Anna Guðmunds fæddist 11. maí 1946. Hún lést 28. janúar 2024.

Útför fór fram 12. febrúar 2024.

Við vorum harmi slegin þegar fréttin um andlát Önnu barst okkur. Hún var félagi okkar í fjárbúskapnum í Reykjavík um nær 30 ára skeið, orðin ritari í stjórn Fjáreigendafélags Reykjavíkur á aðalfundinum 1997, sinnti því trúnaðarstarfi vel fram yfir aldamót og vann einnig félaginu vel á margan annan hátt fyrr og síðar. Hún var félagslynd, jákvæð og dugleg, og lagði alltaf gott til málanna enda þekkti hún vel þarfir reykvískra fjárbænda. Tómstundabúskapur Önnu var til fyrirmyndar, örbúskapur eins og hún kallaði kinda- og hestahald sitt, sem hún sinnti af áhuga og með umhyggju, einkum með aðstoð Haraldar. Henni þótti vænt um gripina sína enda sannur dýravinur. Fjöldanum var stillt í hóf og öllu var snyrtilega fyrirkomið, bæði í húsunum og á lóðinni í Fjárborg. Þar var komið upp aðskildum hólfum fyrir kindur og hesta og eftir sauðburð á heppilegum tíma í maí, miðað við aðstöðuna í Fjárborg, gátu lömbin komist inn á vel gróinn skika til smugubeitar. Það var ánægjulegt að vera með Önnu og fólkinu hennar í réttum á haustin, hvort sem var í Fossvallarétt eða Húsmúlarétt en í henni vorum við dilkfélagar og einnig skilamenn fyrir Reykjavík og Kópavog um árabil. Ævinlega úrræðagóð og létt í lund. Við sendum hvort öðru fréttir um fjárbúskapinn, mest í tölvupóstum sem hún svaraði alltaf fljótt og vel, svo sem um sauðburð og sauðgróður á vorin, og heimtur og eftirleitir á haustin. Segja má að við höfum verið á sömu bylgjulengd í þessum efnum og því sakna ég þessara góðu og gefandi samskipta.

Mér finnst við hæfi að geta þess hér að Anna og Haraldur voru á meðal þeirra félaga í fjárbúskapnum sem veittu mér mikla hvatningu og stuðning þegar ég var að vinna við bók um sauðfjárbúskap í Reykjavík og sögu Fjáreigendafélagsins sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út fyrr í vetur. Myndir frá Haraldi, sem er snjall ljósmyndari, komu þar að góðu gagni svo sem sjá má í bókinni. En í sjóði minninganna ber þó hæst þá umhyggjusemi sem Anna sýndi mér og Svanfríði konu minni fyrir réttu ári þegar ég lá slasaður á sjúkrastofnunum eftir bílslys í mikilli hálku í Hveradalabrekku á Hellisheiði. Bataóskir og hugulsemi Önnu reyndust mér og Svanfríði ómetanlegur andlegur stuðningur á þessum erfiða tíma sem við metum mikils.

Önnu er sárt saknað og við sendum Haraldi og fjölskyldunni innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur R. Dýrmundsson.