Ásmundur Bjarnason fæddist á Akureyri 17. febrúar 1927. Hann lést á Skógarbrekku HSN 1. febrúar 2024.

Foreldrar hans voru Kristjana Hólmfríður Helgadóttir og Bjarni Ásmundsson frá Húsavík. Bræður Ásmundar: Helgi, f. 1925, d. 1999, Halldór, f. 1929, d. 2016, Hallmar Freyr, f. 1931, d. 1987, Hreiðar, f. 1934, d. 2002, Pétur, f. 1941, d. 2017, Jón Ágúst, f. 1944, búsettur á Húsavík.

Ásmundur ólst upp á Húsavík en fór til náms á Laugarvatni 16 ára og síðar í Samvinnuskólanum í Reykjavík.

Eiginkona Ásmundar var Kristrún J. Karlsdóttir frá Keflavík. Börn þeirra: 1) Karl, f. 1946, verkfræðingur, búsettur í Bandaríkjunum, kvæntur Bergþóru Guðbjörnsdóttur. Synir þeirra: Guðbjörn, f. 1966, d. 2012, Karl Rúnar, f. 1973, og Jóhann Ingi, f. 1984, d. 2023. Karl og Bergþóra eiga þrjú barnabörn og tvö barnabarnabörn. 2) Bergþóra, f. 1951, starfaði í Landsbankanum, gift Arnari Guðlaugssyni. Börn þeirra: Ásmundur, f. 1972, Guðlaugur, f. 1978, og Elva Björg, f. 1987. Arnar og Bergþóra eiga sex barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Bjarni, f. 1956, skipatæknifræðingur, búsettur á Akureyri, kvæntur Sigurlaugu Jökulsdóttur. Fyrri eiginkona Bjarna var Birna Hreiðarsdóttir, þau skildu. Dætur þeirra: Heiða Rún, f. 1987, Kristrún Hildur, f. 1988, og Erna Sif, f. 1990. Bjarni á sex barnabörn. 4) Jóhanna, f. 1957, kennari, búsett á Akureyri, sambýlismaður Haukur F. Valtýsson. Dóttir Jóhönnu og Jóns Friðriks Benónýssonar er Valgerður, f. 1978, börn Jóhönnu og Erlings Ólafs Aðalsteinssonar eru Gyða, f. 1986, og Ásbjörn, f. 1992. Jóhanna á fimm barnabörn. 5) Anna Kristjana, kennari á Flúðum, gift Hauki Haraldssyni. Fyrri eiginmaður Önnu var Sigurður Ingi Jóhannsson, þau skildu. Börn þeirra: Nanna Rún, f. 1983, Jóhann Halldór, f. 1990, og Bergþór Ingi, f. 1992. Anna á sex barnabörn. 6) Sigrún, starfar í utanríkisráðuneytinu, gift Kjartani Ásmundssyni, börn þeirra: Kristinn, f. 1980, Anna Margrét, f. 1988, og Ásmundur, f. 1990. Sigrún og Kjartan eiga fimm barnabörn.

Sonur Ásmundar er Guðmundur Grétar, f. 1960.

Ásmundur og Kristrún bjuggu fyrstu árin í Reykjavík en fluttust til Húsavíkur 1963. Hann var í útgerð með bræðrum sínum og föður til 1971, hóf þá störf hjá Húsavíkurkaupstað og var aðalbókari bæjarins til starfsloka.

Ásmundur var mikill íþróttamaður og keppti á Ólympíuleikum í London 1948 og Helsinki 1952. Hann var í gullaldarliði Íslands í frjálsum íþróttum sem gerði garðinn frægan í Brussel 1950 og er síðastur til að kveðja. Hann keppti á Evrópumeistaramótinu í Bern árið 1954. Hann keppti ætíð fyrir KR og starfaði fyrir félagið þegar keppnisferli lauk.

Eftir að Ásmundur hætti keppni 1955 stundaði hann skíðagöngu og golf, var einn af stofnendum Golfklúbbs Húsavíkur. Hann stundaði golf fram á tíræðisaldur, var heiðursfélagi í Golfklúbbi Húsavíkur og Lionsklúbbi Húsavíkur. Hann var sæmdur gullmerki Völsungs 2017. Ásmundur var virkur í félagsstarfi, m.a. formaður Golfklúbbs Húsavíkur, Lionsklúbbs Húsavíkur og formaður Félags eldri borgara á Húsavík.

Ásmundur verður jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 14. Streymi:

https://www.mbl.is/go/qnm4e

Elsku afi Ásmundur hefur nú kvatt og við systkinin gerum okkur ferð norður á Húsavík eins og við höfum svo oft gert í gegnum tíðina að heimsækja afa og fylgjum honum síðasta spölinn.

Afi okkar var merkilegur karl sem afrekaði margt á sínum íþróttaferli og í lífinu sjálfu. En þegar við vorum krakkar að heimsækja afa og ömmu á Uppsalaveg spáðum við lítið í slíkt. Jú, það var vissulega spennandi að skoða alla bikarana og stytturnar hans afa, á sama hátt og okkur þótti spennandi að skoða töluboxið hennar ömmu. Í okkar huga var afi einfaldlega afi. Hann gekk í rauðum peysum, afalegum vestum, spilaði golf, púaði stöku vindil og sagði skemmtilegar sögur.

