Þú varst víðlesinn og vissir svo margt og lést ekki þitt eftir liggja í að koma fróðleiknum áfram til okkar barnanna og barnabarna. Þú varst alltaf til staðar, tilbúinn að ræða málin og hjálpa.

Elsku besti pabbi, takk fyrir allar minningarnar og lífið okkar saman.

Anna Margrét, Þórdís og Davíð.

Nú hefur hann Þór, elskulegur tengdafaðir minn til 28 ára, kvatt okkur. Ég á ekki von á öðru en að Ásdís, tengdamamma, hafi tekið höfðinglega á móti honum með opinn faðm og hlaðborð af kræsingum, eins og henni einni var lagið.

Þór var vel þekktur í Hafnarfirði og víðar sem bankastjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar til margra ára. Þó svo að Þór hafi vegnað vel og unnið sig upp í bankanum frá sendlastarfi, upp í bankastjórastarf, ól hann börnin sín upp með þeim hætti að axla ábyrgð, vera sjálfstæð og heiðarleg. Þau eru alin upp við þá staðreynd að ekkert í þessu lífi er sjálfsagt og að maður þarf að hafa fyrir hlutunum.

Sem tengdapabbi var Þór sá ljúfasti og besti. Þór var margt til lista lagt og gat sýnt á sér margar hliðar. Hann var handlaginn maður og sýndi mikla elju í öllu tengdu viðhaldi húsa. Aldrei stóð á honum að taka til hendinni ef eitthvað þurfti að gera. Þegar hann mætti á staðinn var hann á við tíu manns. Þór sá um að fjarlægja veggi og innréttingar í okkar fyrstu íbúð. Mér er minnisstætt þegar við vorum að mála raðhúsið okkar í Lóuásnum að utan, þá var Þór mættur á bjölluna klukkan á morgnana, klifrandi eins og köttur uppi í stiga til að klára verkið á meðan viðraði. Þakklát fyrir aðstoð hans hugsa ég til þessa með hlýju í dag þó að ég hafi ekki verið sérlega hress með að vera vakin fyrir allar aldir á sínum tíma.

Alltaf þegar ég kom í Næfurholtið var ég tekin í fangið, knúsuð og spurð eftir nýjustu fregnum af drengjunum okkar Davíðs, foreldrum mínum og systkinum. Ég gleymi aldrei þegar við Davíð vorum að byrja saman þegar Þór sagði við mig: „Ingibjörg mín, lífið byrjar ekki fyrr en þú eignast börn.“ Þó ég hafi „rúllað aftur augunum“ og ekki tengt við þetta á þessum tíma er ég svo sammála honum í dag, enda þremur börnum ríkari.

Ein jólin eyddum við hjónin jólanóttinni bæði með gubbupest og sváfum hvorugt neitt. Tvíburarnir okkar voru þá aðeins þriggja ára gamlir. Þeir vöknuðu eldhressir og tilbúnir í daginn klukkan 6 að morgni jóladags en við hjónin frekar framlág. Við hringdum í Ásdísi og Þór, úrvinda, snemma þennan jóladagsmorgun og ekki leið á löngu áður en Þór var mættur á staðinn og tók tvíburana upp á sína arma á meðan við hjónin söfnuðum kröftum og fengum að hvíla okkur eftir þessa erfiðu nótt.

Ég minnist Þórs af hlýhug og kærleik, hann var ávallt til staðar þegar við þurftum á honum að halda.

Elsku Þór, takk fyrir samfylgdina þessi 28 ár, sem ég er óstjórnlega þakklát fyrir. Þakklát fyrir allt sem þú gafst okkur og skilur eftir þig. Söknuður og tómleiki eru tilfinningar sem eru ríkjandi núna en á móti þeim er til staðar hlýja og ylur af öllum þeim minningum sem við eigum eftir samfylgdina.

Hvíl í friði, elsku besti tengdapabbi, ég hugsa hlýtt til þín nú sem ávallt.

