Þjónusta Fjármögnun Landspítalans byggist nú á þjónustu.
Þjónusta Fjármögnun Landspítalans byggist nú á þjónustu. — Morgunblaðið/Ómar
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Landspítalinn var rekinn með nokkur hundruð milljóna afgangi á nýliðnu rekstrarári samkvæmt bráðabirgðauppgjöri sem nú liggur fyrir. Það er fyrsta rekstrarárið þar sem spítalinn fær greitt samkvæmt samningi milli stofnunarinnar og Sjúkratrygginga Íslands um þjónustutengda fjármögnun.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Landspítalinn var rekinn með nokkur hundruð milljóna afgangi á nýliðnu rekstrarári samkvæmt bráðabirgðauppgjöri sem nú liggur fyrir. Það er fyrsta rekstrarárið þar sem spítalinn fær greitt samkvæmt samningi milli stofnunarinnar og Sjúkratrygginga Íslands um þjónustutengda fjármögnun.

Samningurinn var undirritaður árið 2021 en lengi hafði verið stefnt að því að spítalinn, sem er grunnstoðin í íslenskri heilbrigðisþjónustu, yrði keyrður eftir slíku kerfi. Með því eru afköst spítalans á hverjum tíma beintengd við þann árangur sem hann sýnir við veitingu þjónustu. Kerfi af þessu tagi hefur verið við lýði við margar öflugustu heilbrigðisstofnanir Evrópu um langt árabil.

5% umfram væntingar

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins stóð Landspítalinn undir þeim kröfum sem lagt var upp með og gott betur. Þannig hafi afköst starfseminnar verið 5% umfram áætlanir.

Á fjáraukalögum samþykkti Alþingi sérstaka aukafjárveitingu til spítalans til þess að umbuna honum að miklu leyti fyrir þá auknu þjónustu sem hann veitti á liðnu ári.

Samkvæmt fyrrgreindu uppgjöri fjölgaði skurðaðgerðum á Landspítala um tæp 8% milli áranna 2022 og 2023. Jafngildir það 1.500 aðgerðum eða um 30 aðgerðum í viku hverri. Þá hækkaði einnig hlutfall aðgerða sem framkvæmdar eru án sólarhringsinnlagnar. Legudögum á spítalanum fjölgaði um liðlega 4% og þjónusta dag- og göngudeilda jókst um tæplega 8% milli ára.

Gestur Spursmála í dag

Rafræn samskipti við sjúklinga jukust um 7% og er það í samræmi við áherslur stjórnenda spítalans á að ýta stofnuninni áfram í átt til frekari tækniþróunar.

Í svari spítalans við fyrirspurn Morgunblaðsins segir að það sé markmið stofnunarinnar að halda sig ætíð innan fjárheimilda og eiga í góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld og Alþingi þegar ófyrirséð verkefni á heilbrigðissviði kalli á aukin útgjöld.

Þá segir þar einnig að spítalinn vilji nýta fjárheimildir sínar vel til að gera góða þjónustu við sjúklinga betri.

„Vonir standa til að yfirstandandi skipulagsbreytingar á Landspítala verði til þess að efla þjónustuna enn frekar og auka getu spítalans til að takast á við viðvarandi áskoranir í starfseminni.“

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans verður gestur Spursmála á mbl.is klukkan 14 í dag.