Margrét Ólafsdóttir fæddist á Ísafirði 19. febrúar 1952. Hún varð bráðkvödd á Landspítalanum við Hringbraut 4. febrúar 2024.

Margrét var annað barn Sesselju Ásgeirsdóttur, f. 28. júlí 1932, d. 31. janúar 1993, og Ólafs Halldórssonar, f. 16. júlí 1929, d. 19. júní 1999. Systkini Margrétar eru Hugljúf, f. 1. apríl 1950, Hrólfur, f. 23. apríl 1954, Guðjón, f. 5. nóvember 1958, d. 28. júlí 1994, Ásgerður, f. 19. október 1955, d. 24. apríl 2020, Halldór, f. 13. janúar 1961, Einar, f. 1. maí 1962, og Elín, f. 23. júní 1965.

Margrét giftist 21. september 1972 eftirlifandi eiginmanni sínum, Brynjólfi Helga Bjarnasyni, f. 29. desember 1951. Börn þeirra eru: 1) Bjarni Elís, f. 10. október 1972, kvæntur Kristínu Jóhannesdóttur, f. 28. febrúar 1976. Börn þeirra eru Ásdís Eva, f. 26. desember 2006, og Tómas Ingi, f. 22. júlí 2010. 2) Halldóra Ólöf, f. 22. maí 1977. Synir hennar eru Maron Óli, f. 22. mars 2022, og Breki Elí, f. 22. mars 2022. 3) Brynjar Már, f. 5. febrúar 1983, giftur Gunnari Má Hoffmann, f. 22. febrúar 1986. Börn þeirra eru Aya Ginevra, f. 25. febrúar 2020, og Nizar Stefano, f. 22. júlí 2021.

Margrét vann í Íshúsfélagi Ísfirðinga í 34 ár. Svo sá hún um mötuneytið í Stjórnsýsluhúsi Ísfirðinga til ársins 2007 en þá fluttu þau Brynjólfur búferlum til Reykjavíkur. Í Reykjavík hóf hún störf í mötuneyti Vogaskóla og vann þar til ársloka 2019 þegar hún hætti störfum vegna aldurs.

Margrét hafði mjög gaman af því að spila, sérstaklega kana og félagsvist. Hún byrjaði að stunda golf á Ísafirði og gekk strax í Golfklúbb Reykjavíkur þegar þau fluttu í bæinn. Hún hafði einnig mikinn áhuga á bakstri og matseld.

Útförin fer fram í Grafarvogskirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13. Streymi frá útför: https://mbl.is/go/vxms7

Elsku besta mamma og amma.

Ég sit hérna tóm, niðurbrotin og lítil í mér að reyna að skrifa nokkur orð um þig rúmlega viku eftir að þú skrappst aðeins út til að kaupa læri og komst ekki til baka.

Þú varst kletturinn minn og ég veit hreinlega ekki hvernig við strákarnir eða bara við öll sem eftir sitjum í fjölskyldunni eigum að komast af án þín. Mig langar bara að stoppa lífið núna, en sem betur fer er ég með gullmolana þína sem draga mig áfram í lífinu. Það að þeir munu ekki fá að alast upp með þér finnst mér langerfiðast af öllu þar sem þú varst þeirra uppáhaldsmanneskja. Stuðningurinn sem ég fékk frá þér eftir að ég átti er líka ómetanlegur og alltaf varstu tilbúin að aðstoða mig. Ég man einn morguninn þegar þú varst mætt heim til mín klukkan sex um morgun þegar við vorum öll þrjú með ælupest eins og ekkert væri sjálfsagðara. Það var oft grínast með það að það væru ekki margir sem væru með rúmlega sjötuga au-pair/barnapíu. Ekkert verkefni var of stórt fyrir þig og gleymi ég því aldrei þegar ég kom að þér í bílnum mínum, fastri aftur í á milli bílstólanna, þar sem þú hafðir bara vippað þér þangað með pelana þegar strákarnir höfðu orðið órólegir á meðan ég skrapp inn í búð.

