HM Sandra Erlingsdóttir var besti leikmaður íslenska liðsins á HM í Noregi, Danmörku og Svíþjóð og skoraði alls 34 mörk í sjö leikjum á mótinu.
HM Sandra Erlingsdóttir var besti leikmaður íslenska liðsins á HM í Noregi, Danmörku og Svíþjóð og skoraði alls 34 mörk í sjö leikjum á mótinu. — Ljósmynd/Jon Forberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir komst að því degi áður en hún hélt á sitt fyrsta stórmót með íslenska kvennalandsliðinu að hún væri barnshafandi en hún er í sambúð með Daníel Þór Ingasyni, leikmanni Balingen í þýsku 1

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir komst að því degi áður en hún hélt á sitt fyrsta stórmót með íslenska kvennalandsliðinu að hún væri barnshafandi en hún er í sambúð með Daníel Þór Ingasyni, leikmanni Balingen í þýsku 1. deildinni.

Sandra, sem er 25 ára gömul, er lykilmaður í landsliðinu og var meðal annars útnefnd handknattleikskona ársins 2023 hjá Handknattleikssambandi Íslands en hún er samningsbundin Metzingen í þýsku 1. deildinni þar sem hún er í lykilhlutverki.

Hún er uppalin hjá ÍBV en hefur einnig leikið með Val hér á landi, þar sem hún varð Íslands- og bikarmeistari árið 2019, en hún á að baki 32 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað 145 mörk.

„Mér líður ótrúlega vel og eins og er margoft búið að segja við mig þá reyni ég nú bara að njóta þess þessa dagana og er auðvitað mjög þakklát fyrir það líka,“ sagði Sandra í samtali við Morgunblaðið.

„Þetta var vissulega óvænt en á sama tíma var þetta velkomið líka. Þegar þú ert atvinnumaður í handbolta er erfitt að plana langt fram í tímann en það mætti segja að þetta hafi verið draumatímasetning fyrir handboltakonu. Ég er sett 4. ágúst en það vill svo skemmtilega til að það er sunnudagur á Þjóðhátíð okkar Vestmannaeyinga. Vonandi verð ég bara búin að eiga áður svo ég þurfi ekki að hanga ein uppi í sófa og horfa á alla stemninguna í gegnum samfélagsmiðla í símanum mínum,“ sagði Sandra og hló.

Spilaði ólétt á HM

Sandra var stödd í Lillehammer á æfingamóti með íslenska landsliðinu í lok nóvembermánaðar þegar hún komst að því að hún væri barnshafandi en daginn eftir hélt liðið svo til Stafangurs í Noregi þar sem það lék í D-riðli HM 2023 ásamt Frakklandi, Slóveníu og Angóla.

„Það var ofboðslega mikið sjokk þegar ég komst að því að ég væri ófrísk, ég get alveg viðurkennt það. Ég var samt sem áður á leiðinni á mitt fyrsta stórmót með landsliðinu og það yfirtók allt einhvern veginn. Ég var svo spennt fyrir mótinu og svo var líka langt síðan liðið fór síðast á stórmót þannig að ég pældi voðalega lítið í þessu meðan á mótinu stóð.

Ég var mjög tvístígandi með það hvort ég ætti að láta einhvern í læknateymi landsliðsins vita og ég tók svo þá ákvörðun að gera það ekki. Mér leið vel og fannst það þess vegna óþarfi. Ég deili herbergi með Andreu Jacobsen í landsliðsferðum og ég og Perla Ruth Albertsdóttir erum vinnufélagar. Þær vissu báðar að ég ætlaði að taka óléttupróf þannig að þær fengu fréttirnar beint í æð en ég lét ekki aðra vita á meðan HM var í gangi.“

Í skýjunum með fréttirnar

Sandra beið með að segja öðrum leikmönnum og starfsliði landsliðsins fréttirnar þangað til hún var búin í 12 vikna sónarnum.

„Það var gott að geta rætt þetta við bæði Andreu og Perlu og Perla á sjálf barn þannig að hún gat sagt mér hvað var eðlilegt tengt óléttunni og hvað ekki. Ég lét svo restina af liðinu vita eftir að ég var búin að fara í 12 vikna sónarinn og það voru auðvitað allir í skýjunum með fréttirnar. Sumir voru í smá sjokki og skildu ekki hvernig þær áttuðu sig ekki á því að ég væri ólétt á HM. Þórey Rósa Stefánsdóttir sagði mér það svo eftir á að hana hefði grunað þetta. Hún er auðvitað tveggja barna móðir og er búin að ganga í gegnum þetta allt saman. Ég, hún og Sunna Jónsdóttir vorum í fyrirliðateyminu á HM og eyddum mikla tíma saman þannig að það kom kannski ekkert sérstaklega á óvart að hana skyldi gruna þetta.“

Sandra leikur ekki meira með félagsliði sínu Metzingen, sem er í sjöunda sæti 1. deildarinnar með 14 stig, á tímabilinu en hún æfir þó með liðinu þrisvar til fjórum sinnum í viku.

