2024 Landsmenn eru hrifnir af Guðna forseta sem kveður í sumar.
2024 Landsmenn eru hrifnir af Guðna forseta sem kveður í sumar. — Morgunblaðið/Eggert
„Mér þykir vænt um að hafa notið stuðnings minna samlanda í þessu embætti,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti þegar honum eru kynntar niðurstöður Þjóðarpúls Gallups sem sýna mikla ánægju landsmanna með störf hans

„Mér þykir vænt um að hafa notið stuðnings minna samlanda í þessu embætti,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti þegar honum eru kynntar niðurstöður Þjóðarpúls Gallups sem sýna mikla ánægju landsmanna með störf hans.

Guðni segir það ekki sjálfgefið á tímum aukinna öfga og óskammfeilni í samfélagsumræðu að geta búist við svona góðum stuðningi. „Mér þykir líka vænt um allar þær stuðningskveðjur sem ég hef fengið nú frá áramótum. Íslendingar eru heilsteyptir, vinalegir og réttsýnir, upp til hópa,“ segir forsetinn við Morgunblaðið.

Í niðurstöðu Gallups kemur fram að vinsældir Guðna hafi farið sífellt vaxandi. Árið 2021 voru 73% landsmanna ánægð með störf forsetans, en núna er það 81% landsmanna og virðast vinsældir forsetans aldrei hafa verið meiri nú þegar hann hefur tilkynnt þjóðinni að hann ætli að láta af embætti í sumar.

Í könnun Gallups kemur fram að Guðni nýtur meiri vinsælda meðal kvenna en karla og meðal háskólamenntaðra en þeirra sem hafa minni menntun.

Fylgjendur Samfylkingarinnar eru ánægðastir með forsetann, en kjósendur Miðflokksins minnst ánægðir. Guðni nær næstum flugi Ólafs Ragnars Grímssonar, sem naut stuðnings 82-87% þjóðarinnar fyrstu árin í embætti forseta. doraosk@mbl.is