Ég er svo glöð að hafa erft áhuga þinn á spilum og þakklát fyrir ófáar spilastundirnar okkar, hvort sem það var kani, kanasta eða þriggja stokka spilið. Golfið var líka sameiginlegt áhugamál okkar og þótt ég hafi ekki nema brotabrot af þínum áhuga er ég líka ótrúlega þakklát fyrir allar stundirnar okkar á golfvellinum og að þér hafi tekist að smita golfáhuga þínum á nánast alla í fjölskyldunni.

Þú varst mjög hreinskilin og hafðir kaldan húmor enda eru það eflaust ekki margar sjötugar konur sem vippa sér í skottið á bíl til að bregða fertugri dóttur sinni eins og þú gerðir við mig í Flórída um árið.

Elsku besta mamma mín, ég mun sjá til þess að strákarnir mínir munu alltaf þekkja þig þótt þú sért ekki lengur hjá okkur. Það var ekki fyrr en rúmri viku eftir að þú fórst sem ég treysti mér til að sýna þeim mynd af þér og þeir ruku beint á hana og sögðu báðir „ég kúsa ömmu mína“.

Ég veit að það verður vel tekið á móti þér hinum megin, afi er eflaust búinn að gefa í kana fyrir ykkur, Guðjón tilbúinn með golfsettið, Ása með bingóspjöldin og þið amma getið dundað ykkur saman í eldhúsinu.

Takk fyrir allt elsku mamma og amma okkar, við elskum þig og söknum þín endalaust.

Halldóra Ólöf,
Maron Óli og
Breki Elí.

Það er ljúft að elska en mikið ofboðslega er sárt að sakna.

Elsku mamma!

Elsku mamma mín, mikið finnst mér lífið ósanngjarnt að hafa tekið þig frá okkur svona snöggt og alltof fljótt. Það kemur reyndar ekki á óvart að þú hafir flýtt þér að fara því það var alls ekki þinn stíll að dvelja lengi við hlutina og orðatiltækið „það er ekki eftir það sem er búið“ hefur alltaf átt vel við þig. Við vorum samt ekki búin að öllu og áttum eftir að skapa svo miklu fleiri minningar með barnabörnunum þínum sem elskuðu ömmu sína svo mikið.

Það sárasta við þetta allt saman er að ég er ekki bara að missa dásamlega mömmu heldur er ég líka að missa skemmtilega og góða vinkonu sem engan bilbug var á að finna þrátt fyrir að vera 71 árs.

Við fjölskyldan höfum alltaf verið náin og þar spilaðir þú lykilhlutverk. Fjölskyldan var þér allt og það á bæði við um nærfjölskylduna okkar en ekki síður stórfjölskylduna, systkini þín og systkinabörn. Nú er verkefnið okkar að halda minningu þinni á lofti og rifja upp allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Það er svo margs að minnast þegar ég hugsa um þig. Það er leitt fyrir þau sem lesa þessa grein að margt af því sem mig langar að minnast er ekki prenthæft því húmorinn þinn var bæði beinskeyttur og kaldhæðinn. Það er því nokkuð ljóst hvaðan minn svarti húmor og kaldhæðni kemur.

Þó að sorgin sé sár og söknuðurinn mikill þá er ég samt þakklátur fyrir svo margt. Við fjölskyldan höfum átt svo dásamlegar stundir í gegnum allt lífið og sköpuðum minningar sem verður ljúfsárt að rifja upp núna þegar þú ert farin. Ég er svakalega þakklátur í dag fyrir að við höfum haft sama áhugamálið í allan þennan tíma því allir golfhringirnir hafa gefið okkur svo margar góðar samverustundir sem er gott að minnast núna.

Ég verð ævinlega þakklátur fyrir þá ákvörðun ykkar pabba að flytja suður árið 2007. Það var ekki auðvelt að flytja eftir að hafa búið í meira en hálfa öld á sama stað en þið vilduð koma nær okkur fjölskyldunni og sáuð ekki eftir því. Við höfum fyrir vikið fengið að eyða miklum tíma saman og skapað svo margar og ógleymanlegar minningar.