„Ég mæti á æfingar með liðinu og tek þátt í allri upphitun fyrsta hálftímann eða svo. Þegar þær byrja svo að æfa taktík eða eru í mikilli snertingu þá færi ég mig yfir á hliðarlínuna og hleyp eða æfi styrk. Ég hef verið mjög heppin upp á það að gera að ég hef náð að fylgja eftir frábæru æfingaplani frá Elíasi Árna Jónssyni, styrkarþjálfara kvennaliðs ÍBV, og ég er mjög þakklát fyrir það.

Mér fannst ekkert mál að spila á HM og pældi lítið í óléttunni þá en eftir að ég fór í sónarinn og heyrði hjartsláttinn í fyrsta sinn breyttist allt. Ég spilaði einhverja tvo leiki eftir HM í Þýskalandi og mér leið mjög illa með allar snertingar og vildi helst ekki láta koma neitt við mig. Ég sá því ekki fyrir mér að geta spilað fleiri leiki og einbeiti mér núna algjörlega að æfingunum.“

Áskorun að láta vita

Það er ekki á hverjum degi sem leikmenn í þýsku 1. deildinni verða barnshafandi.

„Það var alveg smá áskorun að láta forráðamenn Metzingen vita af því að ég væri barnshafandi, ég skal alveg viðurkenna það. Ég var meðvituð um það að enginn leikmaður liðsins hafði orðið barnshafandi áður og það eru ekki margar mæður að spila í deildinni yfirhöfuð. Þær sem eiga börn eiga menn sem eru nánast heimavinnandi en Danni er sjálfur á fullu í handboltanum.

Ég fékk alveg spurningar um það hvort ég væri þá bara hætt í handbolta og að sjálfsögðu svaraði ég því neitandi. Allir í kringum félagið tóku þessum fréttum ofboðslega vel og ég fékk mikinn stuðning frá öllum sem var frábært enda átti ég ekkert endilega von á því enda ekki á hverjum degi sem leikmaður í deildinni verður óléttur.“

Ætla að spila á sama stað

Sandra er samningsbundin Metzingen út keppnistímabilið 2024-25, líkt og unnusti hennar Daníel Þór hjá Balingen.

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að við tökum bara stöðuna betur þegar samningar okkar renna út þar næsta sumar. Af þeim löndum sem við getum spilað í þá er líklega mesta harkið í Þýskalandi þegar kemur að ferðalögum og öðru. Þetta eru oft langir ferðadagar hjá okkur og þá hentar ekkert sérstaklega vel að vera með lítið barn.

Þetta fer líka aðeins eftir því hvenær ég kem til baka á handboltavöllinn. Það er erfitt að segja til um einhverjar dagsetningar eins og staðan er í dag. Það er allavega klárt mál að við erum ekki á leiðinni í eitthvert fjarsamband og það verður í algjörum forgangi hjá okkur að við getum verið saman sem fjölskylda og spilað á sama stað.“

Munu stilla upp sterku liði

Evrópumótið 2024 fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss og á íslenska landsliðið góða möguleika á að tryggja sér sæti á mótinu eftir að hafa byrjað undankeppni EM mjög vel.

„Það er rosalega erfitt að segja til um það hvort ég verði orðin klár í slaginn þegar lokakeppni EM hefst. Við þurfum að koma okkur á mótið til að byrja með, sem við ætlum auðvitað að gera, og ef allt gengur að óskum og engin vandamál koma upp þá er það alveg raunhæfur möguleiki finnst mér að ég verði orðin klár í slaginn þegar EM byrjar í nóvember.

Á sama tíma eigum við fullt af flottum leikmönnum í dag og það kemur alltaf maður í manns stað. Það voru margar fjarverandi hjá okkur á HM og þetta virðist aðeins fylgja kvennaboltanum. Við erum allar á barneignaraldri og það á það til að gerast að konur verði barnshafandi. Það er bara hluti af þessu en ég hef engar áhyggjur af því að við munum ekki stilla upp sterku liði eins og alltaf,“ bætti Sandra við í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason