Björn Leví Gunnarsson
Björn Leví Gunnarsson
Ein helsta mantran í efnahagsmálum undanfarinna áratuga er að það þurfi nú bara að stækka kökuna. Þarna er auðvitað verið að tala um þjóðarkökuna sem einhvers konar myndlíkingu við hagkerfið. Samanburðurinn er hins vegar frekar ósmekklegur þegar nánar er skoðað

Ein helsta mantran í efnahagsmálum undanfarinna áratuga er að það þurfi nú bara að stækka kökuna. Þarna er auðvitað verið að tala um þjóðarkökuna sem einhvers konar myndlíkingu við hagkerfið. Samanburðurinn er hins vegar frekar ósmekklegur þegar nánar er skoðað.

Þegar við ræðum efnahagsmálin á svona einfaldan hátt, að fyrir framan okkur sé kaka sem táknar verðmæti samfélagsins sem við þurfum svo að skipta á einhvern sanngjarnan hátt, er það frekar súrrealísk umræða því staðreyndin er sú að mörgum eru skammtaðar sneiðar og sumum er einfaldlega ekki boðið. Pólitísk umræða um efnahagsmál ætti miklu frekar að snúast um það hverjum er boðið í veisluna og hvernig á að skipta kökunni á milli gestanna.

Það er frekar mikilvægt að við áttum okkur á þessu, því þau sem vilja fá völdin til þess að skipta kökunni vilja yfirleitt beina athyglinni að einhverju öðru. Það má ekki skoða hvernig kökunni er í raun og veru skipt heldur er það lagt á fólk að eiga að stækka kökuna í þeirri veiku von að fá einhvern tíma stærri sneiðar.

Jú, vissulega stækkar kannski sneiðin okkar þegar við leggjum okkur fram og „framleiðum“ meira. Hér er orðið framleiðsla ákveðin blekking. Framleiðni kennara og heilbrigðisstarfsfólks er til dæmis ekki metin á sama hátt og framleiðni verðbréfamiðlarans eða fasteignasalans – þrátt fyrir að vera margfalt verðmætari fyrir samfélagið.

En aftur að sneiðinni. Vissulega stækkar sneiðin kannski þegar færri ljósmæður sinna fleiri mæðrum og börnum, svo miklu fleiri mæðrum að ljósmæður telja öryggi sjúklinga ógnað. Vandamálið er að það stækkar sneiðina hjá þeim sem skipta kökunni jafnvel meira. Á undanförnum árum hefur eignastaða fólks rokið upp á meðan skuldir hafa ekki hækkað eins mikið. Aðalástæðan fyrir því er hækkun á húsnæðisverði án sambærilegrar hækkunar skulda. Staðreyndin er samt sú að fólk þarf að hafa þak yfir höfuðið og dýrara eigið húsnæði þýðir að allt annað íbúðarhúsnæði hækkar. Þannig að ef fólk flytur sig til á fasteignamarkaðnum þá græðir það ekkert á sinni hækkun, húsnæðið sem það flytur í hefur líka hækkað. Innkoman fyrir næstu kynslóð er því enn erfiðari.

Leigjendur, hins vegar, fá ekkert að vera með í veislunni. Leigjendur fá enga kökusneið né er þeim skömmtuð sneið af veisluborði „verðmætari“ húsnæðismarkaðar. Fyrir leigjendur er kakan bara lygi. Óljóst loforð um boð í veisluna einhvern tíma í framtíðinni kannski. Ef vel gengur að byggja og eitthvert jafnvægi kemst á húsnæðismarkað. Það, eða kannski bara verðtryggt lán.

Þetta er hagkerfið okkar í hnotskurn. Kaka sem bara sumir fá að smakka á svo lengi sem réttu aðilarnir fá að skera sneiðarnar. Öll hin þurfa bara að kaupa sér núðlur.

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is