Þú varst ekki kona margra orða en það kom ekki að sök, við vissum öll og vitum enn hversu mikið þú elskaðir okkur og þú sýndir stuðning þinn og ást frekar í verki en í orði. Þá höfum svo sannarlega notið góðs af því undanfarið ár hversu mikill stuðningur var að hafa þig nálægt okkur.

Mamma! Þú varst ekki tilbúin að kveðja og áttir svo margt ógert í lífinu. Þú vildir vera til staðar og upplifa lífið með barnabörnunum og sérstaklega með litlu tvíburunum sem þú áttir svo stóran hlut í og þeir í þér.

Lífið skilur okkur eftir með stórt skarð sem ómögulegt verður að fylla. Við munum þó nota öll tækifæri til að minnast þín og segjum litlu krökkunum sögur af ömmu sinni sem býr núna á tunglinu eftir að hafa fokið þangað að sögn Ayu litlu.

Takk fyrir allt elsku mamma mín! Ég elska þig endalaust.

Það er sárt að sakna en það er líka ofboðslega ljúft að elska allar góðu minningarnar um þig.

Brynjar.

Yndislega og frábæra amma Magga okkar. Orð geta ekki lýst því hversu mikið við söknum þín. Sjokkið og tárin sem komu við andlát þitt er alveg ólýsanlegt þar sem við áttum eftir að skapa svo miklu fleiri yndislegar minningar með þér.

Amma var algjör golfari og vitum við vel að hún hefur ekki verið lengi að grípa í kylfurnar uppi á himni. Við spjölluðum og spiluðum golf saman og verðum við alltaf þakklát fyrir öll skilaboðin og hrósin sem við fengum frá ömmu eftir mót, þar sem hún var svo stolt af okkur, sama hvernig okkur gekk. Amma fylgdist nefnilega alltaf með okkur, hvort sem það var í gegnum netið eða mætti sjálf á golfvöllinn til að horfa á okkur.

Allra næturgistinganna hjá ömmu og afa verður sárt saknað, þar sem við bökuðum, spiluðum, föndruðum og hlógum saman. Amma Magga gerði besta grjónagraut í heimi og þurftum við ekki einu sinni að biðja hana að elda hann þegar við vorum hjá henni því hún vissi alltaf hvað við vildum.

Amma var alltaf bakandi. Það voru alltaf til kökur heima hjá ömmu og afa enda var hún búin að baka heilt borð af kökum morguninn sem hún lést.

Við lofum þér að passa upp á afa, sem var þér svo kær.

Sofðu rótt elsku amma okkar.

Ásdís Eva og Tómas Ingi.

Elsku Magga, þetta fannst mér ekki tímabært. Auðvitað kvaddir þú núna eins og þú gerðir í lífinu, bara alls ekki. Ef það heyrðist „jæja“ þá var öruggt að þú værir komin út að dyrum ef ekki bara út. Eftir sitjum við og vitum ekki hvaðan á okkur stendur veðrið. En minningarnar eru margar og góðar, öll ferðalögin okkar innanlands og erlendis og alltaf var ég velkomin sem þriðja hjólið, aldrei spurt að því. Það sem við gátum spilað og eftir að þú fluttir suður var eins og við þyrftum að vinna upp tíma og oft var spilað lengi og mikið. Sumarbústaðarferðin okkar í október sl. var svo dásamleg með litlu drengjunum okkar og hver svefntími þeirra notaður í spil, svo var borðaður góður matur og bara slakað. Það er nú ekki hægt að minnast þín án þess að tala um allar veislurnar sem þú hristir fram úr erminni án þess að hafa mikið fyrir því. Enda skildir þú fjölskylduna eftir með kökuhlaðborð þegar þú yfirgafst þennan heim. Eins minnist ég þess þegar þú hringdir í mig fyrir nokkuð mörgum árum og sagðir: „Ella, komdu, við erum að fara að baka pönnukökur.“ „Ég kann það ekki,“ sagði ég. „Ég veit,“ sagði hún, „ég ætla að kenna þér það,“ sem hún og gerði. Takk Magga fyrir allt og allt. Veit þú ert umvafin fólkinu okkar þar sem þú ert stödd núna og örugglega byrjuð að spila þar.