Þín tengdadóttir,

Ingibjörg Ólafsdóttir.

Elsku afi.

National Geographic er í gangi í sjónvarpinu, amma hitar snúða í ofninum, og afi er að sækja kók í gleri úr ísskápnum niðri. Við knúsum ömmu og afa og án orðaskipta finnum við að þau elska okkur. Þessi minning er okkur efst í huga þegar við hugsum um afa Þór. Við vorum svo heppin að heimsóknir okkar í Næfurholtið voru ótal margar yfir æskuárin þannig að þessi minning endurtekur sig aftur og aftur. Seinna meir bættist Tína við þessa minningu, litli maltese-hundurinn sem afi hafði í fyrstu alls engan áhuga á að fá en áður en hann vissi af urðu þau óaðskiljanleg. Þannig var afi okkar, blíðari en nokkur annar. Við vorum svo heppin að eiga hann sem afa. Við munum sakna hans svo sárt.

Gunnar Þór og Ásdís.

Elsku afi okkar, það er svo erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, en á sama tíma gott að vita að þér líður betur og þú ert kominn til elsku ömmu. Á svona tímum eru það litlu hlutirnir sem standa upp úr. Áramótin þar sem við fengum að hjálpa þér með flugeldana, að læra fyrir próf í Næfurholtinu hjá ykkur ömmu þar sem það var alltaf hugsað svo vel um mann, að sitja og horfa með þér á David Attenborough, ferðalögin okkar saman, samveran í Stykkishólmi og Lúxemborg og ekki síst öll hlýju faðmlögin þín sem sögðu meira en þúsund orð. Þú varst svo góður afi, alltaf brosandi og tókst okkur alltaf opnum örmum með þinni ómældu umhyggju. Við eigum þér svo mikið að þakka og þú kenndir okkur svo margt sem mun gagnast okkur svo vel í lífinu. Við söknum þín og elskum þig elsku besti afi okkar. Minning þín lifir í hjörtum okkar að eilífu. Guð geymi þig og við sjáumst seinna.

Þín barnabörn,

Hildigunnur,
Arnar Gauti og
Ylfa Margrét.

Það eru ákveðnir hlutir sem ég tengi beint við afa Þór: Heimsóknir í Sparisjóðinn til að sníkja prins póló og kók úr öryggisskápnum, rólegar stundir yfir dýralífsmyndum þar sem afi virtist vita manna mest um öll heimsins dýr, fjölskylduferðir í bústaðinn í Úthlíð, ættarmótin, áramótin með risastóru sprengjubeltunum sem slógu út ljósastaura og í seinni tíð morgunkaffið með afa og ömmu eftir næturvaktir.

Afi Þór var alveg einstaklega góður afi. Hann var ákveðinn en alltaf ljúfur. Stöðugur stuðningsmaður afastráksins síns frá því ég man eftir mér. Hann lagði áherslu á að vera nákvæmur og vandvirkur, það sem maður leggur í hlutina fær maður aftur til baka.

Það er ótrúlega góð tilfinning að vera í kringum manneskju sem lætur manni alltaf líða eins og hún hafi meiri trú á þér en nokkur annar. Þannig lét afi mér alltaf líða. Þegar ég var yngri gerði hann það með stöðugum hvatningarorðum og þegar ég varð eldri skein það í gegnum spurningar og áhuga á námsferli og starfi. Hann var alltaf stuðningsmaður númer eitt og frábær fyrirmynd, góðhjartaði sparisjóðsstjórinn á Strandgötunni sem sýslaði með prins póló og kóka kóla.

Hilmar Þór.

Mig setti hljóðan þegar Davíð Arnar hringdi í mig síðastliðinn fimmtudag og sagði mér að pabbi sinn Þór hefði látist þá um nóttina. Þór var föðurbróðir minn en Gunnar Halldór Sigurjónsson og pabbi, Haraldur Sigurjónsson, voru bræður.

