Kristján Pétur Þórðarson fæddist á Innri-Múla á Barðaströnd 14. maí 1925. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 8. febrúar 2024.

Foreldrar Kristjáns voru Þórður Ólafsson, f. 24. ágúst 1887, d. 10. apríl 1984, og Steinunn Björg Júlíusardóttir, f. 20. mars 1895, d. 13. febrúar 1984, búendur á Innri-Múla á Barðaströnd. Kristján ólst upp í hópi níu systkina á Innri-Múla. Hin voru: Jónasína Björg í Tungumúla, Ólafur Kristinn í Reykjavík, Jóna Jóhanna á Patreksfirði, Júlíus Óskar á Skorrastað, Björgvin í Hafnarfirði, Karl í Reykjavík, Steinþór í Skuggahlíð
og Sveinn Jóhann á Innri-Múla.

Kristján kvæntist 23. október 1954 Valgerði Kristjánsdóttur, f. 5. nóvember 1932 á Litlabæ í Ögurhreppi. Börnin eru sex: 1) Snæbjörn, f. 29. ágúst 1954, kvæntur Sigurlaugu Sigurðardóttur, f. 21. mars 1958. Börn þeirra: Valgerður Þórdís, f. 1977, gift Raymond Normann, þau eiga einn son. Kristján Þórður, f. 1980, kvæntur Díönu Lynn Simpson, þau eiga þrjú börn. 2) Finnbogi Sævar, f. 21. júní 1956, d. 14. júní 2020, kvæntur Ólöfu Sigríði Pálsdóttur, f. 6. mars 1961. Börn þeirra: Guðrún, f. 1978, gift Steinari Ríkharðssyni, þau eiga tvö börn. Páll, f. 1982, hann á þrjú börn. Kristján, f. 1988, kvæntur Elínu Eyjólfsdóttur, þau eiga tvö börn. Hafþór, f. 1991, kvæntur Ólöfu Ósk Guðmundsdóttur, þau eiga tvö börn. 3) Gísli, f. 16. september 1957, kvæntur Anne Ånstad, f. 11. júlí 1962. Börn þeirra: Jenný, f. 1999. Jens, f. 2003. 4) Þórhildur Guðbjörg, f. 27. apríl 1964, gift Sigurði Mar Halldórssyni, f. 15. febrúar 1964. Dætur þeirra: Urður María, f. 1989, gift Ásgrími Helga Gíslasyni og eiga þau einn son. Sara Björk, f. 1989, sambýlismaður David Willemous Jensen. 5) Steinunn Jóna, f. 13. október 1965. Börn hennar: Sigurhjörtur, f. 1985, sambýliskona Nina Garmo. Helga Valgerður, f. 1987, gift Kára Brekasyni, þau eiga þrjú börn. 6) Erla Bryndís, f. 16. apríl 1968. Börn hennar: Fanney, f. 1992, sambýlismaður Stefán G. Sigurbjörnsson, þau eiga einn son. Egill, f. 1996, sambýliskona Jóhanna Gréta Hafsteinsdóttir, þau eiga einn son.

Kristján og Valgerður bjuggu á Breiðalæk á Barðaströnd frá 1955 til 2018. Þau reistu þar nýbýli frá grunni með húsum og ræktun. Eftir fermingu var Kristján til sjós á togara en einnig á vertíðum sunnanlands og við jarðvinnslu vestra. Hann var í Héraðsskólanum í Reykjanesi vetrartíma rúmlega tvítugur.

Kristján var um langt árabil forystumaður í félagsmálum í heimasveit sinni auk þess að stunda búskap og útgerð. Formaður Ungmennafélagsins, sýslunefndarmaður 1966-1970 og oddviti frá 1970-1986, í sauðfjársjúkdómanefnd og sótti þing Fjórðungssambands Vestfjarða. Hafði frumkvæði að byggingu sundlaugar, félagsheimilisins Birkimels og mjólkurstöðvar á Patreksfirði. Hann var Alþýðuflokksmaður og var á framboðslistum flokksins vestra. Kristján beitti sér ötullega í skólamálum, var formaður skólanefndar, rak einkaskóla fyrir unglinga einn vetur og stóð svo fyrir byggingu grunnskóla á Barðaströnd og húsa á Krossholtum. Hann lét bora eftir heitu vatni fyrir hitaveitu þar. Stofnaði með fleirum Saumastofuna Strönd 1978 og var framkvæmdastjóri hennar til 2016. Kristján gaf út tvær bækur: Sú kemur tíð (2005) og Vegir og vegleysur (2006) hjá eigin forlagi. Hann var áhugamaður um íþróttir, keppti á héraðsmótum og fylgdist með íþróttafréttum alla ævi. Hann var áhugamaður um ræktun, bæði blóma og trjáa, og gróðursetti tré við heimili sín allt frá unglingsaldri.

Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 15. Streymi:

https://www.mbl.is/go/md8pf

Elsku afi nú hefur þú kvatt okkur. Eftir sitja allar góðu minningarnar sem ylja mér. Það eru svo margar góðar minningar sem koma upp í hugann en ég gleymi aldrei vordögunum þegar ég var barn og var á leið vestur til ykkar ömmu á Breiðalæk. Oftast flaug ég vestur á Patró og þar beiðst þú eftir mér brosandi á flugstöðvarhlaðinu að taka á móti unga stráknum sem dvaldi á Breiðalæk sumarlangt. Allan veturinn beið ég eftir því að komast í sveitina. Það vita það flestir að ég vildi helst vera öllum stundum á Barðaströndinni, í sveitinni sem er mér svo kær. Þar var ýmislegt brasað yfir sumarið en þú hafðir gaman af því að gefa okkur frændsystkinunum harðfisk, nýbarinn við steininn, já og nýreyktan rauðmaga sem var skorinn með vasahnífnum sem þú varst ætíð með í höndunum.

Betri fyrirmynd er vart hægt að hugsa sér enda varstu réttsýnn, sanngjarn en á sama tíma ákveðinn en fyrst og fremst góður maður sem fórst ótroðnar slóðir til þess að efla byggðina og samfélagið á Barðaströnd. Þú áttaðir þig á mikilvægi þess að byggja upp innviði eins og að nálgast heitt vatn, stuðla að fleiri störfum, ýta undir íþróttastarf og að menntun stæði til boða í sveitinni. Allt þetta var gert á sama tíma og þið byggðuð upp nýbýlið Breiðalæk og sóttuð sjóinn.

Elsku afi, þú fylgdist alla tíð mjög vel með landsmálunum, pólitíkinni sem og öðrum þáttum samfélagsins og lást sem betur fer ekki á skoðun þinni með þau. Ég er sannfærður um að þú hafðir mikil og góð áhrif á samfélagið sem má meðal annars staðfesta með þeirri staðreynd að þú varst gerður að heiðursborgara Vesturbyggðar. Að hafa fengið að njóta allra stundanna saman hefur gefið mér svo mikið og hefur sannarlega mótað mig. Ég verð þér ævinlega þakklátur fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og mitt fólk. Þín verður sárt saknað. Hvíldu í friði elsku afi.

Blessuð sértu sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

Engið, fjöllin, áin þín,

yndislega sveitin mín,

heilla mig og heim til sín

huga minn úr fjarlægð draga.

Blessuð sértu, sveitin mín,

sumar, vetur, ár og daga.

(Sigurður Jónsson)

Kristján Þórður.

Fögur við mér blasir byggð,

björt við sjónarrönd.

Ennþá hef ég ást og tryggð

á þér Barðaströnd.

Fyllir sólin fjörðinn breiða,

fagnar sínum týnda syni.

Nú er bjart um holt og heiðar,

heim ég sný að finna vini.

Ótal margar unaðsstundir,

átti ég í faðmi þínum.

Ennþá geymast æskumyndir,

ofarlega í huga mínum.

Oft hef ég um ævi bjarta,

átt þess kost í hríðaréli,

að föðurmund og móðurhjarta

mínu ylji hugarþeli.

(Steinþór Þórðarson)

Þessar vísur eftir Steinþór bróður afa finnst okkur passa vel nú þegar afi er farinn á vit nýrra ævintýra og við kveðjum hann hinstu kveðju eftir langa og góða samfylgd. Við erum svo lánsöm að hafa fengið að alast upp spottakorn frá afa og ömmu og leituðum oft til þeirra enda hægt að labba þangað á sokkunum. Æskuminningarnar litast af samskiptum og samveru; afi að spila Gamla Nóa á munnhörpuna, afi að hengja upp grásleppu, afi að kveikja upp í reykingakofanum, afi að horfa á fótbolta, afi að skafa rófur fyrir okkur, við að hjálpa afa við frímerkjasöfnunina, afi í símanum á skrifstofunni sinni, afi í skógræktinni sinni, afi að kenna okkur að spila á greiðu, blístra með ýlustrái og búa til kartöflubyssu úr álftarfjöður.

Við viljum trúa því að nú séu afi og pabbi sameinaðir að nýju og farnir að huga að vorverkunum, líklega að gera grásleppunetin klár og skipuleggja sumarið.

Afabörnin í hinum bænum,

Guðrún, Páll,
Kristján
og Hafþór.

Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,

sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,

brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,

menningin vex í lundi nýrra skóga.

Hitt er og víst, að áfram, áfram miðar.

Upp, fram til ljóssins tímans lúður kliðar.

Öldin oss vekur ei til værðarfriðar.

Ung er hún sjálf, og heimtar starf, án biðar.

Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið,

boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,

hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,

það er: Að elska, byggja og treysta á landið.

(Hannes Hafstein)

Með þökk fyrir allt,

Snæbjörn,
Ólöf Sigríður, Gísli,
Þórhildur Guðbjörg, Steinunn Jóna og
Erla Bryndís.

„Við erum níu systkinin á Innri-Múla fædd á 11 árum.“ Þetta heyrði ég oft í æsku þegar rætt var um fjölskyldu mína vestur á Barðaströnd. Nú er Kristján Pétur, sá þriðji síðasti í aldursröðinni, fallinn frá. Þar með eru Múlasystkinin öll horfin af sviðinu stóra. Þau létu mikið að sér kveða hvert með sínum hætti. Þau lifðu sín manndómsár á mestu breytingatímum í sögu þjóðarinnar til sjávar og sveita og tóku þátt í þeirri byltingu. Þeirra kynslóð fæddist og ólst upp í kotum, var í sterkum minningatengslum við sum af mestu hörmungarárum þjóðarinnar þar sem t.d. spænska veikin, frostaveturinn 2018 og kreppan mikla mótuðu tilveruna. En fólkið var á sama tíma innblásið af sjálfstæðisbaráttunni með stóru sigrunum 1918 og 1944 og landbúnaðarbyltingunni sem reis hæst á sviði vélvæðingar, túnræktar og byltingar á húsakosti fyrir bændur og búfénað. Þetta kemur í hug þegar mér er hugsað til Kristjáns frænda míns. Hann var holdgervingur og verðugur fulltrúi þessa framfaratíma.

Kiddi og Vala breyttu ásýnd móa og mýra í glæsilegu bújörðina Breiðalæk. Kristján var á Ströndinni fremstur meðal jafninga í skólamálum og mörgum öðrum framfaramálum. Hann var í tengslum við ýmsa af ráðamönnum þjóðarinnar, ekki síst í gegnum Alþýðuflokkinn og jafnaðarhugsjónina. En hann lifði líka aðra breytingatíma. Fólk flutti úr dreifbýlinu og sveitirnar gisnuðu. Þar með urðu sífellt færri til að nytja bújarðir og önnur verðmæti sem hann hafði lifað fyrir að byggja upp. Það og sonarmissir gengu mjög nærri honum á gamals aldri.

Það sem bætti þetta upp voru afkomendurnir sem voru mjög dugleg að mennta sig til alls konar mikilvægra starfa og nú býr nafni hans með fjölskyldu sinni á Breiðalæk. Þau halda uppi merkinu um þróttinn og framsýnina. Þessari arfleifð gladdist Kristján yfir þegar hann var sjálfur orðinn óvirkur á vettvangi.

Sem barn minnist ég Kidda sem glaðsinna frænda sem talaði mikið. Hann hafði bjarta rödd og hækkaði oft róminn, án þess að greina mætti reiði í honum. Hann slóst í hóp með okkur börnum og unglingum í fótboltaleik og ásamt öðru frændfólki gerði Barðaströndina að paradís í barnshuganum. Þarna var heimabyggðin hans Kristjáns og þar undi hann sér best. Vissulega hleypti hann heimdraganum sem ungur maður, t.d. á vertíðir og löngu seinna heimsótti hann bræður sína tvo austur í Norðfjörð – en stoppaði stutt. Það er ægifagurt við Breiðafjörðinn og bjargirnar margar til að framfleyta fjölskyldu. Nærtækt var að sækja á sjóinn og það gerðu Kristján og afkomendurnir samhliða búskap og öðrum störfum. Kristján gaf út tvær bækur sem auðvitað fjalla báðar um aðalhugðarefni hans, Barðaströndina og baráttuna fyrir byggðinni þar.

Nú að Kristjáni gengnum skjóta upp kollinum hugtök eins og eldhugi, framsýni, þrautseigja, staðfesta, fjölskylda og ættjarðarást. Óður Jenna Jóns til Barðastrandar er alltaf sunginn á ættarmótum Innri-Múlafólks. Hann hefst svo: „Hugur leitar heim til þín, hlýja bjarta sveitin mín. Bláu fjöllin brött og há, berst mitt hjarta af þrá.“

Þórður
Júlíusson.

Elsku afi minn, þá er komið að kveðjustund og þú kominn í sumarlandið til hans Finnboga þíns sem þú saknaðir svo sárt.

Það er margs að minnast þegar ég sest niður og rifja upp allar þær góðu minningar sem ég á um þig. Sveitin okkar, Barðaströndin, var þér ávallt kær og þér var mikið í mun að sem flestir fengju að upplifa hana og helst búa þar. Þú skilur eftir þig margar dýrmætar minningar og ummerki ef svo má að orði komast í sveitinni. Mig langar hins vegar að einblína á minningarnar sem ég á af afa mínum. Ég man hvernig þú raðaðir stígvélunum þínum í forstofunni í krummafót í hvert sinn sem þú komst inn í bæinn. Þegar þú leyfðir okkur krökkunum að kíkja í kíkinn sem átti sinn stað á hillunni í forstofunni þótt þú óttaðist það að við gætum misst hann því hann var mikilvægur gripur til að geta fylgst með búfénu sem var á beit. Ég man hversu stoltur þú varst af þínum afkomendum og hvernig þú söngst Krummavísuna, eftir Bjarna Þorsteinsson, með Kristján bróður undir arminum og horfðir á hann með aðdáunaraugum og faðmaðir hann enn fastar að þér meðan þú lagðir áherslu á „nafni minn“ úr vísunni:

Krummi krunkar úti,

kallar á nafna sinn.

Ég fann höfuð af hrúti,

hrygg og gæruskinn.

Komdu nú og kroppaðu með mér,

krummi nafni minn.

Komdu nú og kroppaðu með mér,

krummi nafni minn.

Þessi vísa kallar alltaf fram þessa minningu í huga mér. Þú varst glettinn og hafðir gaman af því að segja sögur og sýna gestum ljósmyndirnar í myndaalbúmunum þínum. Þú sagðir okkur barnabörnunum stoltur frá myndinni sem prýddi einn vegginn í stofunni sem þú saumaðir út á þínum yngri árum meðan ég horfði með aðdáunaraugum á bæði þig og myndina.

Baldursbráin var gull í þínum augum og lærðum við það nokkuð fljótt að ekki mætti tína þær því þú vildir að þær yxu sem víðast. Ég man hversu gaman þú hafðir af því að leyfa öllum að smakka harðfiskinn, rauðmagann og signu grásleppuna. Þér þótti það enn skemmtilegra þegar þú fékkst þá sem ekki höfðu smakkað þessar gersemar áður til að smakka þær og beiðst spenntur eftir dómi þeirra.

Einhver tengsl mynduðust fljótt milli þín og Raymonds þegar hann kom í fjölskylduna, þér var mikið í mun að bera nafnið hans rétt fram og spurðir alltaf að því hvort þér tækist það. Þú varst ekkert minna stoltur af öllum langafabörnunum. Þú þreyttist aldrei á því að segja mér hvað þér þætti Róbert myndarlegur og ánægður með áhuga hans á fótbolta og taflmennsku. Ég er þér endalaust þakklát fyrir allt það sem þú hefur kennt mér. Þakklát fyrir umhyggjuna og hlýju þína gagnvart mér og strákunum.

Hvíldu í friði elsku afi minn, minning þín mun lifa um ókomna tíð.

Þín Vala litla,

Valgerður.

Þegar ég kom fyrst á Breiðalæk var margt öðruvísi en ég átti að venjast að heiman. Það var t.d. ekki talað mikið á mínu heimili og sjaldan um pólitík. En í eldhúsinu á Breiðalæk var mikið talað og margir í einu. Kristján sat við endann á borðinu og var miðdepillinn í umræðunum. Það þurfti að tala um veðrið, búskapinn, grásleppuna og skakið og pæla í hvort væri sjóveður. Svo þurfti auðvitað að ræða um pólitíkina og þá gat ég tekið þátt í umræðunum af einhverju gagni. Kristján var gallharður krati og ekki hrifinn af því sem gerðist hjá hægrimönnum frekar en ég. Þegar ég kom inn í fjölskylduna vann ég á Þjóðviljanum og það fannst honum ágætt. Örugglega betra en hefði ég unnið á Mogganum. Við fórum alltaf rækilega yfir það sem hæst bar á hverjum tíma og vorum oftast sammála í pólitík.

Að vera á sjó með Kristjáni var upplifun. Þegar ég fór fyrst með þeim Finnboga á grásleppu tók hann steinbít með í nesti. Heimaverkaðan að sjálfsögðu. Ég tók eftir að steinbíturinn var óvenju feitur, löðrandi í lýsi. Ég komst seinna að því að hann valdi feitan steinbít til að láta mig borða svo ég yrði síður sjóveikur. Það var leiðinda sjóveður í þessum fyrsta gráslepputúr mínum en ég varð ekki sjóveikur og hef ekki orðið síðan. Örugglega feita steinbítnum Kristjáns að þakka.

Skemmtilegast var að fara með þeim feðgum á skak. Þegar boltaþorskar voru á hverjum krók og varla tími til að kútta þá var Kristján í essinu sínu og smitaði mann af æsingnum. Nú eru þeir báðir farnir á braut en eftir lifa góðar minningar um mokfiskerí á rennisléttum Breiðafirðinum og fjörugar umræður við eldhúsborðið á Breiðalæk.

Sigurður Mar
Halldórsson