Hellisheiðarvirkjun Jennifer Granholm orkumálaráðherra Bandaríkjanna mun heimsækja Hellisheiðarvirkjun í tengslum við samkomulagið.
Hellisheiðarvirkjun Jennifer Granholm orkumálaráðherra Bandaríkjanna mun heimsækja Hellisheiðarvirkjun í tengslum við samkomulagið. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Tvíhliða samstarf Bandaríkjanna og Íslands á sviði orku- og loftslagsmála verður kynnt til sögunnar í dag á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, sem komin er hingað til lands í þessum tilgangi.

Sviðsljós

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Tvíhliða samstarf Bandaríkjanna og Íslands á sviði orku- og loftslagsmála verður kynnt til sögunnar í dag á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og Jennifer Granholm, orkumálaráðherra Bandaríkjanna, sem komin er hingað til lands í þessum tilgangi.

Segir Guðlaugur Þór að mjög mikilvægt sé að vera í beinum samskiptum við bandarísk stjórnvöld þegar kemur að því að koma verkefnum á þessu sviði á laggirnar, því erfitt sé fyrir einstaka aðila að athafna sig í Bandaríkjunum.

„Það er einlægur vilji bandarískra stjórnvalda að eiga þetta samstarf við okkur, því þau vita að við erum í forystuhlutverki þegar kemur að nýtingu jarðvarmans og í loftslagsmálum sömuleiðis,“ segir Guðlaugur Þór.

Bein lína á milli fyrirtækja

„Forsagan er sú að þetta mál kemur upp úr fundi mínum með aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, Andrew Light, sem ég hitti á tvíhliða fundi okkar á Arctic Circle í haust og nú erum við að hefja formlegt samstarf íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Stjórnvöld eru samt ekki aðalatriðið, því þarna er verið að opna beina línu á milli fyrirtækja beggja landa sem starfa í orku- og loftslagsmálum, en einnig háskólanna og stofnana. Þetta er samkynja vettvangur og þeir sem ég hef beitt mér fyrir að stofnaðir væru á vettvangi landanna, bæði í öryggis- og varnarmálum og í efnahags- og viðskiptamálum sem ég kom á í minni tíð sem utanríkisráðherra,“ segir Guðlaugur Þór.

Margir sækjast eftir samstarfi

„Þetta þýðir að reglubundið samráð verður á milli stjórnvalda og fyrirtækja í báðum löndum um hvernig við komum verkefnum af stað, en háskólarnir og fleiri koma einnig að þessu. Það eru margir sem sækjast eftir samstarfi af þessu tagi og mikilvægt fyrir okkur að fá þennan aðgang. En við verðum sömuleiðis í samstarfi við Bandaríkjamenn við að styðja samstarfsverkefni sem þeir vinna að í Austur-Evrópu og víðar í grænum orkumálum og loftslagsmálum og leggjum þar til okkar jarðhitaþekkingu. Þetta snýr ekki bara að Íslandi og Bandaríkjunum, heldur einnig að öðrum löndum þar sem þeir eru í samstarfi á þessum vettvangi. Á þetta leggja þeir ríka áherslu,“ segir Guðlaugur Þór.

Spurður um tækifærin sem í þessu felast fyrir Ísland og innlend fyrirtæki, segir Guðlaugur Þór að miklir möguleikar séu á jarðhitanýtingu í Bandaríkjunum, þar séu augljós tækifæri.

„Við erum einnig að vinna að verkefnum eins og djúpborunum þar sem borað er niður í kvikuna sem hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og það væri mjög æskilegt að fá þarlenda aðila í samstarf á þeim vettvangi. Það mun breyta öllu þegar sú tækni kemst á laggirnar. Einnig má nefna fyrirtækin Running Tide og Carbfix sem dæmi um áhugaverð verkefni hér, þar eru endalausir möguleikar,“ segir hann.

Mikil tækifæri í jarðvarma

„Það eru mikil tækifæri í jarðvarma í Norður-Ameríku, en einnig fyrir fyrirtæki í kolefnisföngun eins og Carbfix sem vakið hefur mikla athygli. Verið er að skoða hvernig nýta megi slíka lausn t.d. í Minnesota, svo eitthvað sé nefnt.

Allt það sem gengur upp á Íslandi getur líka gengið upp á öðrum stöðum í heiminum, og í Bandaríkjunum þar með töldum. Bandaríkin munu njóta góðs af þessu samstarfi. Það er enginn vafi um að þetta er tímamótasamkomulag og við erum mjög ánægð með að það hefur nú komist á laggirnar. Ég hef lagt á það áherslu að efla og styrkja samstarf okkar við Bandaríkin. Það eru gríðarlega miklir hagsmunir fyrir okkur í því fólgnir, sem og þá líka,“ segir hann.

Guðlaugur Þór bendir og á að stjórnvöld séu í samstarfi við fjölmarga í íslensku atvinnulífi á þessu sviði, m.a. Grænvang, en á vettvangi hans er verið að selja íslenskar lausnir og íslenskt hugvit og segir hann Grænvang verða nýttan þegar menn sjái tækifæri, eða rekist á hindranir og sömuleiðis til að koma verkefnum af stað.

Ný viðskiptatengsl

„Það verða haldnir reglulegir fundir okkar með bandarískum stjórnvöldum þar sem við munum kynna hvað íslensk fyrirtæki og háskólastofnanir hafa upp á að bjóða. Þar eru grænorkuverkefnin augljós, við erum með sérstöðu þegar kemur að jarðvarmanum sem margir líta til. Þetta samstarf hjálpar einnig til við margt fleira, svo sem að búa til ný viðskiptatengsl, ryðja hindrunum úr vegi, bæta aðgang að styrkjum og fleira. Nú, þegar við erum búin að formgera samstarfið, þá er verkefnið að eiga samtal og samstarf við atvinnulífið og háskólastofnanir um framhaldið, því verkefnin verða til þar. Við erum að koma á beinni línu á milli íslenskra og bandarískra aðila,“ segir Guðlaugur Þór.