Elsku Binni, Bjarni, Halldóra, Brynjar Már, Kristín, Gunnar Már, Ásdís Eva, Tómas Ingi, Aya, Nizar, Maron Óli og Breki Elí, við verðum að klóra okkur fram úr þessu saman. Veit hún lítur til með okkur.

Minningin lifir.

Elín (Ella) systir.

Elsku Magga frænka er farin frá okkur. Allt of snemma og allt of brátt. Hún fór á sinn hátt eins og henni var einni lagið. Magga fyllti á ísskápinn fyrir fólkið sitt og passaði að nóg var til af mat og kökum áður en hún færi af stað í sitt síðasta ferðalag.

Magga frænka var þeim kosti gædd að hún setti ávallt hagsmuni ástvina sinna ofar sínum eigin. Hún var ávallt tilbúin að stökkva til og hjálpa þeim sem þurftu á aðstoð hennar að halda og alltaf tilbúin að leggja hönd á plóg. Þegar bróðir hennar (pabbi minn) fór í gegnum sín veikindi á árunum 1990 til 1994 var hún ávallt tilbúin að hjálpa til með að líta eftir okkur systkinunum og gerði sitt til þess að reyna að gera lífið aðeins bærilegra fyrir okkur fjölskylduna. Ég man að mér leið alltaf vel hjá Möggu og Binna í Miðtúninu og þegar foreldrar mínir voru í læknastússi í höfuðborginni var alltaf gott að koma til þeirra.

Magga var afar bóngóð kona og var ávallt mjög gott að leita til hennar með alla hluti, hvort sem var að fá aðstoð frá henni við bakstur, spjalla eða bara til að njóta samvista. Þegar við Helga Sólveig konan mín vorum að fara að skíra dætur mínar hringdi ég í Möggu og bað hana um að baka fyrir mig uppáhaldskökurnar mínar til að bjóða upp á í veislunum, Dísudraum og Konfektköku. Magga þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um heldur jánkaði þessu strax og mætti í veislurnar með kökurnar góðu.

Í apríl í fyrra vorum við hjónin að fara að ferma eldri dótturina og ég sá mér því leik á borði og hringdi í Möggu og bað hana um að baka fyrir mig Dísudraum og konfektköku. Það stóð ekki á svarinu, já, auðvitað geri ég það, Gummi minn. Henni reiknaðist til að við þyrftum kannski 2-3 stykki af hvorri köku miðað við fjölda gesta. Svo rann fermingardagurinn upp og Magga mætti með kökurnar að sjálfsögðu áður svo kökurnar yrðu komnar ef henni skyldi seinka. Hún mætti ekki með 2-3 kökur af hverri sort heldur 5 stykki. Magga þekkti nefnilega frænda sinn alveg upp á hár. Ég fór vitaskuld skælbrosandi heim með afganginn af Dísudraumum og konfektkökum og beint í frysti. Þessi lager dugði mér langt fram á sumar. Magga vissi alveg hvað hún var að gera þarna.

Elsku frænka mín. Núna ertu komin í sumarlandið, landið þar sem pabbi minn talaði alltaf um að golfvellirnir væru grænir allt árið um kring og þar væri alltaf gott veður. Þér ætti nú ekki að leiðast það. Nú röltið þið systkinin saman nokkra hringi og segið sögur og hlægið. Eftir golfhring farið þið svo til ömmu, afa og Ásu frænku og borðið saman einhverja veislumáltíð.

Binni, Bjarni, Halldóra, Brynjar og fjölskyldur. Mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar á þessum erfiðu tímum. Minning um hana Möggu frænku sem verður saknað svo sárt mun lifa áfram.

Takk fyrir allt, elsku besta Magga frænka.

Guðmundur frændi.