Ein af mínum fyrstu kynnum af Þór frænda, sem þá bjó á Vitastíg 7, örstutt frá heimili mínu, voru þau að mér hafði borist til eyrna að Þór, sem þá var útskrifaður lofskeytamaður, hefði eignast svart-hvítt sjónvarp. Örfá sjónvörp voru þá til í Hafnarfirði en hægt var með sérstakri lagni að ná útsendingum kanasjónvarpsins frá herstöðinni í Keflavík. Árið var 1964 og ég átta ára. Nú skyldi frændi heimsóttur og hóaði ég saman nokkrum leikfélögum af Hverfisgötunni og var skundað upp á Vitastíg snemma morguns á laugardegi til að vita hvort frændi væri til í að leyfa okkur að horfa á kanasjónvarpið. Var það auðsótt og sátum við leikfélagarnir lengi dags hjá Þór, minnir að hann hafið boðið okkur upp á kók og erlent sælgæti í ofanálag. Þannig var frændi alla tíð, gestrisinn með eindæmum hvort sem gesturinn var barn, unglingur eða rígfullorðinn.

Liðu nú árin og þegar ég var rúmlega tvítugur lágu leiðir okkar frænda saman aftur. Þór, sem þá var orðinn sparisjóðsstjóri við Sparisjóð Hafnarfjarðar, kom að máli við mig og bauð mér vinnu við gjaldkerastörf í sparisjóðnum. Þáði ég boðið og var það upphaf að samstarfi okkar á vettvangi sparisjóðsins næstum 30 ár. Þór var minn mentor og það var mjög svo lærdómsríkt að vinna undir hans stjórn. Rekstur sparisjóðsins gekk að mestu leyti vel þessi ár og var hann einn öflugasti sparisjóður landsins. Eitt verð ég sérstaklega að minnast á, það voru auglýsingasamningar sem sparisjóðurinn gerði við handknattleiksdeildir FH og Hauka undir forystu Þórs. Þessir samningar voru í gildi árum saman og voru öllum aðilum mjög hagfelldir. Einnig styrkti sparisjóðurinn og auglýsti hjá öðrum íþróttagreinum, líknarfélögum og næstum hverjum sem leitaði til sparisjóðsins um styrk. Samfélagsleg ábyrgð sparisjóðsins var Þór og forsvarsmönnum sparisjóðsins mjög hugleikin.

Þór kvæntist 15. október 1966 Ásdísi Valdimarsdóttur en hún lést 11. september 2022. Ásdís og Þór voru höfðingjar heim að sækja, hvort sem það var á Arnarhrauninu, í Lindarhvamminum eða Næfurholtinu. Sér í lagi eru skötuveislurnar í desember sem hófust í Lindarhvamminum og fluttust síðan í Næfurholtið minnisstæðar. Þór lagði mikið upp úr umgjörðinni og Ásdís hafði yfirumsjón með matseldinni. Biðu menn spenntir eftir boðskortinu og voru þau alltaf mjög frumleg og flott. Hin síðustu ár hefur hópurinn flutt skötuveisluna á Hverfisgötuna og hún verið haldin þar undanfarin ár, því miður átti Þór ekki heimangengt af heilsufarsástæðum og verið sárt saknað.

Elsku Þór, þakklæti og vinátta er mér efst í huga, svo og allar stundirnar sem við áttum saman hvort sem það var í vinnu eða utan.

Að lokum vottum við Bjarnfríður Ósk systkinunum Önnu Margréti, Þórdísi og Davíð Arnari og fjölskyldum innilega samúð.

Hvíldu í friði elsku frændi.

Ingimar Haraldsson.

Við lát Þórs Gunnarssonar kveð ég góðan vin og samferðamann frá unga aldri. Heimavöllur Þórs var hér í Hafnarfirði og hér í Firðinum átti hann heima alla tíð. Lauk hann námi við Flensborgarskóla og síðan prófi frá Loftskeytaskólanum 1961. Að því loknu var Þór ráðinn til starfa hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar, sem var síðan starfsvettvangur hans til 43ja ára. Skipaður sparisjóðsstjóri árið 1980 og gegndi því starfi þar til hann lauk störfum árið 2004.

