Joshua Jefferson, bandarískur leikmaður toppliðs Vals í körfuknattleik, varð fyrir því óláni að slíta fremra krossband í hné í leik liðsins gegn Haukum í síðustu viku og er tímabilinu því lokið hjá honum

Joshua Jefferson, bandarískur leikmaður toppliðs Vals í körfuknattleik, varð fyrir því óláni að slíta fremra krossband í hné í leik liðsins gegn Haukum í síðustu viku og er tímabilinu því lokið hjá honum. Finnur Freyr Stefánsson staðfesti tíðindin í samtali við Vísi. Vænta má þess að Jefferson verði frá í um níu mánuði vegna meiðslanna.

Brasilíski framherjinn Igor Thiago gengur til liðs við enska knattspyrnufélagið Brentford í sumar. Skrifar hann undir fimm ára samning hjá Lundúnafélaginu, sem íslenski landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson leikur með. Thiago kemur til félagsins frá Club Brugge á 30 milljónir punda og hefur skorað 16 mörk í 23 leikjum í belgísku A-deildinni á tímabilinu.

Alls voru 15 íslensk mörk skoruð í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í gærkvöldi. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði átta mörk fyrir Kolstad í 29:27-tapi gegn Pick Szeged í A-riðlinum og var markahæstur í leiknum. Kolstad er í erfiðum málum í riðlinum, í 7. sæti af átta liðum. Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk fyrir Magdeburg í 28:22-sigri á Wisla Plock í B-riðlinum og Bjarki Már Elísson skoraði tvívegis fyrir Veszprém í stórum útisigri gegn Porto, 40:26, einnig í B-riðli. Magdeburg er í 2. sæti og Veszprém í 3. sæti riðilsins.

Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Crystal Palace, veiktist er hann stýrði æfingu liðsins í gær og var fluttur á sjúkrahús. Fréttamannafundi sem átti að fara fram í gær var af þeim sökum aflýst. Líðan Hodgsons, sem er 76 ára gamall, er stöðug og mun hann gangast undir frekari rannsóknir.

Franski knattspyrnumaðurinn Kylian Mbappé hefur staðfest það endanlega að hann hyggist ekki skrifa undir nýjan samning hjá París SG og fari því annað á frjálsri sölu í sumar. The Athletic greindi frá í gær að Mbappé hefði tilkynnt PSG formlega um fyrirætlanir sínar. Hann mun ekki virkja ákvæði í samningi sínum um að framlengja samninginn til sumarsins 2025 og er orðaður við för til Real Madríd í sumar.