Bjarni Hansson fæddist á Sætúni í Grunnavík 30. október 1928 og var skírður fullu nafni Bjarni Kristján Elías Hansson. Hann lést 29. janúar 2024 á Sjúkrahúsinu á Akranesi.

Foreldrar hans voru Hans Elías Bjarnason og Jónína Jónsdóttir. Systkini hans voru Hjálmfríður Guðrún, f. 1924, d. 2006, Jón Sigurðsson, f. 1926, d. 1999, Ólafur Jón, f. 1931, d. 2013, Kristján, f. 1934, d. 1998, og Pétur Björn, f. 1938, d. 1969.

Tólf ára gamall fór Bjarni til séra Jónmundar Halldórssonar á Stað í Grunnavík, næsta bæ við Sætún, en foreldrar hans og systkini fluttu það ár til Hnífsdals.

Eina barn Bjarna er Rósa Guðrún, f. 30. júlí 1945 á Ísafirði, en móðir hennar var Sigrún Jóna Guðmundsdóttir, f. 1907 á Sandeyri á Snæfjallaströnd, d. 1978 í Reykjavík.

Eiginmaður Rósu er Guðvarður Jónsson, f. á Þingeyri 18. desember 1924. Foreldrar hans voru Jón Erlendur Jónsson, f. 1883, d. 1949, og Aðalheiður Soffía Bjarnadóttir, f. 1898, d. 1963.

Börn Rósu og Guðvarðar eru: 1) Jón Erlendur, f. 18. janúar 1962. 2) Heiðrún Kristín, f. 3. júlí 1965, maki Guðsteinn Bjarnason, f. 2. desember 1959. 3) Jóhann Pétur, f. 13. apríl 1970, maki Birgit Raschhofer, f. 19. maí 1968.

Dætur Heiðrúnar Kristínar eru: Kolbrún Soffía Arnfinnsdóttir, f. 28. júlí 1988, en faðir hennar er Arnfinnur Róbert Einarsson, f. 1962, og Steinunn Rós Guðsteinsdóttir, f. 20. apríl 1995.

Maki Kolbrúnar Soffíu er Jóhann Heiðar Árnason, f. 12. maí 1983, og dætur þeirra eru Salbjörg Sakura, sem fæddist andvana 11. nóvember 2018, Heiðrún Birta, f. 4. desember 2020, og Sandra Elísabet, f. 19. mars 2023.

Dóttir Jóhanns Péturs og Birgit er Anna Margrét Hjaltdal, f. 14. desember 2003.

Á árunum 1949 til 1957 bjó Bjarni hjá foreldrum sínum, sem þá voru komin til Keflavíkur, en stærstan hluta ævi sinnar bjó hann á Kirkjubóli í Langadal þar sem hann var vinnumaður, fyrst nokkur ár hjá Steindóri Pálma Helgasyni bónda, f. 1897, d. 1967, og síðar hjá syni hans, Kristjáni Steindórssyni bónda og símstöðvarstjóra, f. 1932, d. 2020, og eiginkonu hans, Guðmundu Jónu Sigurðardóttur, f. 1939.

Á Kirkjubóli varð Bjarni fljótlega sem einn af fjölskyldunni. Börn þeirra Kristjáns og Guðmundu litu á hann nánast sem afa sinn, en þau eru: Steindór Gísli, f. 1958; Kristín Margrét, f. 1963, maki Eyjólfur Eyjólfsson; Sigurður, f. 1967, Hafliði, f. 1970, maki Lilja Fossdal, dætur þeirra Karen Dís og Thelma Dögg; Einar Rúnar, f. 1972, maki Rowena Riwera Kristjánsson.

Síðustu æviárin dvaldi Bjarni á Kirkjubóli á sumrin en í Reykjavík á veturna, fyrstu árin hjá Rósu, einn vetur hjá Hafliða og síðustu veturna hjá Jóhanni Pétri.

Eftir að heilsu Bjarna hrakaði fór hann á hjúkrunarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi árið 2022 og lést síðan á sjúkrahúsinu á Akranesi eftir stutta legu þar.

Útför Bjarna verður gerð frá Fella- og Hólakirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.

Afi er farinn að eilífu en þó ekki því hann lifir í minningum okkar. Ég hafði ekki hitt hann mjög oft þegar við Jói giftum okkur, en þá hitti hann líka ömmu mína í fyrsta skipti og það var yndislegt augnablik að muna því amma vildi aldrei að fólk væri svangt nálægt henni og hún sagði við afa, Bjarni þú þarft að borða eitthvað meira, þú ert svo grannur. Hún sagði það sama við Jóa í fyrsta skipti sem við fórum að heimsækja hana á Krókinn. Afi var alls ekki afi minn, nema fyrir það að mínir voru báðir dánir þegar við kynntumst og hann var alltaf svo yndislegur og afalegur að hann var alltaf afi heima hjá okkur og Anna dóttir okkar kallað hann líka alltaf afa þótt langafi væri. Vinir okkar kölluðu hann líka afa og hann var ekkert ósáttur við það.

Afi hafði alltaf gaman af að hafa gaman af lífinu og hann naut þess að drekka lífsins vatn og gefa öðrum með sér.

Afi kom nokkrum sinnum með okkur í sumarbústað og hafði hann gaman af að sjá fjölbreytileika náttúrunnar, en Langidalur bar alltaf af hjá honum sama hvaða fegurð aðra við sáum til dæmis í Vatnsfirði eða Gufufirði.

En við kynntumst fyrst mjög vel þegar hann flutti til okkar, fyrst bara á veturna en sumrin notaði hann á Kirkjubóli. Þegar hann var farinn að nálgast 90 árin fyrir alvöru fór að draga úr getu hans til að vera einn í sveitinni fallegu en fólkið á Kirkjubóli, sem afi leit á sem sína fjölskyldu eftir að búa og vinna á bænum í tugi ára, sá til þess að það var alltaf hringt og athugað um hann. Vandamálið var þetta með GSM-kerfið, það dró tæplega og því varð landlínan frekar fyrir valinu. En gemsinn, já, hann var oftast skilinn eftir hvort eð var og eftir að hann þurfti að fara alfarið á elliheimili var ekkert auðveldara að ná í hann því síminn var alltaf skilinn eftir á herberginu.

Í dag kveðjum við góðan mann og minnumst hans öll fjögur í Tungubakkanum með söknuði í hjarta en vitum að vel verður tekið á móti honum af þeim sem á undan eru gengnir.

Bless skáafi minn,

Birgit
Raschhofer.

Í dag, 16. febrúar, verður kvaddur vinur minn Bjarni Hansson frá Kirkjubóli.

Ég var sem strákur sex sumur í sveit á Kirkjubóli, hjá Steindóri Helgasyni og hans fólki, og þangað kom hann sem vinnumaður og var strax tekið sem einum af fjölskyldunni. Við urðum strax vinir enda ekki annað hægt, því hann var svo ljúfur og hlýr og skilningsríkur við strák sem átti það til að gera stór mistök.

Mér er minnisstætt þegar ég var sendur eftir hestum sem vitað var að voru fram undir Skeggjastöðum, framarlega í dalnum. Ég var kominn langleiðina þegar ég sá barð sem var hulið þykkri sinu. Ég var með eldspýtur í vasanum, nýkominn að heiman, og kveikti í þessu. Eldurinn hreinlega æddi um allt og ég varð bara að hlaupa í burtu.

Daginn eftir spurði Steindór mig hvort ég hefði valdið þessu og ég meðgekk það.

Þá tók þessi kæri vinur minn mig tali og sagði: Þetta var hræðilegt sem þú gerðir, veslings smáfuglarnir sem voru búnir að byggja sér hreiður og verpa, þetta er orðið svo seint að þeir hafa varla tíma til að verpa aftur, þeir sáu þetta fuðra upp.

Þegar ég sá hvað ég hefði verið mikill óþokki fór ég að gráta, en hann faðmaði mig og ég grét við brjóst hans. Hann sagði: Ég veit að þú ert góður strákur, þú vissir ekki að þetta yrði svona skelfilegt. Þessi huggunarorð hans urðu mér ógleymanleg og hjálpuðu mér mikið að lifa með skömminni. Hugur minn er fullur þakklætis fyrir að hafa kynnst og eignast vináttu þessa góða drengs.

Ég bið Guð að styrkja og styðja alla ástvini hans og aðra aðstandendur í sorginni.

Björgvin Kristjánsson.