— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Mikill eldur braust út í bifreiðaþjónustu N1 að Fellsmúla 24 á sjötta tímanum síðdegis í gær. Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang og var ljóst frá upphafi að um umfangsmikinn eld væri að ræða

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Mikill eldur braust út í bifreiðaþjónustu N1 að Fellsmúla 24 á sjötta tímanum síðdegis í gær. Allt tiltækt slökkvilið var kallað á vettvang og var ljóst frá upphafi að um umfangsmikinn eld væri að ræða.

Gestir og starfsfólk verslana í byggingunni yfirgáfu þær um leið og eldsins varð vart, en á jarðhæð að austanverðu eru meðal annars verslanir Stout og Slippfélagsins. Ekki er vitað til að fólk hafi slasast og ekki er talið að nokkur hafi verið í rýminu sem brann, en starfsfólk hafði þá þegar yfirgefið bifreiðaþjónustuna.

Bjóst við aðgerðum fram á nótt

Slökkviliðinu barst útkall klukkan 17.29 og tóku um 100 slökkviliðsmenn þátt í aðgerðum um kvöldið. Þá tóku um 20 lögreglumenn einnig þátt í aðgerðum, en girða þurfti af stórt svæði í kring sökum tíðra sprenginga í byggingunni. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði við Morgunblaðið á vettvangi seint í gærkvöldi að hann teldi að aðgerðir myndu standa yfir fram eftir nóttu.

„Við erum komin með tvo körfubíla á staðinn og svo erum við að beita froðu líka, sem á mjög vel við þegar um dekkjabruna er að ræða,“ sagði hann. Hjólbarðalager var í húsinu austanverðu og er hann að líkindum brunninn. Ljóst er að húsnæði og starfsemi N1 varð fyrir miklu tjóni í eldsvoðanum. Mikill og dökkur reykjarmökkur steig upp frá byggingunni og voru íbúar í nágrenninu beðnir um að loka gluggum. Brunahólf hússins gerðu mikið gagn að sögn Jóns en eldurinn logaði í tveimur ystu bilunum, að sunnanverðu. Töluverður reykur barst um hin bilin fjögur þótt þar hefði ekki komið upp eldur.

Afstýrðu frekari útbreiðslu

Þakið á byggingunni fuðraði upp nokkrum tímum eftir að kviknaði í og blasti þá við allra augum mikið eldhaf. Upp úr klukkan 21 var búið að ná ágætum tökum á eldinum en þó var ekki að fullu búið að ráða niðurlögum eldsins undir miðnætti í gærkvöldi.

Á tímabili óttaðist slökkviliðið að eldurinn næði að breiðast út í Hreyfilshúsið, sem gnæfir yfir Fellsmúla 24 að sunnanverðu. Tókst að afstýra því með slökkvistarfi á milli bygginganna tveggja.

Þröstur Ingvason, sölustjóri hjá Slippfélaginu, segir í samtali við Morgunblaðið að ljóst sé að verslunin verði ekki opnuð á næstu dögum. Starfsmenn voru í versluninni þegar eldurinn braust út. Hann fór sjálfur á vettvang til að fylgjast með og telur hann ekki ólíklegt að einhverjar vatnsskemmdir hafi orðið á versluninni vegna aðgerða, en rafmagni sló þar einnig út.