Sögurnar af því þegar hann og amma fóru til Ameríku þegar þau voru ung fannst okkur langbestar. Þegar þau unnu á fínum veitingastað, afi við að skrúbba potta í eldhúsinu og amma var svokölluð „salad lady“ og sú glæsilegasta af þeim öllum. Eins og afi sagði söguna var mesta furða að fólki hefði yfirhöfuð tekist að reka þennan veitingastað áður en afi og amma komu og tóku til starfa með íslenska verkvitið og glæsileika ömmu að vopni. Þessu trúðum við að sjálfsögðu algjörlega, enda voru afi og amma einstaklega glæsileg hjón.

Það var svo þegar við fullorðnuðumst sem við áttuðum okkur á því hvað afi hafði í raun afrekað. Það eru nefnilega ekki margir sem eiga það á ferilskránni að hafa, meðal annars, keppt á tvennum Ólympíuleikum.

Afi var alltaf skemmtilegur og hafði gaman af því að spjalla við okkur barnabörnin. Hann var áhugasamur um það sem við tókum okkur fyrir hendur og það var auðheyrt að hann var stoltur af sínu fólki. Hlý minning afa Ásmundar lifir með okkur systkinunum og öðrum afkomendum hans og ömmu Diddu.

Valgerður Jónsdóttir, Gyða Erlingsdóttir,
Ásbjörn Erlingsson.

Minningarnar um afa Áda eru margar, við systkinin vorum í miklum samskiptum við afa á meðan við vorum að alast upp á Húsavík og lifir minningin um það hvað afi sagði skemmtilega frá og hversu ákveðnar skoðanir hann hafði á málefnum líðandi stundar. Afi nefnilega lá sjaldan á skoðunum sínum og ávallt spunnust upp áhugaverðar samræður í kringum hann.

Nokkrar minningar standa upp úr þegar horft er til baka, eins og þegar kíkt var við á Uppsalaveginn í hádeginu til að fá að borða sem hentaði oft þegar maður var að leika sér á hólnum. Þá var heilög stund hjá afa þegar hann var kominn í sófann að hlusta á fréttir og eins gott að vera ekki með mikinn hávaða rétt á meðan.

Amma og afi voru ávallt hjá okkur um jólin þegar við vorum að alast upp og afi var ávallt hrókur alls fagnaðar og jólin voru í raun aldrei komin fyrr en amma og afi voru komin í sófann og afi farinn að lauma sér inn í eldhús að narta í afganga.

Í seinni tíð eftir að amma lést og eftir að foreldrar okkar og við vorum flutt suður, þá kom hann reglulega og var með okkur yfir hátíðarnar og er mjög minnisstætt hversu gaman var hjá honum og elstu langafabörnunum.

Þegar afa er minnst er ekki hægt að sleppa því að ræða vindlana sem hann reykti aldrei. Hann nefnilega vildi alltaf meina að hann reykti aldrei þó svo vindillinn væri aldrei langt undan. Hann sagðist bara púa vindlana. Eftir að afi flutti á Hvamm og við heimsóttum hann var oft gott að vera með aukaföt í bílnum til skiptanna þar sem lyktin af vindlunum sem ekki voru reyktir lifði alltaf lengi með okkur.

Afi var mikill afreksmaður í íþróttum og hann hafði ávallt gaman af því að ræða við okkur um þær og þá vegferð sem við vorum sjálf á eða langafabörnin í tengslum við íþróttir, hann var mikil fyrirmynd fyrir okkur.

Hann var líka ekki bara afreksmaður á yngri árum. Hann var mjög virkur langt fram eftir aldri og stundaði m.a. golf og gönguskíði af miklu kappi. Oftast var hann einn á skíðunum utan bæjarmarkana. Stundum tók hann sér það góðan tíma í gönguskíðin að fólk fór að hafa smá áhyggjur, en alltaf skilaði gamli sér heill á húfi til baka.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Takk fyrir allt elsku afi.

Kveðja,

Ásmundur, Guðlaugur
og Elva Björg.

Kynni okkar Ásmundar hófust árið 1987 þegar við Sigrún fórum að draga okkur saman. Við vorum alla tíð góðir vinir og áttum ýmislegt sameiginlegt. Á meðan Kristrún var á lífi fórum við Sigrún norður á Húsavík á hverju ári en eftir að hún féll frá kaus hann frekar að keyra suður og heimsækja fólkið sitt.

Þegar við bjuggum í Kópavogi átti hann sitt herbergi hjá okkur og fannst notalegt að koma og ganga að rúminu sínu vísu. Það skemmdi heldur ekki fyrir að Begga, systir Sigrúnar, og maður hennar, Arnar, bjuggu í sömu götu og við þannig að hann gat labbað á milli.

Þegar við svo eignuðumst Minni-Brekku kom Ásmundur á hverju sumri í mörg ár og dvaldi nokkra daga. Við rúntuðum mikið og skoðuðum fólk, kennileiti og ekki síst fugla. Hann var ótrúlega fróður um bæi og sögu og gaman að heyra hann segja frá. Við kölluðum þetta „að gera úttekt“ og höfðum báðir ákaflega gaman af.

Ásmundur ólst upp í sárri fátækt á Húsavík og fór snemma að heiman, fyrst í Héraðsskólann á Laugarvatni og síðar í Samvinnuskólann í Reykjavík. Þegar hann fluttist til Reykjavíkur fór hann að æfa íþróttir af miklum móð. Hann varð afreksmaður á heimsmælikvarða og hefur skráð nafn sitt á spjöld sögunnar, en ég ætla ekki að fara út í það, aðrir eru færari um það.

Ég er þakklátur fyrir þann tíma sem okkur auðnaðist að eiga saman. Hann var ætíð hafsjór af fróðleik og skemmtilegur sögumaður. Ég kveð þennan höfðingja og óska honum góðrar ferðar. Vertu kært kvaddur, minn kæri.

Kjartan.