Fróður Sævar Helgi Bragason, <sup></sup>jafnan kallaður Stjörnu-Sævar.
Fróður Sævar Helgi Bragason, jafnan kallaður Stjörnu-Sævar. — Ljósmynd/Aðsend
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfó Nord, flytur á sunnudag, 18. febrúar, tónverk Gustavs Holsts, Pláneturnar. Hljómsveitarstjóri verður Bjarni Frímann Bjarnason. Sævar Helgi Bragason, kallaður Stjörnu-Sævar, mun fræða gesti um undur himingeimsins …

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfó Nord, flytur á sunnudag, 18. febrúar, tónverk Gustavs Holsts, Pláneturnar. Hljómsveitarstjóri verður Bjarni Frímann Bjarnason. Sævar Helgi Bragason, kallaður Stjörnu-Sævar, mun fræða gesti um undur himingeimsins og sýna nýjar myndir af sólkerfinu sem verður varpað á stórt tjald. Eru tónleikarnir ætlaðir fólki á öllum aldri, börnum jafnt sem fullorðnum. Sævar mun fyrir tónleika kynna tónskáldið og fjalla um verkið og pláneturnar á aðgengilegan hátt. Kynningin hefst kl. 15 og tónleikarnir klukkstund síðar.

Á vef Menningarfélags Akureyrar segir að Holst hafi verið mikill áhugamaður um stjörnufræði og að í þessu tónverki hans, Plánetunum, líki hann eftir einkennum plánetanna eins og hann hafi upplifað þær. Tilkomumikill hljómur verkanna hafi haft mikil áhrif á seinni tíma kvikmyndatónlist, til dæmis tónlist Johns Williams og Howards Shores sem hafi verið undir greinanlegum áhrifum frá Holst og Plánetunum.

Veisla fyrir augu og eyru

Sævar er spurður hvers konar tónleikar þetta verði í Hofi. „Ég vil kalla þetta fjölskyldutónleika því þeir verða veisla fyrir augu og eyru. Í fyrsta lagi fallegar myndir af plánetunum í sólkerfinu okkar og ferðast á milli þeirra, að sjálfsögðu, og svo flyt ég áhugaverðan og skemmtilegan fróðleik um pláneturnar á milli þess sem við heyrum verkin sjálf. Á meðan verkin eru flutt verður fallegt myndefni undir. Ég hef gert svipað áður með Sinfóníuhljómsveit Íslands, það lukkaðist rosalega vel, var mjög skemmtilegt og það er frábært að komast norður líka og gera þetta þar.

Nýjar myndir af sólkerfinu okkar verða sýndar í Hofi, nýjustu myndir frá Webb-sjónaukanum af Mars og öðrum plánetum, myndir sem hafi verið teknar undanfarið, að sögn Sævars. Hann segist sannfærður um að viðburðurinn í Hofi verði mjög skemmtilegur og muni höfða til mjög breiðs aldurshóps. „Þetta verður fullkomin síðdegisskemmtun á sunnudegi fyrir alla fjölskylduna,“ segir Sævar sem hefur áður boðið upp á svipaðan fróðleik og skemmtun. „Með Sinfóníuhljómsveit Íslands fluttum við þrjá þætti úr Plánetunum fyrir grunnskóla. Það lukkaðist frábærlega og var mjög skemmtilegt. Svo hef ég gert vísindatónleika með Sinfóníunni sem voru í fullri lengd og lukkuðust líka frábærlega. Við reynum bara að hafa þetta lifandi og skemmtilegt.

En hvernig upplifir Sævar sjálfur þetta verk, Pláneturnar? „Þetta er eitt af þeim tónverkum sem ég set reglulega á, t.d. þegar ég skrifa bækur því það veitir innblástur, er gullfallegt og það jafnast ekkert á við að heyra það í lifandi flutningi heillar sinfóníuhljómsveitar á sviði. Svo er þetta verk sem veitti t.d. John Williams innblástur við gerð Star Wars, maður heyrir það í fyrsta þættinum sem er fluttur sem er Mars-kaflinn. Þá heyrir maður hvaðan Keisaramarsinn kemur,“ segir Sævar og að sér þyki Venus og Neptúnus fallegustu verkin.