Tónlistarmaður Paul Lydon hefur búið hér í yfir 25 ár. Plata hans Umvafin loforðum hefur að geyma píanótónlist.
Tónlistarmaður Paul Lydon hefur búið hér í yfir 25 ár. Plata hans Umvafin loforðum hefur að geyma píanótónlist. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Á nýjustu plötu tónlistarmannsins Pauls Lydons, Umvafin loforðum, er að finna sjö frumsamin einleikslög á píanó. Paul gaf síðast út plötu árið 2018 en sú ber titilinn Sjórinn bak við gler og hefur einnig að geyma píanótónlist eftir hann sjálfan

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Á nýjustu plötu tónlistarmannsins Pauls Lydons, Umvafin loforðum, er að finna sjö frumsamin einleikslög á píanó. Paul gaf síðast út plötu árið 2018 en sú ber titilinn Sjórinn bak við gler og hefur einnig að geyma píanótónlist eftir hann sjálfan.

Spurður hvort tónlistin á nýju plötunni sé svipuð segir Paul að á báðum plötunum sé að finna spunatónlist. „Áherslurnar eru kannski aðrar. Það sem ég er að reyna að gera yfirhöfuð er að vinna út frá föstum grunni en reyni að skapa smá spennu með því að sumt hreyfist en annað haldi sér. Þetta er líka eitthvað sem mér líkar að hlusta á sjálfur.“

Innblástur úr æsku

Tónlistin sem hann hlustaði á í æsku hefur veitt honum innblástur. „Við hlustuðum á talsvert af tónlist frá Írlandi þegar ég ólst upp í Boston og þá hlustaði ég líka á tónlist frá öðrum heimshornum, frá Vestur-Asíu og íslamska menningarheiminum. Ég tek þetta allt inn og maður reynir að gera eitthvað sjálfur sem maður hefur gaman af.“

Spurður hvernig tónlistin verði til segir hann: „Ég hef svona hugmynd um hvað ég ætla að gera en oftast sest ég bara niður og læt þetta rúlla. Ég hef verið að spila á þann hátt lengi. Ég veit hvað mér líkar og hvað mér líkar minna og vil helst ekki gera. Mér finnst gott þegar maður skapar smá spennu á mismunandi hátt og gerir tónlistina vonandi aðeins kröftugri.“

Paul tók upp í lok árs 2022 og svo tók eftirvinnslan við. „Ég tók þetta allt upp sjálfur en Curver [Thoroddsen] masteraði plötuna fyrir mig sem er frábært því hann er bara algjör meistari. Hann er ljúfur og alveg rosalega flinkur.“ Paul málaði sjálfur verkið sem prýðir plötuumslagið en dóttir hans, Kinnat Sóley, sá um hönnunina.

Um titilinn Umvafin loforðum segir Paul: „Mig dreymdi þetta bara og hugsaði að þetta væri kannski góður titill.“ Allir lagatitlarnir eru á íslensku en Paul segir það hafa verið einfalt val, hann búi hér og starfi. „Ég vona að titlarnir séu á einhvern hátt lýsandi.“

Tónleikar í Mengi

Paul hefur búið hér á landi frá árinu 1988. „Ég vinn sem forritari hjá Hugsmiðjunni. Það er það sem ég geri dags daglega en tónlistin er það sem ég geri þegar ég er ekki að því,“ segir hann.

„Síðustu árin hef ég mest verið að vinna sjálfstætt en í gegnum tíðina hef ég tekið þátt í ýmsum verkefnum, til dæmis þegar Tilraunaeldhúsið var í gangi á sínum tíma þá tók ég þátt í því. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki í gegnum árin.“

Útgáfutónleikar verða í Mengi 25. febrúar og fram kemur í tilkynningu frá tónleikastaðnum að þetta verði fyrstu tónleikar Pauls þar í fimm ár.

„Platan verður grunnurinn að tónleikunum. Þetta verður mjög tengt efninu sem er á plötunni en ekki alveg eins,“ segir hann. Húsið er opnað kl. 19.30 en tónleikarnir hefjast kl. 20.