Orka FÍN hefur áhyggjur af réttindum starfsfólks í nýrri stofnun.
Orka FÍN hefur áhyggjur af réttindum starfsfólks í nýrri stofnun. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) gerir athugasemdir við áform um hvernig ráðningum starfsfólks verði háttað þegar ný Umhverfis- og orkustofnun tekur til stafa eftir sameiningu Orkustofnunar og hluta Umhverfisstofnunar

Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) gerir athugasemdir við áform um hvernig ráðningum starfsfólks verði háttað þegar ný Umhverfis- og orkustofnun tekur til stafa eftir sameiningu Orkustofnunar og hluta Umhverfisstofnunar.

Í umsögn um frumvarp um sameininguna, sem er í meðförum Alþingis, segir FÍN að í athugasemdum í frumvarpinu komi m.a. fram að ekki sé gert ráð fyrir að störf hjá hinni nýju stofnun verði auglýst nema starfsfólk viðkomandi stofnana þiggi það ekki eða það samræmist ekki þeirri þekkingu eða færni sem er fyrir hendi hjá starfsfólkinu.

Þá segi einnig að ætlunin sé að forstjóri hinnar nýju stofnunar fái í hendur greinargerð um mat á stöðu mannauðsmála og tillögur að aðgerðum. „Með öðrum orðum þá virðist sem ætlunin sé að nýr forstjóri bjóði ótilgreindu starfsfólki núverandi stofnana starf á grundvelli mats mannauðshóps stofnananna út frá greiningu þess hóps. Í slíku felst ekki eiginlegur forgangur eins og ákvæðið er orðað, heldur frekar skylda nýs forstjóra til að líta fyrst til núverandi hóps starfsfólks við ákvörðun skipanar starfsfólks hjá hinni nýju stofnun. Að mati FÍN felur hvorki orðalag greinargerðarinnar né orðalag bráðabirgðaákvæðisins í sér skýringar á því í hverju forgangur felst eða hvernig framkvæmd skuli hagað. Réttilega kemur fram að núverandi starfsfólk þurfi ekki að sækja um störf sín heldur þurfi að sitja við þá óvissu hvort nýjum forstjóra hugnist að bjóða þeim starf hjá hinni nýju stofnun út frá greiningu mannauðshóps. Að framangreindu virtu verður vart annað talið en að sú óvissa sem var fyrir geti orðið enn meiri,“ segir í umsögn félagsins.

Mun heillavænlegra sé að það komi skýrt fram að störf verði lögð niður hjá undirliggjandi stofnunum og öllum verði boðið starf hjá hinni nýju stofnun og þannig verði öllum vafa eytt hið fyrsta. Hin leiðin sé líka fær, að flytja starfsfólk yfir til hinnar nýju stofnunar með réttindum og skyldum.

Umhverfisstofnun segir í umsögn um frumvarpið að óljóst sé hvort starfsfólk haldi áunnum orlofsréttindum sínum inn í nýja ráðningu hjá nýrri stofnun. Mikilvægt sé að frumvarpið mæli fyrir um að starfsfólk haldi orlofsréttindum sínum og þurfi ekki að fá orlof greitt út við lok ráðningar og hefja svo ávinnslu að nýju í nýrri ráðningu.