Á þeim tíma sem við Þór slitum barnsskónum hér í Firðinum snerist atvinnulífið að miklu leyti um sjávarútveg og í bænum voru nokkur öflugustu útgerðarfélög í landinu. Þá fjölgaði íbúunum, sem kallaði á mikla uppbyggingu bæjarins og fjölgun iðnaðarmanna. Sparisjóður Hafnarfjarðar var stór þátttakandi í þeirri vegferð með fjárhagslegum stuðningi bæði við atvinnurekstur og einstaklinga. Við þá fyrirgreiðslu voru menn metnir fyrst og fremst af orðspori sínu en ekki af tryggingarandlagi. Þór gegndi starfi sparisjóðsstjóra um aldarfjórðung og hefur aðeins einn annar gegnt því lengur en hann á rúmlega hundrað ára starfstíma sjóðsins.

Á starfstíma Þórs sem sparisjóðsstjóra voru honum falin stjórnunarstörf á vegum Sambands sparisjóða. Sat í stjórn sambandsins í 18 ár, þar af fjögur ár sem formaður. Þá tilnefndur fyrir hönd sparisjóðanna í stjórn Evrópusambands sparisjóða ásamt setu í laga- og reglugerðanefnd sambandsins. Var formaður Tryggingarsjóðs sparisjóða um langt árabil. Gæfa og styrkleiki Sparisjóðs Hafnarfjarðar fólst m.a. í því að til forystu voru valdir menn sem alltaf voru vakandi yfir velferð sjóðsins og er nafn Þórs þar á meðal.

Þór var öflugur liðsmaður Sjálfstæðisflokksins hér í Firðinum og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum, m.a. sem formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðimanna, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Hafnarfirði og var kosningastjóri flokksins hér í Firðinum um langt árabil. Sagt var að styrkleiki forystumanna flokksins í Hafnarfirði hefði á landsvísu verið m.a. vegna mjög öflugra starfa kjarna flokksfólks í Hafnarfirði, sem hélt saman í áratugi. Þau héldu uppi mjög sterku grasrótarstarfi. Á blómatíma þeirra var varla til sá Sjálfstæðisflokkur sem var kraftmeiri en þessi hópur í Hafnarfirði. Þór var einn af forystumönnum þessa hóps.

Eftir að Þór lét af störfum sem sparisjóðsstjóri sinnti hann ýmsum áhugamálum, þar ber hæst söfnun útvarpstækja til margra ára, gæsaveiðar og fornbíla. Öllu þessu sinnti hann með þeim ákafa, nákvæmni og hirðusemi sem einkenndi öll störf Þórs. Við sem hittumst jafnan vikulega að morgni föstudags hér í Firðinum hin síðari ár til að ræða málefni líðandi stundar söknum nú góðs félaga. Það var sárt fyrir okkur félaga og vini Þórs að fylgjast með því síðustu árin hvernig sjúkdómurinn leiddi smátt og smátt til þess að hann yfirtók persónu Þórs og hann fjarlægðist umhverfi sitt. Hann glímdi við sjúkleika sinn af elju og þrautseigu og þar naut hann umhyggju konu sinnar, Ásdísar, og fjölskyldu.

Nú þegar Þór Gunnarsson er kvaddur og hans lífsgöngu er lokið verður ekki annað sagt en að hún hafi verið björt og göfug. Segja má að þrátt fyrir sjúkdóminn hafi hann yfirgefið þennan heim sáttur við lífið og það sem það gaf honum. Ég og fjölskylda mín þökkum Þór samfylgdina og vottum börnum hans og fjölskyldu samúð okkar.

Sigurður Þórðarson.

Það hafði sitt að segja um úrslit prestskosningar í Hafnarfjarðarsókn 1977 að Þór Gunnarsson gerðist annar kosningastjóra minna. Hann var þá aðstoðarsparisjóðsstjóri Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Þór skipulagði kosningabaráttu mína vel og engar kvaðir fylgdu því um að ég styddi Sjálfstæðisflokkinn, þótt hann væri þar í fararbroddi í Hafnarfirði. Gagnkvæmt traust myndaðist okkar á milli og hlý vinátta. Fjárreiður Hafnarfjarðarkirkju voru í traustum höndum Þórs, sem keypt hafði verðtryggð ríkisskuldabréf til að tryggja lausafé kirkjunnar, er varð til þess að hún hélt sínu í óðaverðbólgutíð og hreppti að auki stóran happdrættisvinning. Þór gaf tóninn að vandaðri fjársýslu Hafnarfjarðarkirkju og var fulltrúi kirkju sinnar við fjárskipti á milli hennar og nýrrar Víðistaðasóknar. Á vegum Sparisjóðsins var vel gætt að hag og heill fólks og fyrirtækja í Hafnarfirði. Kirkjan naut þess sérstaklega er ráðist var í byggingu safnaðarheimilis hennar, sem fékk nafnið Strandberg, og sambyggðs tónlistarskóla bæjarins. Þór fylgdist með framkvæmdunum og gladdist yfir því hversu vel tókst til og að þessar byggingar í hjarta Hafnarfjarðar settu fagran svip á miðbæinn og innsiglinguna og hafa mikið að gefa mannlífi þar og menningu. Þegar ég jarðsöng foreldra Þórs, Gunnar Halldór Sigurjónsson, sem var barnfæddur Hafnfirðingur, og Gertrude Sigurjónsson Abelmann, þýskrar ættar, kynntist ég uppruna Þórs og áhrifaþáttum í sögu hans sjálfs. Gunnar var loftskeytamaður á sjó og í landi og var líka ágætur listmálari. Þau Gertrude höfðu kynnst í Þýskalandi og henni tókst að komast hingað til lands rétt eftir að stríð braust út í álfunni og þau Gunnar giftust stuttu síðar í Hafnarfjarðarkirkju. Gertrude bar með sér sígild verðmæti þýskrar menningar, tónlistaryndi, fágun og smekkvísi, ögun og vandvirkni, sem settu sitt góða mark á Þór og yngri bræður hans. Þegar fram liðu stundir fermdi ég og gifti öll þrjú börn Þórs og Ásdísar Valdimarsdóttur, eiginkonu hans, í kirkjunni. Ánægjulegt var síðar að koma í glæsilegt einbýlishús þeirra hjóna að Næfurholti og skíra barnabörn þeirra.

Þór var samviskusamur og skeleggur og gerði kröfur til sjálfs síns og annarra um heiðarleika, dug og drengskap. Honum sárnaði hversu illa fór fyrir sparisjóðum landsins fáum árum eftir að hann hætti störfum og taldi þá rænda innan frá með offorsi og óheilindum. „Hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera,“ segir Jesús Kristur. Hugur Þórs og hjarta voru mjög Sparisjóðnum bundin en einnig kirkjunni kæru og fjölskyldu hans þó allra helst, sem hann þakkaði Guði fyrir og var stoltur af. Trúarvitund Þórs tengdi þessa lífsþætti saman til góðra verka. Er innri kraftar hans þrutu fékk Þór athvarf á Sólvangi. Þá var af sem áður var að hann gæti rætt það sem ég hafði sagt í kirkjunni en hann hafði fyrr oft heyrt mig minnast þar á þessi orð postulans: Þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður, og þau áttu hljómgrunn í hjarta hans. Ég þakka dýrmætan stuðning og vináttu Þórs og umhyggju hans fyrir Hafnarfjarðarkirkju og bið góðan Guð að blessa minningu hjónanna Þórs og Ásdísar, sem hlúði kærleiksríkt að honum í veikindunum en lést í hitteðfyrra. Fullkomni hann líf þeirra og elsku í upprisubjarma Frelsarans og lýsi og leiði börn þeirra og aðra ástvini.

Gunnþór Ingason.