Hjónin Katrín og Pétur á skíðum í Cortina d'Ampezzo í Dólómítafjöllunum á Ítalíu.
Hjónin Katrín og Pétur á skíðum í Cortina d'Ampezzo í Dólómítafjöllunum á Ítalíu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Katrín M. Guðjónsdóttir fæddist 16. febrúar 1974 í Reykjavík en ólst upp á Seltjarnarnesi. Hún er fjórði ættliður Seltirnings. „Æskuminningar af Nesinu eru góðar. Ég tók virkan þátt í íþróttastarfi og skátum og æfði fjölmargar íþróttir eins og handbolta, fótbolta, ballett og skíði

Katrín M. Guðjónsdóttir fæddist 16. febrúar 1974 í Reykjavík en ólst upp á Seltjarnarnesi. Hún er fjórði ættliður Seltirnings.

„Æskuminningar af Nesinu eru góðar. Ég tók virkan þátt í íþróttastarfi og skátum og æfði fjölmargar íþróttir eins og handbolta, fótbolta, ballett og skíði. Mikið var um útiveru, þessa hefðbundnu útileiki, skauta á Seltjörn og sofið í Gróttuvita og prílað upp á Gulastein. Áhugamálin þegar leið á unglingsaldurinn voru meira tengd ljósmyndun, myndlist og litafræði.

Ég hef alltaf haft áhuga á fólki og náttúrunni. Með árunum lærir maður svo að velja rétt fólk í kringum sig og er svo heppin hafa gott fólk í kringum mig, stóra vinahópa og sterkt bakland.“

Katrín fór í sveit í Steinnesi í Þingi í Austur-Húnavatnssýslu. „Sú dvöl hafði sterk áhrif á mig og kveikti áhuga minn t.d. á hestum. Ég er mikill dýravinur og þarf að hafa dýr í mínu nærumhverfi. Sveitin er mér kær.“

Katrín er viðskipta- og markaðsfræðingur með MBA-gráðu frá Háskóla Íslands. Hún var til náms í Álaborg í Danmörku áður og lærði markaðsfræði og grafíska hönnun þar. Auk þess hefur hún kennsluréttindi á grunn- og framhaldsskólastigi. Hún situr í stjórn nokkurra fyrirtækja.

Hún hefur starfað sem sviðsstjóri markaðs- og sölusviðs hjá Men&Mice og stýrt þar markaðssókn beggja vegna Atlantshafsins. Þar áður starfaði Katrín sem framkvæmdastjóri hjá fjártæknifélaginu Alva, var markaðsstjóri olíufélaganna N1 og Skeljungs, og hjá heildversluninni Innnes auk þess að starfa að markaðsmálum fyrir Símann.

Katrín var ráðin framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga Norðurlands vestra haustið 2022. Sveitarfélögin eru fimm talsins: Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagafjörður, og eru íbúarnir 7.500 samtals.

„Við hjónin ákváðum á miðjum starfsferli að gera stóra breytingu, flytja norður og beina kröftum okkar að uppbyggingu samfélags á Norðurlandi vestra. Fyrir borgarbarn eins og mig var það mikil breyting að flytjast norður og verða hluti af minna samfélagi.“

Katrín er formaður ÍMARK, samtaka markaðsfólks á Íslandi, og hefur setið í stjórn þar frá árinu 2019. Hún hefur yfirgripsmikla reynslu sem stjórnandi og víðtæka reynslu úr atvinnulífinu hér á landi og í alþjóðaumhverfinu. „Markaðsmál hafa alltaf skipt mig máli enda eru þau stór hluti af hjólum atvinnulífsins.“

Katrín hefur mikinn áhuga á allri útivist. „Öll mín hreyfing er úti og ég reyni að hreyfa mig daglega. Fjöllin kalla á mig og ég stunda jöklaferðir og fjallgöngur, göngu- og svigskíði, og fjallahlaup. Ég hef kynnst frábæru fólki í útileikjum fullorðinna og er þakklát fyrir að hafa heilsu til og mann sem er alltaf tilbúinn til að koma út að leika í hvaða veðri og vindi sem er.“

Fjölskylda

Eiginmaður Katrínar er Pétur Arason, f. 27.7. 1970, verkfræðingur og sveitarstjóri Húnabyggðar. „Við Pétur höfum verið saman síðan ég var 18 ára og hann er minn sálufélagi. Við erum afar náin hjón og höfum þroskast í gegnum lífið saman, nokkuð vel þótt ég sjálf segi frá. Við eigum tvö heimili, búum á Blönduósi og Kársnesi í Kópavogi sem er uppeldisheimili barna okkar.“ Foreldrar Péturs: Þórunn Pétursdóttir, f. 23.4. 1942, búsett í Kópavogi, og Ari Hermannsson, f. 5.1. 1941, d. 25.8. 1973.

Börn Katrínar og Péturs eru: 1) Sunneva Rán, f. 9.3. 1994, verkfræðingur hjá Controlant, búsett í Kópavogi. Maki: Sigurður Kristinsson, f. 23.3. 1994, verkfræðingur og framkvæmdastjóri. Börn þeirra eru Yrja Katrín, f. 12.7. 2017, og Tindur Huginn, f. 24.6. 2021; 2) Þórunn Salka, f. 12.7. 1995, vörumerkjastjóri hjá 66°Norður og söngkona, búsett í Reykjavík. Maki: Jóhann Páll Ástvaldsson, f. 11.7. 1991, alþjóðastjórnmálafræðingur og verkefnastjóri; 3) Pétur Ari, f. 17.2. 2003, hestamaður, búsettur á Blönduósi.

Systkini Katrínar eru Jóhann Guðjónsson, f. 20.11. 1963, húsasmiður, búsettur í Reykjavík; Kjartan Guðjónsson, f. 8.2. 1972, sjálfstætt starfandi, búsettur í Reykjavík, og Svanborg Guðjónsdóttir, f. 25.5. 1978, umhverfisverkfræðingur, starfandi og búsett í Danmörku.

Foreldrar Katrínar eru hjónin Helga S. Jóhannsdóttir, f. 4.3. 1946, hárgreiðslumeistari, og Guðjón Helgason, f. 5.7. 1943, fyrrverandi sölustjóri. Þau eru búsett í Reykjavík.