Í dag kveðjum við okkar kæra vinkonu, Möggu Óla, vestfirskt eðaleintak og golffélaga. Okkur er tregt tungu að hræra í ljósi þess hversu skyndilegt fráfall hennar var. Þetta var algerlega þvert á okkar plön varðandi framgang í golfinu næsta sumar þar sem háleit markmið voru höfð að leiðarljósi. Þó ekki væri nema til að mæta hækkandi félagsgjöldum samfara aldri. Skítt með forgjöfina, eins og Magga sagði gjarnan, lækkun á henni var ekki markmiðið, aðalatriðið var að njóta góðs félagsskapar í spjalli milli teigs og gríns.

Okkur til skemmtunar vísum við golfvinkonurnar gjarnan í frasana hennar Möggu sem einkenndu skapgerð hennar og kímnigáfu. Eftir ófullkomið högg sagði hún gjarnan já já, þetta var bara gott hjá mér, það var ekkert verið að kvarta. Og þegar okkar frammistaða var léleg og við ekki sáttar sagði okkar kona í rólegheitum: Viltu ekki bara fara að grenja! Ef kvartað var yfir rysjóttri veðráttu kom: Það er ekkert að þessu veðri.

Magga var óþrjótandi í að deila mataruppskriftum, enda af nægtabrunni að taka. Hún var í essinu sínu þegar hún talaði um mat. Eftirréttir og kökur voru hennar sérgrein, hún ljómaði öll þegar hún talaði um bakstur og sagði: Sykurlausar kökur eru ekki kökur. Þegar við spurðum hvað við ættum að hafa í kvöldmatinn stóð ekki á svari: Ég eldaði svo góðan mat í gærkvöldi … svo útlistaði hún bragð og eldunaraðferð og sagði: Ég sendi þér uppskriftina á eftir.

Kæra vinkona, um leið og við sendum fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur þökkum við fyrir ótal skemmtilegar stundir. Við eigum eftir að sakna þín óendanlega en erum jafnframt innilega þakklátar fyrir dýrmæta samveru í fallegu umhverfi á Íslandi og víðar.

Erla, Guðrún og Kristrún.

Í dag kveð ég samstarfsmann minn og góðan félaga til margra ára, Margréti Ólafsdóttur eða Möggu Óla eins og hún var alltaf kölluð. Hún hóf störf við Vogaskóla sem matráður árið 2007 og þvílíkt lán að fá hana inn í samstarfshópinn. Ég þekkti hana frá fyrri tíð þegar við bjuggum báðar á Ísafirði og vissi að ef mér tækist að fá hana til starfa við skólann yrði það skólanum mikill ávinningur. Matráðar við skóla gegna í raun einu af lykilhlutverkum í velferð nemenda og starfsmanna og eru ómissandi í skólastarfinu og gera daginn betri, sérstaklega þegar gott fólk ræðst þar til starfa.

Í skólanum voru starfsmannafundir í lok dags og margir orðnir þreyttir eftir eril dagsins. Þá brást það ekki að Magga töfraði fram meðlæti hvort sem það voru brauðtertur, marengstertur eða annað góðgæti og þá lyftist heldur betur brúnin á mannskapnum.

Magga Óla var um margt einstök kona. Hún var ósérhlífin, sérstaklega bóngóð og lagði sig fram um að leysa fljótt og vel þau verkefni sem henni voru falin. Hún stóð vaktina alla daga allan daginn. Hún var traust, ákveðin og vel metin. Hún gat verið hrjúf í tilsvörum ef henni mislíkaði eitthvað en undir þessu hrjúfa yfirborði leyndist hlýja og leiðbeinandi umhyggja.

Á lífsleiðinni hittum við fyrir fólk á hverjum tíma og stað og verðum því samferða í stuttan eða lengri tíma, allt eftir því hvernig kynnin verða. Sum marka spor sem fylgja manni alla tíð og svo var um Möggu Óla. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa verið þessari einstöku konu samferða á lífsleiðinni.

Brynjólfi, börnum þeirra og fjölskyldu ásamt öðrum ástvinum votta ég mína dýpstu samúð.

Ein af annarri birtast

okkar samfylgdarstundir,

hlýjar í huga mér.

(Jakobína Sigurðardóttir)

Blessuð sé minning Möggu Óla.

Jónína Ólöf Emilsdóttir.