Gasa Ísraelskur skriðdreki sést hér í nágrenni við Gasasvæðið í gær.
Gasa Ísraelskur skriðdreki sést hér í nágrenni við Gasasvæðið í gær. — AFP/Jack Guez
Sérsveitarmenn á vegum Ísraelshers gerðu í gær rassíu á Nasser-sjúkrahúsinu, sem er í Khan Younis-borg á suðurhluta Gasasvæðisins. Sagði í tilkynningu Ísraelshers að boðað hefði verið til „nákvæmrar og takmarkaðrar aðgerðar“ á…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Sérsveitarmenn á vegum Ísraelshers gerðu í gær rassíu á Nasser-sjúkrahúsinu, sem er í Khan Younis-borg á suðurhluta Gasasvæðisins. Sagði í tilkynningu Ísraelshers að boðað hefði verið til „nákvæmrar og takmarkaðrar aðgerðar“ á sjúkrahúsinu, þar sem talið væri mjög líklegt að lík nokkurra af þeim gíslum sem Hamas-samtökin tóku til fanga 7. október sl. væru geymd þar.

Herinn sagði einnig að vígamenn Hamas hefðu aðsetur á sjúkrahúsinu, en talsmenn hryðjuverkasamtakanna neituðu þeirri ásökun. Heilbrigðisráðuneyti Gasasvæðisins, sem er á valdi Hamas, sagði að aðstæður á sjúkrahúsinu væru skelfilegar, og að fjöldi heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga hefði neyðst til þess að flýja sjúkrahúsið vegna aðgerða Ísraelshers. Sagði í tilkynningu ráðuneytisins að rúmlega 460 manns hefðu þurft að fara yfir í eldri byggingu sjúkrahússins og leita sér skjóls þar án matar, vatns og þurrmjólkur.

Góðgerðarsamtökin Læknar án landamæra sögðu að ringulreið ríkti á sjúkrahúsinu og að starfsfólk samtakanna hefði þurft að yfirgefa það. Ekki var vitað um afdrif eins starfsmanns samtakanna og annar var handtekinn af Ísraelsher.

Telur vopnahlé enn mögulegt

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, sagði í gær að hann teldi enn mögulegt að ná samkomulagi um vopnahlé á milli Ísraelsmanna og Hamas-samtakanna, en vopnahlésviðræður standa nú yfir í Kaíró með milligöngu Egypta og Katara.

Sagði Blinken að Bandaríkjastjórn vildi gera allt sem í hennar valdi stæði til þess að koma á vopnahléi sem fyrst en Ísraelsstjórn hefur heitið því að brátt verði lagt til atlögu við vígamenn Hamas-samtakanna í Rafah-borg. Benjamín Netanjahú forsætisráðherra hét því í fyrrakvöld að Ísraelsmenn myndu berjast þar til „fullnaðarsigri“ yrði náð yfir Hamas.

Leiðtogar Kanada, Ástralíu og Nýja-Sjálands skoruðu hins vegar í gær á Ísraelsmenn að hætta við yfirvofandi sókn sína inn í Rafah-borg, þar sem slík aðgerð myndi hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir þær 1,5 milljónir óbreyttra borgara sem leitað hafa skjóls í borginni.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson