— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eyðileggingin af völdum náttúruaflanna blasir við í Efrahópi í Grindavík, þeirri götu sem einna verst varð úti í hamförum liðinna mánaða. Kristinn Magnússon ljósmyndari Morgunblaðsins hefur heimsótt Grindavík síðustu daga og kvaðst hafa upplifað aðkomuna sem óraunverulega

Eyðileggingin af völdum náttúruaflanna blasir við í Efrahópi í Grindavík, þeirri götu sem einna verst varð úti í hamförum liðinna mánaða. Kristinn Magnússon ljósmyndari Morgunblaðsins hefur heimsótt Grindavík síðustu daga og kvaðst hafa upplifað aðkomuna sem óraunverulega.

„Það er hálfóraunverulegt að sjá húsin sem hraunið hefur farið yfir í þessu glænýja hverfi þar sem er verið að byggja allt í kring,“ segir Kristinn af heimsókninni til bæjarins sem augu heimsins hafa hvílt á síðustu vikur.

Segir hann húsveggi umlukta kolsvörtu nýrunnu hrauni ekki síður áhrifamikla sjón og mikla mildi að hraunstraumurinn hafi stöðvast í vel greinanlegri hvilft í stað þess að vella áfram og valda enn frekara tjóni. Gossafnið Eldheimar í Vestmannaeyjum og hraunfyllt hús Eyjamanna frá gosinu í ársbyrjun 1973 hafi komið upp í hugann við að líta ummerki hrárra náttúrukraftanna þar sem glóandi hraunið komst í snertingu við mannabústaði, fasteignir Grindvíkinga.

Íbúi í hverfinu, sem Kristinn ræddi við í heimsókn sinni, lýsti því fyrir honum hvernig henni var innanbrjósts þegar hún horfði á hraunið koma að fyrstu húsunum í útsendingu vefmyndavélar. Sú hafi lýst þeirri hugsun sinni að varla væri réttlætanlegt að sýna slíkt myndefni opinberlega í fjölmiðlum en á sama tíma hefði hún ekki getað slitið sig frá skjánum þar sem ósköpin blöstu við. atlisteinn@mbl.is