Margrét Þorvaldsdóttir fæddist í Reykjavík 23. júlí 1953. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 31. janúar 2024.

Margrét var dóttir hjónanna Rósu Halldóru Hansdóttur Hoffmann húsfreyju f. 16. nóvember 1917 d. 2. júní 2004 og Þorvaldar Markússonar bifreiðastjóra f. 29. ágúst 1904 d. 26. febrúar 1984. Margrét var næst yngst í 6 systkina hópi, bræður hennar eru Hans Hoffmann Þorvaldsson f. 1940 d. 1945, Markús Ragnar Þorvaldsson f. 1945, Hans Hoffmann Þorvaldsson f. 1946, Már Þorvaldsson f. 1949 og svo tvíburabróðir Margrétar Jóhann Þór Þorvaldsson f. 1953. Margrét eignaðist 3 börn með fyrrum sambýlismanni sínum Sveini Sigurbjörnssyni f. 1950 d. 2017. 1. Ósk Sveinsdóttir f. 3. ágúst 1978 sambýlismaður Karl Þór Þorvaldsson, eiga þau börnin Karen Evu Karlsdóttir f. 29. mars 2017, Kristófer Darri Karlsson f. 9. júlí 2020. Karl á einnig soninn Matthías Hrafn Karlsson f. 25. febrúar 2010 úr fyrra sambandi. 2. Eva Rut Sveinsdóttir f. 16. október 1981 d. 17. október 1981. 3. Ari Sveinsson f. 31. júlí 1983 unnusta Hanna Bryndís Heimisdóttir. Margrét kynntist Jónasi Benedikt Sigurþórssyni árið 2000 og giftu þau sig árið 2008. Börn Jónasar eru 1. Kristín Birna Jónasardóttir f. 1977 sambýlismaður Þorbjörn Ólafsson 2. Ásgerður Eir Jónasardóttir f. 1982 sambýlismaður John Skat Dalgaard 3. Guðmundur Heimir Jónasson f. 1989 maki Julie Gregaard. Margrét vann mörg mismunandi störf um ævina þar á meðal var hún með fyrstu kvenkyns bílstjórum hjá Strætisvögnum Reykjavíkur. Margrét lærði sjúkraliðann og útskrifaðist úr náminu árið 2008. Hún vann lengi vel við umönnun bæði fyrir og eftir námið sitt á hjúkrunarheimilinu Ljósheimum og svo seinna á Fossheimum á Selfossi.

Útför Margrétar fer fram í Selfosskirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.

Elskuleg mágkona mín er látin, ekki nema 70 ára.

Við sem höldum alltaf að við eigum svo mörg ár eftir og ætlum að gera svo margt.

Þannig ætluðu þau hjónin Jónas bróðir minn og Magga líka að gera; fara að hafa það svo gott, ferðast og njóta í sælureitnum sínum í sveitinni þar sem þau undu sér svo vel öllum stundum en svo er kippt í spotta og allt breytist á einu augabragði.

Möggu kynntumst við Óli fyrir um 40 árum þegar hún og fjölskylda hennar fluttu á Selfoss, þá var Jónas ekki kominn inn í líf hennar en það átti eftir að breytast þegar þau rugluðu saman reytum og fóru að búa saman. Við höfum átt góða tíma í gegnum árin og eigum við sérstaklega skemmtilega minningu um ferðina okkar til Prag þegar Jónas varð 50 ára, mikil lifandis ósköp var hlegið þá helgina og komum við endurnærð heim.

Allt hefur sinn tíma og allt hefur sinn tilgang. Elsku Jónas, það verður tómlegt að hafa ekki Möggu þína við hlið þér en minningarnar eru það eina sem er hægt að ylja sér við.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Jónas, frá okkur Óla
og einnig til Óskar, Ara, Kristínar Birnu, Ásgerðar og Guðmundar Heimis og fjölskyldna þeirra.

Þórdís Sigurþórsdóttir,
Jón Ólafur Óskarsson.