Módelteikning Í dönskum listaskólum þótti á sínum tíma ekki viðeigandi að ungar konur teiknuðu nakin módel, en slíkt taldist eðlilegur hlutur í Frakklandi. Þessar myndir gerði Marie á námstíma sínum í París 1888-1889.
Módelteikning Í dönskum listaskólum þótti á sínum tíma ekki viðeigandi að ungar konur teiknuðu nakin módel, en slíkt taldist eðlilegur hlutur í Frakklandi. Þessar myndir gerði Marie á námstíma sínum í París 1888-1889. — Morgunblaðið/Silja Björk Huldudóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Marie Krøyer nefnist forvitnileg sýning sem sýnd er hjá listasafninu Den Hirschsprungske Samling í Kaupmannahöfn um þessar mundir. Á sýningunni, sem og í rúmlega 300 blaðsíðna samnefndri bók sem gefin var út samhliða sýningunni, er sjónum beint að lífi og list Marie Krøyer (1867-1940)

Af listum

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Marie Krøyer nefnist forvitnileg sýning sem sýnd er hjá listasafninu Den Hirschsprungske Samling í Kaupmannahöfn um þessar mundir. Á sýningunni, sem og í rúmlega 300 blaðsíðna samnefndri bók sem gefin var út samhliða sýningunni, er sjónum beint að lífi og list Marie Krøyer (1867-1940). Fyrri eiginmaður hennar, Peder Severin Krøyer (1851-1909), sem hefur stjörnustatus í Danmörku sem einn af hinum svonefndu Skagenmálurum, fangaði guðdómlega fegurð hennar í verkum sínum. En áður en Marie varð eiginkona og músa, fyrst P.S. Krøyers og síðan sænska tónskáldsins Hugos Alfvéns (1872-1960), átti hún sér draum um að verða sjálf myndlistarmaður. Málaradrauminn lagði hún að stærstum hluta til hliðar þegar eiginkonu- og móðurhlutverkið tók yfir, en hún fann sér leið til að þjóna listagyðjunni í handverki, húsgagna- og innanhússhönnun sem samrýmdist betur húsmóðurskyldunum. Sýningin og bókin er afrakstur samstarfs milli Skagens Kunstmuseer, Den Hirschsprungske Samling og Prins Eugens Waldemarsudde.

Marie, fædd Triepcke, byrjaði ung að mála og fékk tilsögn í nokkrum einkalistaskólum í Danmörku áður en hún þreytti frumraun sína á vorsýningu Charlottenborg 1888. Stuttu síðar trúlofaðist hún Robert Hirschsprung, en sleit sambandinu fljótlega þegar hún gerði sér ljóst hversu afbrýðisamur hann að upplagi var. Síðar sama ár hélt hún ein til Parísar til að nema málaralistina og þar kynntist hún verðandi eiginmanni sínum, P.S. Krøyer, en þau giftu sig eftir stutt kynni árið 1889.

Næstu árin dvöldu þau reglulega á Skagen þar sem hann málaði nokkrar af þekktustu myndum sínum, meðan hún sinnti heimilinu og dótturinni Vibeke sem fæddist 1895. Árið 1892 hannaði hún sitt fyrsta húsgagn og átti á þessum árum stóran þátt í því að hanna og innrétta húsnæði þeirra hjóna á Skagen og í Bergensgade í Kaupmannahöfn. Jafnframt tók hún að sér ýmis hönnunarverkefni fyrir hótel, sveitasetur og einkaheimili, en hún var sjálflærð þegar kom að slíkri hönnun. Hún var alla tíð undir sterkum áhrifum frá bresku Arts and Crafts-hreyfingunni, sem hafði fagurfræði og handbragð til handa fjöldanum að leiðarljósi. Gegnumgangandi þema í allri hönnun Marie var þrí- og fjórlaufa smári sem og sólblóm, auk þess sem hún lagði mikla áherslu á heimilið sem organíska, fagurfræðilega heild.

Með árunum ágerðust veikindi P.S. Krøyers, sem talinn er hafa glímt við geðhvarfasýki, og skildu þau Marie loks 1906, en hún hafði þá þegar tekið saman við Hugo Alfvén. Tveimur árum síðar settust Marie og Hugo, ásamt Margitu, þriggja ára gamalli dóttur sinni, að í sænsku Dölunum. Þar stýrði Marie allri uppbyggingu og hönnun á húsnæði þeirra hjóna sem vakti mikla athygli enda nýmæli í Svíþjóð að kona sæi um slíkt. Samtímis hannaði hún margvísleg húsgögn, en markmið bæði sýningar og bókar er einmitt að skoða og greina hvernig Marie fann listsköpun sinni farveg á tímum þegar konur þóttu eiga lítið erindi inn í hinn karllæga heim málaralistarinnar. Hjónabandið leystist upp 1936 og þá flutti Marie til Stokkhólms þar sem hún bjó til æviloka.

Signe Havsteen, einn þriggja sýningarstjóra og einn sjö höfunda bókarinnar, bendir á að í þeim málverkum sem eftir Marie liggja megi sjá að hún málaði jöfnum höndum landslag, uppstillingar og portrett. Stíll hennar þykir skera sig frá samferðafólkinu að því leyti að myndir hennar eru hrárri og tjáningarfyllri en þá tíðkaðist. Havsteen færir rök fyrir því að meta eigi listrænt framlag Marie í heild sinni án þess að aðskilja málverkin frá handverkinu og hönnuninni. Bendir hún í því samhengi á að handverk kvenna hafi að stórum hluta verið skrifað út úr listasögunni og færir rök fyrir því að tímabært sé að endurskoða og endurskrifa listasöguna með ferskum augum. Sýningin og bókin um Marie Krøyer er einmitt tilraun til þess. Þótt sýningunni fari senn að ljúka lifir bókin áfram og verður enginn svikinn af því að sökkva sér ofan í áhugavert efnið.