Borgarnes Brákarey hefur verið eitt helsta kennileiti bæjarins og mikil starfsemi farið þar fram.
Borgarnes Brákarey hefur verið eitt helsta kennileiti bæjarins og mikil starfsemi farið þar fram. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján Jónsson kris@mbl.is Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, er undrandi á kröfugerð ríkisins í eyjar, hólma og sker sem Morgunblaðið hefur fjallað um síðustu daga og segir hana valda sér vonbrigðum. Í hans sveitarfélagi er til að mynda Brákarey undir en þar er iðnaðarsvæði sem tengist Borgarnesi með brú eins og fólk þekkir.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, er undrandi á kröfugerð ríkisins í eyjar, hólma og sker sem Morgunblaðið hefur fjallað um síðustu daga og segir hana valda sér vonbrigðum. Í hans sveitarfélagi er til að mynda Brákarey undir en þar er iðnaðarsvæði sem tengist Borgarnesi með brú eins og fólk þekkir.

„Brákarey var í raun þungamiðja atvinnulífs í Borgarnesi seinni hluta síðustu aldar og gegnir enn stóru hlutverki. Þarna er sláturhús, verktakastarfsemi, iðnaður, líkamsrækt og fleiri fjölbreytt atvinnustarfsemi. Vissulega kemur það okkur á óvart að hún sé skilgreind meðal óbyggða en í okkar huga er Brákarey eins tengd Borgarnesi og Skallagrímsgarður eða Englendingavík. Þótt um eyju sé að ræða þá hefur hún verið tengd með brú svo lengi sem elstu menn muna,“ segir Stefán Broddi og nefnir að nú sé í gangi vinna á vegum sveitarfélagsins við nýtt skipulag í eynni með áherslu á frekari uppbyggingu atvinnulífs og íbúabyggðar.

„Það er því óvænt afstaða að ríkið líti Brákarey sömu augum og að um óbyggt hálendi væri að ræða.“

Stefán segist velta fyrir sér tilganginum með jafn víðtækri kröfulýsingu og þessari hjá ríkinu.

Skattfé fer í ráðgjöf

„Kröfulýsingin felur í sér gríðarlega stórt inngrip miðað við þann skilning sem ég held að flest okkar leggi í hugtökin eignarrétt og þjóðlendur. Þetta getur haft áhrif á framtíðarsýn sveitarfélagsins og íbúa er varðar nýtingu og uppbyggingu. Þetta eru vonbrigði fyrir okkur enda er gengið miklu lengra en nokkur bjóst við. Ég sé ekki tilganginn með því að skapa óvissu um eitthvað sem engin óvissa ríkti um,“ segir Stefán og bendir á umstangið sem því fylgir að verja sig.

„Sveitarfélagið og landeigendur þurfa nú að leggjast í rannsóknarvinnu til að verja hagsmuni sína og ráða lögfræðinga til ráðgjafar. Frá sjónarhóli ríkisins finnst mér eðlilegast að kröfulýsingin verði dregin til baka en þangað til mun hún trufla þróun og uppbyggingu innviða sem er annars það sem ríkið og sveitarfélögin eiga að vera að leggja áherslu á um þessar mundir.“

Víða um land má finna eyjar sem ríkið vill fá viðurkenndar sem þjóðlendu. Bæjarins besta segir til dæmis frá tveimur í frétt á vefnum bb.is. Annars vegar Borgarey í Ísafjarðardjúpi sem tilheyrir gömlu prófastsjörðinni í Vatnsfirði og Grímsey í Steingrímsfirði.

Eigendur sjávarjarða

Virðingarleysi fyrir eignarréttinum

Landssamtök eigenda sjávarjarða segja í ályktun að ríkið ásælist eyjar sem það hafi áður selt.

„Stjórnin lýsir furðu sinni á þeim kröfum sem þarna eru settar fram þar sem ríkið ásælist megnið af yfir þrjúþúsund eyjum, hólmum og skerjum í kringum landið. Flestar eyjar sem kröfurnar beinast að eru þinglýstar eignir einstaklinga, sveitarfélaga og annarra aðila, af þessum eignum hafa verið greidd fasteignagjöld og í sumum tilvikum hefur ríkið selt eyjar sem það ætlar nú að hrifsa til sín á ný. Virðingarleysið fyrir eignarréttinum er algjört og þar að auki er ekki einu sinni haft fyrir því að tilkynna kröfugerðina þeim aðilum sem kröfurnar beinast að,“ segir m.a. í ályktuninni.

Höf.: Kristján Jónsson